11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

38. mál, fjárlög 1950

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 712 Il. brtt. varðandi hafnarframlagið til Vestmannaeyjabæjar. Hv. fjvn. hefur ætlað þessari höfn 200 þús. kr. Við 2. umr. fjárlagafrv. fluttu tveir hv. þm. Sósfl. brtt. um að hækka fjárveitinguna upp í 280 þús. kr., og var hún felld. Ég legg til, að þessi upphæð sé 250 þús. kr. Það er náttúrlega ekki hægt fyrir mig að kveða á um það, hvaða mælikvarða hv. fjvn. viðhefur, þegar hún hnitmiðar niður það, sem fer til hafnarmannvirkja. En ég held, að ef litið væri á það, hvar það hefur borgað sig fyrir ríkissjóð að bæta hafnarskilyrði og hvar þau skila fyrstum og mestum arði í ríkissjóð, þá megi bæði einn og annar bera kinnroða fyrir það, hvað Vestmannaeyjahöfn er haldið niðri af alefli, þrátt fyrir þann mikla bátafjölda, sem þarna er gerður út, hvergi á landinu annar eins á einum stað — og þrátt fyrir það að aflaafköst og gjaldeyrismyndunarafköst eru miklu meiri þar en í nokkurri annarri fiskihöfn, að síldarhöfnum undanskildum, þegar vel árar. Það er ákaflega erfitt fyrir mig að koma mínum umbjóðendum í skilning um, að réttlæti sé í þeim úthlutunum á fé, sem hv. fjvn. hefur tíðkað í hafnarmálum, ekki aðeins á þessu þingi, heldur líka á síðasta þingi, að því er snertir Vestmannaeyjar. Og ég veit að vísu, að hv. fjvn. er öflugt apparat innan þessara veggja. En ég mun nú samt sem áður freista þess að leggja það undir réttdæmi hv. þm., hvort þannig eigi að fara með lífmestu og efnilegustu og blómlegustu verstöðvar landsins, að þær séu settar niður fyrir aðrar, sem eru miklu síðri, og það ekki í eitt skipti, heldur hvað eftir annað.

Þá flyt ég hér að nýju brtt. varðandi flugvallagerðir og lendingarbætur fyrir flugvélar. Ég tók aftur, samkv. tilmælum hv. frsm. fjvn., við 2. umr. málsins brtt. þá, sem ég þá flutti, í þeirri von, að hæstv. flugmálarh. og aðrir í ríkisstj., sem og hv. fjvn., gerðu hér á nokkra bragarbót. Og að vísu hefur verið sýndur vottur í því efni. En ég tel samt, að það sé af mikilli skammsýni gert að skera svo við neglur sér framlög til þessara sérstöku samgöngumála eins og raun ber vitni í till. hv. fjvn. Ég vil taka fram í þessu efni, að gagnrýni mín á þessari till. beinist ekki gegn hv. form. fjvn. og yfir höfuð ekki gegn hv. fjvn., heldur gegn hæstv. ríkisstj. Mér er það satt að segja alveg óskiljanlegt, eftir hvaða röksemdum hæstv. ríkisstj., bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. flugmálarh. sérstaklega, hefur komizt að þeirri niðurstöðu í flugmálunum, að sú tegund samgangnanna geti á þessu ári komizt af með lægri upphæð til að bæta aðstöðu sína til lendingarbóta fyrir flugvélar heldur en 1948. Þá var ætluð rúml. 11/2 millj. kr. til flugvallagerða og lendingarbóta fyrir flugvélar. Og menn mega vera vissir um, að þótt nokkurt spor hafi verið stigið í því efni að bæta lendingarskilyrði fyrir flugvélar hér á landi, þá er það ekki nema ákaflega lítil byrjun á því, sem þarf að gera, og því, sem þarf að vera, ef flugsamgöngur eiga að búa við örugg skilyrði hvað lendingarstaði snertir. Sérstaklega kemur það í ljós, hversu skammsýnin er mikil og hversu menn láta undan áróðri í þessu efni heldur en að brúka sitt hyggjuvit, þegar bornar eru saman fjárveitingar til vega og til flugvallagerðar. Af hverju er munurinn á þessum fjárveitingum svo geysilega mikill? Af engu öðru en því, að það eru fleiri þm., sem toga út fé til vega en til flugvallamála, þó að þeir ættu að réttu lagi að finna hjá sér jafnmikla hvöt til að vinna að því, að flugvallarskilyrði væru góð, því að þótt margt geti viljað til á vegum úti, þá er það lítið í samanburði við það, sem getur viljað til í sambandi við ótrygga flugvelli og erfiðar lendingar vegna hins mikla fjölda af fólki, sem ferðast flugleiðis nú orðið.

