11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

38. mál, fjárlög 1950

Emil Jónsson:

Eins og að líkum lætur mótuðust umræðurnar í gærkvöld að langsamlega mestu leyti af viðhorfi manna til gengislækkunarmálsins og viðbragða hæstv. ríkisstj. til þess að ráða fram úr dýrtíðar og efnahagsvandamálum þjóðarinnar. - því var þar lýst mjög ýtarlega af hv. 8. landsk. þm., Stefáni Jóh. Stefánssyni, hverjar afleiðingarnar hafa orðið af ráðstöfunum ríkisstj., svo að ég þarf þar litlu við að bæta; en þessar afleiðingar hafa í stuttu máli orðið þær, að dýrtíðin fer ört vaxandi með hverjum degi, sem líður, og það svo, að hækkunin virðist hvergi ætla að nema staðar við 11–13%, eins og sérfræðingar stj. töldu, heldur er allt útlit fyrir, að hækkunin muni nema upp undir 20% strax á byrjun. Hins vegar virðist mikið ætla að skorta á það, að gengislækkunin komi að því gagni fyrir útveginn, sem til var ætlazt og var grundvöllurinn fyrir þessum aðgerðum hjá stjórnarflokkunum.

Svör ráðherranna, að svo miklu leyti sem um svör var að ræða, voru á þá leið, efnislega, að enginn kostur hefði verið góður. Ástandið hefði verið orðið þannig, að ekki hefði verið um annað að ræða. Leiðin, sem farin var, væri sú skásta — eða raunar sú eina, sem til var — að dómi fræðimanna og sérfræðinga ríkisstj. — og Alþfl. hefði ekki getað bent á neina skárri leið til lausnar á vandanum. Framsóknarráðherrarnir minntust þess sérstaklega, að Alþfl. gæti nú ekki talað hátt, því að hans væri sökin, að miklu leyti, hvernig komið væri. Með gálauslegum ráðstöfunum á gjaldeyriseign þjóðarinnar, hækkuðu, kaupgjaldi og stöðugt vaxandi greiðsluhalla á fjárlögum, sem þeir vildu allt kenna við Alþfl., hefði það ástand verið skapað, sem óhjákvæmilega hefði borið á sér þá ráðstöfun, sem gerð var, gengisfellinguna, eins örugglega og nótt hlýtur að fylgja degi.

Ég skal nú með örfáum orðum leyfa mér að athuga þessar fullyrðingar nokkru nánar, bæði það, að gengisfellingin hafi verið bezta — og eina — tiltæka ráðið, að Alþfl. hafi ekkert lagt til málanna, og svo að lokum, að ástandið hafi verið orðið á þann veg, að ekkert annað hafi verið hægt að gera.

Þeir 2 sérfræðingar, sem unnu að samningu gengislækkunarfrv. og álitsgerðar, er því fylgdi, voru prófessor Ólafur Björnsson, núv. hv. 7. þm. Reykv., og dr. Benjamín Eiríksson. — Það vill nú svo til, að frá þessum vísindamönnum báðum eru til vitnisburðir um málið, sem ég tel rétt að kynna hér eða minna á, því að báðir hafa verið birtir áður.

Prófessor Ólafur Björnsson ritaði grein, í Morgunblaðið fyrir um það bil tveim árum um það, hvernig á efnahagsvandamálum okkar skyldi tekið. Þar segir hann, eftir að hafa rætt nokkuð uppbótaleiðina:

„Af því, sem sagt hefur verið, verður að draga þá ályktun, að ef halda eigi áfram á þeirri braut að leysa dýrtíðarvandamálin með niðurgreiðslum og uppbótum, mundi það óhjákvæmilega hafa í för með sér, að stórhækka yrði opinberar álögur frá því, sem nú er. Það er fjarri mér að vilja gylla þessa leið með því að halda því fram, að hér yrði um einhverjar smávægilegar fjárhæðar að ræða. Þjóðin mun líka áður en langt líður fá það upplýst hjá réttum aðilum, hvað þessi leið mundi koma til með að kosta í skattaálögum.

