11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

38. mál, fjárlög 1950

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. ásamt tveimur öðrum hv. þm., þeim hv. þm. N-Ísf. og hv. 6. landsk. þm. Till. er á þskj. 712, XVI, um það „að greiða til útvegsmanna og hlutarsjómanna á Vestfjörðum til jafns við framlög sveitarfélaga þar vegna mjög tilfinnanlegs aflabrests á vetrar- og vorvertíð 1950, en þetta er þriðja þorskvertíð í röð, sem hefur brugðizt við Djúp, allt að 150 þús. kr.“

Ástæðan til þess, að við flytjum þessa till., er sú, að vetrar- og vorvertíð hefur nú brugðizt þrisvar sinnum í röð, og þetta sinn mest, þannig að heita má, að fáir eða engir bátar hafi fiskað fyrir tryggingu, sem þó er nokkru lægri, en hér fyrir sunnan. Nokkur sveitarfélög ha£a ráðizt í það að tryggja útvegsmönnum lágmarksverð fyrir fiskinn, og hefur það valdið þeim miklum erfiðleikum, án þess þó að koma að fullum notum, og má segja, að hallærisástand sé nú þar þrátt fyrir það.

Þrír fyrrv. stjórnarflokkar, Alþfl., Sjálfstfl. og Framsfl., höfðu lofað því, að aflatryggingasjóður skyldi taka til starfa ekki síðar en í ársbyrjun 1949, en þetta loforð hefur ekki verið efnt, og aflatryggingasjóður tekur ekki til starfa fyrr en á miðju þessu ári. Það myndast því eyða í aflatryggingarnar fram að þeim tíma, að aflatryggingasjóðurinn tekur til starfa. Ef aflatryggingasjóðurinn hefði verið tekinn til starfa nú, hefðu útvegsmenn og sjómenn á Vesturlandi getað fengið sitt úr honum, en þar sem svo hefur nú ekki orðið, höfum við freistazt til þess að flytja þessa till., ef Alþingi vildi veita umræddum aðilum hjálp í vandræðum þeirra. Ég hygg, að mér sé óhætt að segja,að hvergi hefur aflabresturinn orðið eins mikill og á Vestfjörðum, þó að vertíð hafi brugðizt víða annars staðar. Vonast ég til þess, að þessi till. verði samþ., því að hér er ekki um stóra fjárupphæð að ræða, en Alþingi mundi með því sýna lit á því að koma til móts við sveitarfélög um það að bæta hlutarsjómönnum og útvegsmönnum það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir.