11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

38. mál, fjárlög 1950

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Hv. þm. Hafnf. segir nú, að Alþfl. hafi aldrei neitað stjórnarsamstarfi. Þetta fara að verða einkennilegar umr., ef á að fara að þræta hér fyrir opinberar tilkynningar, sem gefnar hafa verið út í öllum blöðum. Það var sérstaklega tilkynnt í öllum blöðum bæjarins, að Framsfl. hefði gefizt upp af því, að Alþfl. hefði neitað samstarfi, nema tryggt væri með fullri vissu fyrir fram, að meiri hl. væri fyrir aðkallandi málum á Alþ., og það mátti ekki tryggja með kommúnistum, það átti að leita til Sjálfstfl., og mikið af ræðu form. Alþfl. í gær var réttlæting á því, að Alþfl. ætti ekki að fara í ríkisstj., og öll skrif Alþýðublaðsins eru um það, að Alþfl. eigi ekki að fara í ríkisstj. Eftir bæjarstjórnarkosningarnar fór 3 manna n., hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og ég, á fund eftir fund til þess að ræða stjórnarsamstarf við Alþfl., og alltaf var sama svarið: Við förum ekki í stjórn. — Við skulum ekki gera okkur broslega á því að vera að ræða um það, sem ekki þarf að deila um og öll þjóðin veit. Alþfl. benti aldrei í vetur á neinar leiðir til úrlausnar. Nú finnur hann, að þetta gengur ekki, nú er hann með gömlu uppbótaleiðina, sem hann játar að sé ófær. Hann bendir á að taka tolla af óþörfum vörum, sem ekki eru fluttar inn lengur, vegna þess að ekki er hægt sökum gjaldeyrisskorts að greiða nauðsynlegar vörur, sem eru á hafnarbakkanum, og svo talar hann um það, að það verði næsta auðvelt að bæta þessu ofan á, en hv. 4. ,þm. Reykv. kemur og talar um drápsklyfjar, sem séu svo ofboðslegar, að þær séu allt að sliga. Það er ekki furða, þó að þessi málflutningur frá hendi Alþfl. sé einkennilegur, vegna þess að hann hefur aldrei neinn málstað í þessum málum, og þess vegna er einn málstaður búinn til í dag og annar á morgun, eftir að Alþýðuflokksmenn hafa gengið hér um á nálum og spurt: Verður gengislækkun í dag eða á morgun? — Vegna þess að þeirra útgerðarfyrirtæki voru að fara á höfuðið. En þeir treystu sér ekki til að gera það sjálfir, af því að það var óvinsælt. Þau ósannindi, að ég hafi rofið samninga á Alþfl., hafa verið svo oft hrakin, að ég nenni ekki að endurtaka það. Það er sagt, til að hylja slæman málstað, að Framsfl. hafi rofið sambandið milli kaupgjalds og verðlags, en þetta eru auðvitað sömu ósannindin og það alltaf hefur verið.

Umræður þessar hafa, sem von er, snúizt mest um fyrrverandi ríkisstjórnir, og þá ekki sízt um stjórnarforustu Alþfl. þrjú síðustu árin, er skildi við sjávarútveginn og ríkissjóð á gjaldþrotabarmi. Verk núverandi stjórnar er björgunarstarf — eftir slys. En Alþfl. er rogginn og játar, að hann neiti að taka þátt í björgunarstarfinu, og segir, að fyrirmyndin sé frá dönskum jafnaðarmönnum. En frá hinu er okkur ekki skýrt, hvort danskir jafnaðarmenn hafi stjórnað þrjú árin á undan og ekki aðeins neitað að vera í stjórn, heldur neitað því að hafa nokkra stefnu og nokkra skoðun á því, hvernig ætti að bjarga þjóðinni undan afleiðingum verka sinna — eins og Alþfl. á Íslandi. Það er þessi vinnuaðferð, að hafa enga stefnu nú, þegar vandinn er mestur, sem gárungarnir kalla „að Alþfl. hafi dregið sig út úr pólitík.“