Samt sem áður verður sú röksemd ekki borin fram gegn þessari leið, að hún yrði gjaldgetu, borgaranna ofvaxin. Menn verða að gera sér ljóst, að sá möguleiki er ekki fyrir hendi, að skjóta sér undan byrðunum. Þjóðin á aðeins um það að velja, í hvaða formi hún vill taka þær á sig. Vilji menn ekki borga hærri opinber gjöld, verða menn að taka á sig tilsvarandi fjárhagslegar fórnir á þann hátt, að peningatekjur þeirra lækki, án þess að verðlag erlendra vara lækki samsvarandi (verðhjöðnunarleiðin), eða þá að greiða erlendar vörur hærra verði, án þess að tekjur þeirra hækki (gengislækkunarleiðin). Vilji menn ekkert af þessu, „leysist“ vandamálið á þann hátt, að það verður vöruskortur og atvinnuleysi, þannig að hin óumflýjanlega skerðing lífskjaranna kemur þá í því formi.

Annað mál er svo hitt, hvort skynsamlegt er að leggja hinar óumflýjanlegu byrðar á í formi skatta og annarra opinberra álagna. Má í því sambandi fyrst á það benda, að uppbætur og styrkir úr ríkissjóði eru vitanlega ekki kallaðir ofan af himnum, heldur sótt í vasa borgaranna.

Þrátt fyrir þessa og aðra annmarka, sem á þessari leið eru, verður þó varla séð, að hjá því verði komizt að fara hana enn um skeið að meira eða minna leyti. Menn geta verið þeirrar skoðunar, að það hafi verið heimska að leggja nokkurn tíma út á þessa braut. En ef skyndilega yrði með öllu horfið frá þessum úrræðum, færi ekki hjá því, að gera yrði róttækar breytingar á hagkerfinu, sem hafa mundi stórfellda röskun í för með sér. Óhagræði það, sem stórfelld niðurfærsla peningatekna eða gengislækkun hefðu í för með sér, yrði svo mikið, að slíkt mundi vega upp þá kosti, sem af niðurfellingu uppbótanna mundi leiða.

Hér skal því sleppt, að ræða það atriði, hvernig afla eigi ríkissjóði tekna til þess að standa straum af niðurgreiðslum þeim og uppbótum, sem sjálfsagt verða óhjákvæmilegar enn um skeið. Eðlilegast virðist þó að láta slíkar álögur hvíla sem mest á neyzlu, sem ekki getur talizt bráðnauðsynleg, svo sem neyzlu munaðarvara, hækka skemmtanaskatt, bifreiðaskatt o.s.frv.“

Þetta segir nú prófessorinn þá, fyrir tveim árum. En sá einn munur er á uppbótagreiðslum þá og nú, að upphæðin verður að vera hærri nú, sem til bótanna er varið, en eins og menn hafa tekið eftir í greininni, er hæð uppbótagreiðslnanna ekki aðalatriðið í hans augum, og verði upphæðin ekki tekin á þann hátt, verði bara að taka hana öðruvísi, en að hans dómi er uppbótaleiðin þá bezta leiðin.

Dr. Benjamín Eiríksson skilaði skýrslu um efnahagsmálin til fyrrv. stjórnar og mælti að vísu með gengislækkun, en þó aðeins sem einum lið í allvíðtækum aðgerðum. Hann segir:

„Það hefur þegar verið um það rætt, að æskilegt væri að bíða með að samræma innlent og erlent verðlag, unz jafnvægi hefur skapazt innanlands. Á næstu 12 mánuðum mun myndast kringum 50 millj. kr. mótvirðissjóður. Hingað til hefur Marshallaðstoðin ekki haft nein áhrif á peningalegt jafnvægi innanlands. En með myndun mátvirðissjóðsins skapast slík áhrif í beinu hlutfalli við stærð hans. Notkun hluta hans til fjárfestingar kemur ekki til greina fyrr en á næsta ári, og æskilegt að bíða með slíka notkun fjárins sem lengst. Sú upphæð, sem er um að ræða — 50 millj. kr. — nægir til þess að tryggja það, að ástandið í dýrtíðarmálunum breytist til muna.“

Ráðstafanir þær, sem hann vill láta gera fyrst og fremst, eru þessar:

„1) Dregið sé úr fjárfestingunni í því skyni, að hún verði ekki meiri á hverjum tíma en sem svarar sparifjármynduninni að óbreyttu verðlagi.

2) Lánsfjárþensla bankanna verði stöðvuð með því að gera kröfu til Útvegsbankans og sparisjóðsdeildar Landsbankans, að hvort tveggja auki ekki skuld sína við seðladeildina, að þau leggi fyrir nokkurt handbært fé og byrji síðan að greiða niður skuldir sínar við seðladeildina.