Þessar fjárveitingar eru ekki bara til að byggja flugvelli, þó að það sé orðað svo í fjárl., heldur eru það einnig vitar og leiðarljós og merki, sem flugsamgöngur þurfa að hafa, til þess að hægt sé að fljúga með öryggi milli staða hér á landi. Ég hef t.d. fyrir framan mig áætlun, mjög niðurskorna, frá flugráði um, hvernig ætti að fara með 11/2 millj. kr. framlag, ef það hefði fengizt, og af þeirri áætlun sést það, að 515 þús. kr. af því þarf til þess að greiða fyrir verk, sem búið er að vinna, þar á meðal 150–200 þús. kr., sem eru ógreiddar fyrir flugvelli á Sauðárkróki og í Vestmannaeyjum, fyrir radiótæki 65 þús. kr., sem líka er búið að afla, og flugvélaverkstæði á Reykjavíkurflugvelli 200 þús. kr. Flugvélaverkstæðið er komið upp, eins og allir vita. Þarna er flugráð búið að festa fyrir fram hálfa milljón króna af því fé, sem nú kann að verða veitt til flugmála. Þá koma nauðsynlegar framkvæmdir á árinu, og má þar nefna stefnuvita á Suðurnesjum. Stefnuviti þessi er að dómi allra, sem vit hafa á, næsta lífsnauðsynlegur, því að enn þá er það svo, að stefnuviti til að fljúga eftir til Reykjavíkur, þar sem svo oft er þoka og dimmviðri, er hvergi nærri eins og vera skyldi. Það, sem vantar hér, er betri stefnuviti til leiðbeiningar til innflugs á Reykjavíkurflugvöll. Þessi stefnuviti kæmi að vísu fleirum til góða en flugvélum, því að hann yrði einnig skipum hin mesta stoð og stytta. Ég hef heyrt fleygt, að hæstv. flugmálaráðh. hafi átt að segja, að það væru vitamálin, sem ættu að sjá fyrir stefnuvita þessum. En fyrir stuttu síðan heyrði ég hv. þm. Hafnf. lýsa nauðsyn vitamálanna og því, hversu fjárveitingar væru skornar við nögl til vitamála, og er þá sýnilegt, að hann hefur ekki á sínu valdi fé til þessa stefnuvita, sem svo mikil þörf er að koma upp. Það er hér eins og oftar í okkar þjóðfélagi, að ráðherrar eða forstjórar fyrir ýmsum ríkisstofnunum henda á milli sín nauðsynlegum framkvæmdum eins og fótbolta, með þeim forsendum, að þessi og þessi eigi að kosta það, sem um er að ræða, og á meðan er gleymt nauðsyninni og sjálfri framkvæmdinni. Þetta er ein nauðsynlegasta framkvæmdin, sem fyrir liggur á þessu ári.

Þá er endurbót á flugvellinum á Fagurhólsmýri í Öræfum, en eins og menn kannast við, er farið að fljúga þangað ekki aðeins með fólk, heldur og með vörur.

Þá er bryggja á Egilsstöðum. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er kunnugt, að það verður að bera farþega á bakinu úr flugvélunum til lands.

Þá er endurbót á flugvellinum í Vestmannaeyjum, til þess að gera hægara innflugið austan frá en nú er, og tel ég það hiklaust lífsnauðsyn fyrir þá, sem fljúga þá leið.

Þá liggur fyrir endurbót á símakerfi vegna veðurstofunnar og alþjóðaflugs. Þetta símakerfi er mjög tæpt og því ekki að treysta. Það er afar áríðandi, að allt hið tekníska sé sem fullkomnast, svo að því megi treysta. Mennirnir eru að sjálfsögðu ófullkomnir, en það má ekki koma fyrir, að mistök verði vegna ófullkomins símakerfis.

Að lokum var fyrirhugað að verja 200 þús. kr. til að undirbúa flugvöll á Akureyri. Ég hef ekki mjög oft flogið norðurleiðina en ég hef þó komið á Melana. Ég býst við, að allir, sem hafa farið þá leið, geti séð, að Melarnir eru ekki neinn framtíðarflugvöllur. Hins vegar eru langmestar ferðir í lofti innanlands á leiðinni Reykjavík-Akureyri, eins og er. Akureyri verður meir og meir nokkurs konar miðstöð fyrir flug á norðurhjara landsins. Þess vegna er ljóst, að Akureyri getur ekki áframhaldandi unað við þau lélegu skilyrði, sem eru þar á vellinum.