Alþýðuflokksmenn deila á Framsfl. fyrir samstarf við Sjálfstfl. Það er ekki furða, svo tregir sem þeir hafa verið til slíks samstarfs áður. Með sósíalistum telur Alþfl. höfuðsynd að vinna, enda sá möguleiki ekki fyrir hendi. Ef Framsfl. á ekki að vinna með Sjálfstfl., ,þá er sá einn möguleiki eftir að vinna með Alþfl. En hefur Framsfl. vanrækt að gera tilraun til þess? Í gær skýrði ég frá því, hvernig við framsóknarmenn höfum margreynt að ná samstarfi við Alþfl. um umbótamálin eftir síðustu kosningar. Alþfl. hefur hafnað öllum leiðum og neitað að gera nokkrar tillögur um samstarf. Eftir kosningarnar 1946 gerði Framsfl. einnig margendurteknar tilraunir til samninga við þennan flokk. Að lokum bauðst Framsfl. þá til að styðja flokksstjórn Alþfl., og ef hún yrði felld, að ganga út í kosningar í samstarfi við Alþfl. og freista að vinna hreinan meiri hluta saman. Þessar endurteknu tilraunir voru gerðar vegna þess, að okkur framsóknarmönnum skildist vel sú nauðsyn, sem á því var fyrir almenning til sjávar og sveita, sem þessum flokkum fylgir, að samstarf næðist milli þeirra, — þrátt fyrir tregðu Alþýðuflokksforingjanna, sem ráða. Alþfl. sagði nei og aftur nei. Nú spyr ég alla, sem mál mitt heyra. Með hvaða móti gat Framsfl. gengið lengra? Sök Framsfl. ætti þá að vera sú, að hafa ekki látið allt hrynja í vetur, eins og Alþfl. skildi við það, draga sig út úr öllu saman með Alþfl., bíða eftir þriðju kosningunum, til að bjóða Alþfl. samstarf á eftir, í þriðja sinn, sjálfsagt með sama árangri og áður. En þetta mun nú ekki endurtekið fyrst um sinn.