3) Fjármálum ríkisins þarf að haga þannig, að sem mestur tekjuafgangur myndist á rekstrarreikningi.“

Og fyrst að þessu loknu vill hann ræða gengislækkun, og hann dregur heldur ekki fjöður yfir þá annmarka, sem gengislækkuninni fylgja. — Þetta segja nú þeir tveir aðalhöfundar gengislækkunarfrumvarpsins.

En það er ekki nóg, að tveir tígulkóngar væru í þessu spili, heldur verða þeir að vera þrír. Hér á Alþingi hefur gefið sig fram þriðji höfundur þessara laga, hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, og hefur viljað eigna sér mjög verulegan þátt í samningu frv. Og það skyldi nú aldrei vera, að áhrifa hans hafi gætt eins mikið og hinna vísindamannanna við samningu frv.? Af fyrri vitnisburðum þeirra, sem ég hef dregið hér fram, freistast maður til að halda, að það hafi eins — og ekki síður — verið hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, sem réð því, hvernig að málinu var staðið.

Hæstv. atvmrh. sagði í gærkvöld, að Alþfl. hefði í þessu máli kosið sér það hlutskipti að berjast á móti sjálfum sér og sannfæringu sinni og að Alþfl. í hjarta sínu hefði viljað gengislækkunarleiðina, þó að hann nú þyrði ekki að viðurkenna það.

Þetta er vægast sagt mjög fjarri því að vera rétt. Alþfl. hefur ekki viljað fara gengislækkunarleiðina vegna þess, að hann telur, að byrðarnar af viðreisn sjávarútvegsins komi á þann hátt óréttlátlega niður, og verst þar, sem sízt skyldi. Hækkunin á neyzluvörum verður mest á hinum brýnustu lífsnauðsynjum, sem annaðhvort hafa verið lágt eða alls ekki tollaðar innanlands. Menn athugi t.d. hækkunina á kornvörum, kolum, olíu og þess háttar vörum, þar sem gengislækkunin kemur fram með fullum þunga, af því að allur kostnaður, sem neytendur greiða fyrir þessar vörur, er erlendur kostnaður; og athugi svo aftur hækkunina, sem orðið hefur á tóbaki og öðrum hátolluðum munaðarvörum, sem er hverfandi lítil.

Þetta er að okkar áliti rangt, og þetta hefði verið hægt að forðast. Alþfl. vildi á engan hátt skorast undan því að koma sjávarútveginum til hjálpar og að tryggja rekstur hans, en hann taldi, að það hefði verið hægt á svipaðan hátt og áður var gert og gaf góða raun.

Uppbótagreiðslurnar úr ríkissjóði voru 1947 24,2 millj. kr., 1948 25 millj. kr. og 1949 37 millj. kr. Með sérstökum ráðstöfunum var séð fyrir tekjum í ríkissjóð til að standast þessar greiðslur, og ég ætla, að þessir tekjustofnar hafi ekki brugðizt og ríkissjóður hafi á þennan hátt fengið það fé, sem hann þurfti til að standa undir þessum uppbátagreiðslum. Hitt er svo annað mál, að greiðsluhalli varð á fjárlögum öll þessi ár, ekki vegna uppbátagreiðslnanna, því að tekjur á móti þeim voru tryggðar með sérstökum lögum, eins og ég sagði áðan, heldur af allt öðrum ástæðum. Greiðsluhallinn orsakaðist fyrst og fremst af fjárfrekum framkvæmdum, sem ríkissjóður hafði með höndum þessi ár, án þess að séð væri fyrir tekjum á móti þeim, og það er allt annað atriði.

Hv. þm. Vestm., Jóhann Þ. Jósefsson, fyrrv. fjmrh., hefur beðið mig að upplýsa, í hverju greiðsluhallinn 1948–49 er fólginn, sem formaður Sjálfstfl. hliðraði sér hjá að skýra frá í gærkvöld, þegar hann ræddi um þetta.

Um 24,7 millj. hafa farið í verðbréf og innstæður. Um 35.6 millj. kr. til eignaaukningar ríkisstofnana. Um 39 millj. til nýbygginga, og eru strandferðaskipin þar hvert með 9 millj. kr. lánveitingu. Um 14,3 millj. til greiðslu á ábyrgðum ríkissjóðs. Um 5.8 millj. rekstrarhalli áranna 1947 –48. Það eru því samtals um 165,3 millj., sem skuldaaukningin nemur. En eins og sést í yfirlitinu hafa komið eignir að langsamlega mestu leyti á móti. Það er því fráleit fullyrðing að kenna uppbótagreiðslunum um þessa skuldaaukningu.