En þegar ég nefni Akureyri, Egilsstaði, Vestmannaeyjar eða Sauðárkrók, þá er það ekki bundið við þessa staði fremur en aðra. Þetta er ekki einungis mál þessara kjördæma eða héraða. Enginn veit, hvenær hann þarf að leggja leið sína á þessa staði. Það er ekki kjördæmamál eða mál þessara plássa. Það er alþjóðarmál að gera það, sem unnt er, til að greiða fyrir þessum samgöngum, sem alltaf eru að verða notaðar af fleiri og fleiri mönnum. Það er alþjóðarmál, að Alþingi hlynni að þessum samgöngum móts við það, sem gert er um aðrar samgöngur, en á það tel ég skorta samkvæmt till. hæstv. ríkisstj. og fjvn. En til þess að hv. þm. eigi þess kost að gera bragarbót, flyt ég varatill., ef allt um þrýtur, að það verði þó veitt 11/2 millj. kr. Er það þó minna en var gert 1948, og allir vita, að krónan á árinu 1948 hafði allt annað gildi, jafnvel líka til framkvæmda innanlands, en á árinu 1950. Hvernig sem á þetta er litið, hvort sem Iitið er á samgöngur innanlands eða við útlönd, eða litið á kaupmátt krónunnar fyrr og nú, þá tel ég, að hvorki sé rétt né sanngjarnt né hyggilegt að veita ekki meira til þessara mála en hæstv. ríkisstj. og hv. fjvn. hafa hér lagt til.

Loks hef ég leyft mér að flytja tvær brtt. við 22. gr. Þær eru varðandi tvær þáltill., sem ég hef flutt í Sþ., en þar sem er svo áliðið þings og till. þessar hafa, önnur að óþörfu, en önnur af eðlilegum ástæðum, ekki fengið meðferð hjá fjvn., þá þykir mér rétt að bera þessi mál fram í sambandi við heimildagr. og fá þannig nokkurs konar viljayfirlýsingu frá Alþingi um þessi mál. Önnur snertir mál, sem hefur verið nýlega hreyft hér, að stuðla að því, að loftskeytastengurnar á Melunum verði fluttar burt. Ég hef áður sýnt fram á þá hættu, er af þeim getur stafað, og fært rök að því, að þær eigi að fara burt, og skal ég ekki fjölyrða meir um það. Þessi þáltill. er nýlega komin í hendur fjvn., en þar sem þingi er bráðum lokið, þá efast ég um, að hún komi til fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. Ég hef því leyft mér að flytja brtt. um þetta mál við 22. gr. fjárl.

Hin till. er undir sama lið, um vita á Faxaskeri. Hún er flutt fyrir löngu, en fjvn. hefur ekki látið frá sér heyra, hvort hún er með henni eða móti. Af þeim ástæðum vil ég freista þess, hvort Alþingi vill ekki veita stj. heimild til þessarar framkvæmdar, ef svo vel verður, að hæstv. ríkisstj. skyldi fallast á, að þetta yrði gert, ef fé yrði fyrir hendi til þess.

Aðrar brtt. hef ég ekki sjálfur flutt við þetta frv. Ég er þeirrar skoðunar, að það beri að fara varlega í útgjöldin, og ég tel ekki, að með þeim till., sem ég hef flutt af brýnni nauðsyn, sé stefnt út í neinn voða. Mér finnst satt að segja, að till. hv. þm. við þessa umr. séu það hóflegar, að hæstv. ríkisstj. þurfi ekki að óttast, að af þeim stafi nein hætta, jafnvel þó að talsvert af þeim yrði samþ. Flestar till. koma frá ríkisstj. sjálfri. Það á líka svo að vera. Hún á þar mestu um að ráða. Mér er nær að ætla, að aldrei nú um langt skeið hafi við 3. umr. fjárl. verið farið eins hóflega í sakirnar með beiðnir um hækkanir og fjárveitingar eins og nú af hálfu einstakra þm.