Nú vilja stjórnarflokkarnir afsaka sig með því, að uppbátagreiðslurnar hefðu þurft að hækka svo mikið frá því, sem þær voru 1949, að það hefði orðið óviðráðanlegt. Hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, nefndi í því sambandi 150 –200 millj., sem bæta hefði þurft við í beinum sköttum, að manni skildist, til þess að mæta nýjum uppbótum. Þetta er víðs fjarri því að vera rétt. Í frv. því, sem ríkisstjórn Ólafs Thors lagði fram um áramótin um aukinn styrk til handa bátaútveginum, var gert ráð fyrir, að styrkurinn mundi þurfa að tvöfaldast, og geri ég ráð fyrir, að það sé vel í lagt, en samkvæmt því hefði ekki þurft að auka styrkinn til bátaútvegsins nema um 37 millj. miðað við síðast liðið ár.

Hvað styrk til togaranna viðvíkur, er rétt að geta þess, að ég tók svo eftir í skýrslu bankastjóra Landsbankans nú fyrir skömmu í útvarpinu um togarasölurnar, að aðeins 20% af söluandvirðinu hefðu komið heim. Og þegar svo er komið, virðist sýnilegt, að gengislækkun getur litið hjálpað upp á sakirnar, því að enginn hefur gagn af því auganu, sem hann sér ekki með, og togaraeigendur hafa vissulega lítinn gengishagnað af þeim sterlingspundum, sem þeir verða að greiða í kostnað. Tölur, sem ráðh. nefndi í þessu sambandi, 150–200 millj. kr., hljóta því að verða víðs fjarri raunveruleikanum. Hitt er svo ljóst, að með gengisfellingunni eru á þjóðina lagðar þyngri byrðar en nauðsynlegt er, auk þess sem þeim er ranglátlega skipt. Þjóðin verður að greiða hækkað verð á fiskimjöli, sein hefur að minnsta kosti verið í geipiháu verði, hvort sem það verð hefur verið notað eða ekki. Síldarafurðir virðast, samkv. skýrslu hæstv. atvmrh. nú fyrir skömmu, vera í mjög sæmilegu verði, en komi gott síldarár, verða lagðir því þyngri skattar á þjóðina, því meira sem kann að fiskast af síldinni. Þetta eru allt svo miklir kostir við gengislækkunina, að Alþfl. telur útilokað að geta fylgt henni. Þetta hefði allt verið hægt að forðast með því að fara uppbótaleiðina. Að sú leið hafi verið lokuð, er bara bull, svo að ekki sé fastara kveðið að orði.

Hvaða mun ætli fólk finni á því, hvort það greiðir hátt verð fyrir vöru að nokkru leyti í ríkissjóð eða beint til útvegsmanna? Það er raunverulega enginn munur á því annar en sá, að í öðru tilfellinu er hægt að haga verðhækkuninni þannig, að hún komi minna við nauðsynjavörukaup hins snauða heldur en lúxusvörukaup hins ríka, en í hinu tilfellinu leggst hún þyngst á þar, sem sízt skyldi. Í öðru tilfellinu er hægt að miða hækkunina við raunverulegar þarfir þess hluta útvegsins, er þarf aðstoðarinnar við, en í hinu tilfellinu hækkar hún jafnt tekjur hinna, sem ekki þurfa þess, að minnsta kosti ekki eins og hinir eða ekki í bili.

Alþfl. hefur markað sína stefnu skýrt í þessu máli, — hann vildi ekki leysa það á grundvelli gengislækkunar og taldi því betur borgið á annan hátt. Ég tala nú ekki um, ef hann hefði fengið því til leiðar komið, að ríkissjóður tæki að sér innflutningsverzlunina og möguleikar hefðu þannig skapazt til að dreifa skattþunganum betur á þá vöru, sem ekki teldist bein nauðsynjavara. En þetta máttu andstæðingar Alþfl. ekki heyra nefnt. Um samvinnu á þeim grundvelli var hann jafnan tilbúinn að ræða, en um gengislækkun ekki.

Hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, sagði í gærkvöld, að Framsfl. hefði leitað samvinnu við Alþfl. um stjórnarmyndun, en Alþfl. hefði neitað. Þetta er nú beinlínis rangt sagt frá. Ég tók þátt í flestum þeim viðræðum, sem áttu sér stað milli flokkanna um stjórnarmyndun, og ég fullyrði, að tilmælum framsóknarmanna um samvinnu var aldrei neitað. Þvert á móti. Það var fullur vilji fyrir hendi af hálfu Alþfl. um það, að samningar gætu tekizt milli flokkanna um lausn málanna. Það kom fram í þessum umræðum, og það er rétt að geta þess hér, úr því að út í þær hefur verið farið af hæstv. ráðherra, að framsóknarmenn töldu sig vel geta hugsað sér að mynda stjórn með Alþfl., án þess að til gengislækkunar þyrfti að koma, enda var það ófrávíkjanlegt skilyrði af hálfu Alþfl.

Nei, þessar samningaviðræður strönduðu ekki á andstöðu Alþfl., heldur á áhugaleysi Framsfl., sem sennilega hefur þótt einhverra hluta vegna þægilegra að koma hugsjón sinni um gengislækkunina í framkvæmd með Sjálfstfl., því að það var þeirra yfirlýsta stefna, þó að þeir í viðræðum við okkur viðurkenndu þá, að lausn málanna án gengislækkunar kæmi svo sem líka til greina.

Það skal að vísu viðurkennt, að stjórnarmyndun Alþfl. og Framsfl. einna hefði orðið mjög erfið, þar sem þessir flokkar hafa samanlagt ekki meiri hluta þings að baki, heldur aðeins 24 þingmenn af 52, svo að sýnilegt var, að auðvelt mundi að torvelda þeirri stjórn framgang mála og að til kosninga gæti dregið mjög bráðlega. Þessi framkvæmdaatriði urðu öll auðveldari viðfangs í samvinnu við Sjálfstfl., og þegar þar við bætist, að gengislækkunarleiðin virðist hafa staðið huga framsóknarmanna nær, en leið Alþfl., þá verður auðskilið, hvers vegna áhuginn á samstarfinu við Alþfl. var takmarkaður. - Nú geri ég ekki ráð fyrir, að framsóknarmenn, og raunar ekki sjálfstæðismenn heldur, muni í bili þess fýsandi að leita eftir dómi kjósenda. Sannleikurinn er sá, að samkomulagið er ekki nema miðlungi gott á stjórnarheimilinu, en hræðslan við kjósendur heldur þeim saman. Þeir eru sér þess meðvitandi, að þetta afkvæmi þeirra hefur vakið óhug og andúð fólksins.

Hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, sagði, að nú væru að koma í ljós afleiðingarnar af stjórnarstefnu þeirri, sem fylgt hefði verið að undanförnu, og Alþfl. ætti sinn mikilvæga þátt í henni. því að hann hefði verið með í að koma öllu á höfuðið.

Það er að vísu rétt, að Alþfl. hefur tekið þátt í stjórnarstarfi síðustu ára, en hans hlutverk hefur verið þar fyrst og fremst að koma í veg fyrir íhaldssöm óþurftarverk alþýðunni í landinu til handa. Honum hefur oft tekizt það, en líka oft mistekizt það vegna þess, að hann hefur ekki haft bolmagn á Alþingi til að standa á móti skemmdarverkunum. Og það er nú að koma æ betur í ljós, að spor ýmissa óhappaverka, allt of margra, má einmitt rekja til Hermanns Jónassonar. Það var hann, sem á sínum tíma gekk á gefin loforð við Alþfl., þegar hann rauf samhengið milli kaupgjalds og verðlags landbúnaðarafurða 1940 og hleypti dýrtíðarskriðunni á stað. Það var h;ann, sem hvað mestan þátt átti í setningu gerðardómslaganna 1942. Það er hann, sem enn á sinn mikla þátt í þeirri aðför að íslenzkri alþýðu, sem nú er hafin með gengislækkunarlögunum. Og ég hef hugboð um, að til hans megi að verulegu leyti rekja orsakirnar til þess, að stjórnarstarf lýðræðisflokkanna var rofið s.l. sumar.

Þessi atriði, sem ég hef nú nefnt, hafa kannske orkað meiru til að sigið hefur á ógæfuhlið í efnahagsmálum okkar Íslendinga, en nokkuð annað.