Um fjárl. í heild vil ég segja það, — ég hef sagt það áður og segi það enn, — að það er gott, að þeirri stefnu er nú lokið, að fjárl. séu afgr. með svo tæpri niðurstöðu, að sýnilegt sé, að reki í strand, ef illa tekst til, því að við höfum fengið nóg af slíkri fjárlagaafgreiðslu. Og þeir, sem hafa orðið fyrir að framkvæma þá hluti og fara með þau mál, hafa, a.m.k. sumir hverjir, fengið nóga palladóma um fjármálaóreiðu og því um líkt, sem nú gengur hátt í ræðum manna í þingsalnum. Ég á ekki kost á að tala hér við útvarpsumr., svo að ég vil taka hér fram, að það hefur verið keppzt við, bæði af mínum flokksmönnum og Framsóknarforingjunum að tala um 175 millj. kr. halla á fjárl. í þau 3 ár, sem ég var mest riðinn við fjármálastjórnina. Ég hef látið mér hægt um þessa hluti. Ég veit, að þetta er borið fram mikið í áróðursaugnamiði. Ég hef látið nýlega út af þessu afhenda mér útdrátt um afkomu ríkissjóðs, eins og hún er á þessum árum. Það getur ekki verið nákvæmt fyrir öll árin, því að árið 1949 er ekki nærri því gert upp til fulls enn. En það, sem hér er um að ræða, er ekki það, að hér sé eyðsla upp á 175 milljónir. Greiðsluhalli þessara ára er 165 milljónir, en eignaaukning ríkissjóðs á sama tíma er 161 milljón. Þar eru ýmsir hlutir, svo sem strandferðaskip, skólabyggingar og ýmislegt fleira, sem hv. þm. kannast við, þegar nöfnin eru nefnd. Þessu fé hefur því ekki verið kastað á glæ, heldur hefur það farið í fjárfestingu, sem Alþingi, eða a.m.k. meiri hl. þess hefur staðið að, að samþ. Ég vil nota þetta tækifæri til að minna á þetta við þessar umr., af því að ég tek ekki þátt í útvarpsumr. Afkoma ársins 1947 er ekki verri en það, að rekstrarhallinn varð 14 milljónir, þrátt fyrir það að á því ári varð ríkisstj. að taka við skell af síldarkúfnum, sem aldrei reyndist vera neinn kúfur. 1948 er rekstrarafgangurinn 8 milljónir, þó að greiðsluhallinn væri fleiri milljónir, af því að svo mikið var látið í fjárfestingu. Nú er ráðgert að afgr. fjárl. með rekstrarafgangi. Það hefði verið betur fyrr tekinn upp sá siður. Ég ætla, að áætlun fjvn. um þá hækkun á tekjunum, sem leiðir af gengislækkuninni, sé ákaflega varleg, og hún á að vera það. Þegar fjárl. voru afgr. fyrir árið 1949, gerði ég það nauðugur að áætla verðtollinn 60 milljónir. Lengi fram eftir árinu leit út fyrir, að þar yrði stór skekkja á, en það kom samt sem áður í ljós, að verðtollurinn náði því og meira en það. Þess vegna hlýtur áætlunin, sem nú liggur fyrir, að verðtollurinn verði 78 milljónir, að vera í hæsta máta varleg. Ég vil ekki vera með neina spádóma í því efni, en ég fullyrði, að sú áætlun er í hæsta máta varleg, nema eitthvað algerlega sérstakt komi fyrir, sem svo að segja stíflar innflutning á þeim vörum, sem verðtollurinn er reiknaður af. Söluskatturinn er líka ákaflega varlega áætlaður í till. n. Það er hóflega af stað farið að gera ráð fyrir, að hann verði 47,5 millj. kr., eins og n. gerir ráð fyrir. En þetta er sjálfsagt gott, að spenna ekki allt of hátt áætlunina, heldur gera þeim, sem með fjármálastjórnina eiga að fara, hægara fyrir að vinna bug á þeim halla, sem orðið hefur á ríkisbúskapnum undanfarin ár. Það varð að gera fyrr eða síðar, og ég fyrir mitt leyti fagna því, að þessi stefna skuli vera tekin upp við afgreiðslu fjárl. og fjmrh. verði gert hægara um vik að hafa heilbrigða stjórn í þessum málum, en þingið hefur nú um nokkra hríð áður búið í hendur sínum fjmrh.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta mál. Ég vil ekki endurtaka neitt af því, sem ég sagði, þó að hæstv. fjmrh. sé nú að ganga í salinn. (Fjmrh.: Ég var í hliðarherbergi og heyrði mál hv. þm.) Ég vil aðeins benda á það, að ég held, að það sé ekki 175 millj. kr. óreiða á ríkissjóði þessi 3 ár, því að fjárfesting ríkisins á þessum þremur árum nemur meira en 160 milljónum.

Ég vona svo, að hv. þm. hafi sannfærzt af þeim rökum, sem ég hef fram fært fyrir þeim hóflegu, en bráðnauðsynlegu brtt., sem ég hef leyft mér að bera fram, og ljái þeim samþykki sitt.