Stefna Alþfl. hefur jafnan verið sú, að leitast við að miða allar aðgerðir við það, að allir hefðu atvinnu, og á því kaupi, sem hæst væri hægt að greiða, til þess að atvinnuvegirnir gætu gengið. Hann hefur gert einu tilraunina, sem gerð hefur verið til að stöðva skriðuna, um áramótin 1947 og 48, og hann hefur líka á það bent, að fölsk kauphækkun, sem enginn fjárhagslegur grundvöllur væri fyrir, væri engum til góðs, og sízt launþegunum. En Alþfl. hefur um þessi mál öll viljað hafa nána samvinnu við samtök launþega, því að hann gerir sér ljóst, að því aðeins geta nokkrar ráðstafanir í þessum málum komið að notum, að launþegasamtökin standi á bak við þær og séu þeim sammála. — Á þetta hefur ekki verið fallizt nú, og meira að segja smávægilegum brtt. við gengislækkunarlögin, sem allsherjarsamtök launamanna óskuðu eftir, hefur verið neitað og þær felldar af stjórnarflokkunum.

Í þessu felst kannske aðalhættan nú. Við samningu gengislækkunarlaganna virðist höfundum þeirra hafa verið ljóst, að ráðstafanir þyrfti að gera til þess að bæta launþegum að verulegu leyti það tjón, sem þeir verða fyrir vegna gengislækkunarinnar; og stjórnarblöðin, eins og t.d. Morgunblaðið, fullyrtu, að tjónið yrði að fullu bætt. En það verður það nú auðvitað aldrei. Hins vegar virðist nú áhuginn fyrir þessum bótum, bæði við afgreiðslu frv. á Alþingi og síðar, hafa minnkað æði mikið. Á Alþingi í dag hefur þó hæstv. ríkisstj. haft í frammi nokkra viðleitni í þessa átt með uppbótagreiðslum til opinberra starfsmanna og skattaívilnun á lágar tekjur. En það verður stj. að vera ljóst, að á því, hvernig þetta tekst, velta örlög þessara aðgerða.

Ef ekki verður hægt að sætta launþegasamtökin við þær og hafa við þessi samtök fullt samkomulag til að draga úr áhrifum gengisbreytingarinnar, svo að þessi samtök neyðist til mótaðgerða, þá er enn voðinn vís. Þá heldur skriðan áfram að falla og stöðvast ekki fyrr en allt er lagt í rúst, til ómetanlegs tjóns fyrir alla þjóðina og þá auðvitað mest, eins og vant er, fyrir þá, sem af minnstu hafa að má.

Mín skoðun er sú, og okkar Alþýðuflokksmanna, að óheillaspor hafi verið stigið, ávinningurinn fyrir útgerðina hafi orðið hverfandi, að minnsta kosti allt of lítill, álögurnar á almenning hafi orðið óhæfilega þungar, og nú ríði á að forðast — umfram allt annað — að lengra þurfi að halda á þessari óheillabraut. En það verður aðeins gert með því, að hæstv. ríkisstj. hafi nána samvinnu við stjórn launþegasamtakanna um aðgerðir til stöðvunar. Að vísu er ég vantrúaður á þetta samstarf, aðallega vegna þess, að þegar þessir flokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa sameinazt, hefur það ávallt leitt til hins mesta ófarnaðar fyrir alþýðu þessa lands.

Gerðardómslög og gengislækkun eru og verða sjálfsagt lengi þau afkvæmi þessara flokka, sem fólk kennir mest á og man bezt, en öll afkvæmi þeirra, þessara íhaldssömu flokka, munu verða þannig, að bezt mun fyrir alla alþýðu landsins að gjalda varhuga við.

Í hinum ofsalegum árásum ráðherranna allra í gærkvöld, þótt á mismunandi hátt væri, á Alþfl. kom fram hræðsla hins seka manns, sem finnur, að hann hefur gert rangt og að það er að komast upp, og það er út af fyrir sig gott. En Alþfl. mun ekki kippa sér upp við það. Hann mun halda sínu striki þrátt fyrir öll frýjuorð og skammir og hiklaust benda alþýðu landsins á það, sem hann telur að betur mætti fara, hvernig svo sem þeir láta. Hann telur að hér hafi verið stigið óheillaspor, óþarflega þungar byrðar lagðar á þjóðina og óréttlátlega, og hann mun ekki linna látum fyrr en það hefur verið lagfært á einhvern veg.

Atvinnuvegirnir, sem bjarga átti, eru líka þannig á vegi staddir — eftir björgunina, að vélbátarnir hafa fengið lægra verð fyrir afurðirnar en áður og eru að stöðvast. Gömlu togararnir hreyfa sig ekki að ráði. Landbúnaðurinn krefst áburðar og fóðurbætis á gamla genginu, og iðnaðurinn er að stöðvast vegna hráefnaskorts, svo að litlu virðist nú hafa verið bjargað, og varla hefði verr farið, þó að gamla aðferðin hefði verið notuð.