Og við höfum meiri reynslu. Alþfl. neitaði 1946 að fara í stjórn, nema Sjálfstfl. væri með í stjórninni. Framsfl. reyndi þetta samstarf í 3 ár, treystandi því, að sameiginlegir hagsmunir vinnandi fólks, sem stendur á bak við þessa flokka, mundu laða flokkana saman til sameiginlegra átaka innan ríkisstj., fyrir hagsmuni almennings. En þetta reyndist alveg andstætt öllum vonum Framsfl. Alþfl. tók í flestum málum höndum saman við Sjálfstfl. gegn hagsmunum alþýðu manna. Og stefnan virtist sú ein að friða ráðherrastólana. Þess vegna fór líka svo, að þrátt fyrir baráttu Framsfl. endaði þessi ríkisstjórn Alþfl. með því að skilja við þjóðina í því ástandi, sem öllum er nú ljóst orðið. Af óteljandi dæmum er að taka, en táknrænasta dæmið um þessa vinnuaðferð Alþfl. er verzlunarmálin. Ófremdarástandið í þeim undanfarin ár er þjóðinni kunnugt. Alþýðublaðið sá sér að lokum ekki annan kost, en að deila hatrammlega á sleifarlagið, svarta markaðinn o.s.frv., en það og Alþfl. afsakaði sig með því, að viðskmrh. Alþfl. réði þar engu. Þetta var og er ósatt. Verzlunarmálin heyrðu að vísu undir alla ríkisstj., ef ágreiningur varð, og þar réð þá afl atkvæða. En Alþfl. hafði oddaaðstöðu í viðskiptanefnd og í fjárhagsráði, og ef Sjálfstfl. áfrýjaði til ríkisstj., gátu, ráðherrar Alþfl. þar ráðið úrslitum í öllum ágreiningsmálum. Á þennan hátt réðu Alþýðuflokksmenn stefnunni í verzlunarmálunum í þau þrjú ár, sem fyrrv. ríkisstj. sat. En Alþfl. lét okrið, svartamarkaðsbraskið, rangláta skiptingu innflutnings og öll mestu hagsmunamál almennings lönd og leið, til þess að stj. gæti setið. Nú segist Alþfl. vera brennandi af áhuga í öllum þessum málum, sem hann gat ráðið öllu um þrjú seinustu árin, en gerði ekki neitt. En þegar á reynir, gægist enn það sama fram og áður. Ein áhrifamestu hliðarráðstöfunin í sambandi við gengisbreytinguna er frv. framsóknarmanna um verzlunarmálin, sem nú liggur fyrir þinginu. Alþfl. hefur nú sem einn maður í neðri deild limlest þetta frv. þannig, að ástandið í verzlunarmálunum mundi verða enn verra en það nú er, ef þær tillögur væru lögfestar. Alþfl. hefur sem sé fengið samþykktar tillögur um að lögfesta með kvótareglu það ranglæti gagnvart samvinnufélögunum, sem hann hefur við haldið með völdum sínum síðustu þrjú ár. Hann hefur fengið samþykkt, að öll vörukaup skuli boðin út, ákvæði úr reglugerð Emils Jónssonar, sem var dauður bókstafur, vegna þess að hans eigin menn í viðskiptanefnd treystu sér ekki einu sinni til að framkvæma það. Og loks er ákvæði um að afhenda Sjálfstæðisráðherra mest af því valdi í verzlunarmálunum, sem ríkisstj. hefur nú í heild. En jafnframt lýsir svo formaður Alþfl. yfir því í útvarpsræðu í gærkvöld, að hann hefði sennilega verið samþykkur gengislækkuninni, ef stórfelldar ráðstafanir hefðu verið gerðar að öðru leyti, til dæmis í verzlunarmálunum. Þarna hafið þið svo tillögur Alþfl. í verzlunarmálunum. Þannig hefur Alþfl. farið með þá hliðarráðstöfun, sem lagt var á h.ans vald að hjálpa til við að samþykkja og er ein stærsta kjarabótin fyrir allan almenning. Ég ætla, úr mörgum dæmum, að velja annað mál, sem líka er eitt af stærstu hagsmunamálum vinnandi fólks. Það eru húsnæðismálin. Alþfl.menn hafa farið með húsnæðismálin undanfarið samfleytt frá 1944–49. Meðan allt flaut í erlendum gjaldeyri og fjármagni, var því sóað í lúxusbyggingar, eins og hver vildi. Þá sátu og við völd kommúnistar, flokksbræður Magnúsar Kjartanssonar, sem var að tala um húsnæðismálin. Fjármagnið var ekki tekið í byggingarsjóð verkamanna, hann hefur staðið fjárþrota löngum, og nær algerlega á annað ár. Pappírslög eru sett um að greiða hluta af byggingarkostnaði bæjaríbúða, þegar fjármagnið var á þrotum. Og það varð hlutskipti næsta húsnæðismálaráðherra Alþfl. að loka fyrir þær greiðslur. Þar með var sá umbótadraumur búinn. Framsóknarmaður hefur farið með þessi mál í tæpa tvo mánuði. Á þeim tíma er búið að setja löggjöf, sem tryggir byggingarsjóði verkamanna meira nýtt fjármagn til viðbótar því, sem hann áður hafði, en hann fékk samtals af ríkisfé í allri stjórnartíð þess ráðherra, sem síðast fór með þessi mál fyrir Alþfl. Og framvegis hefur sjóðnum verið tryggð hlutdeild í stóreignaskattinum, og útvegað hefur verið nýtt fé til íbúðabygginga bæjarfélaga. Tilsvarandi fjármagn hefur verið tryggt til íbúða í sveitum og til ræktunarsjóðs. Og svo leyfa þessir menn sér, sem þannig hafa staðið í stöðu sinni, að koma með ásakanir á Framsfl. Nú þykjast þeir vera fullir af áhuga. Þeir koma með tillögu í þessu skyni um 750 þús. kr. fjárframlag, sömu upphæð og ein villa var seld fyrir hér í bænum sama daginn og tillagan kom fram. Það er ekki furða, þótt hv. 2. landsk. þm., Magnús Kjartansson, sé rogginn af svona tillögu. Og svo er kórónan á verkið rammaklausa í Alþýðublaðinu með fyrirsögninni: „Vill íhaldið og Framsókn ekki útrýma heilsuspillandi íbúðum?“

Þessi tvö dæmi um verzlunarmálin og húsnæðismálin, stærstu og viðkvæmustu hagsmunamál almennings, nægja til þess að sýna vinnuaðferðir þessara manna og samræmið milli athafna, þegar þeir hafa völd, og orða og yfirboða í ábyrgðarlausri stjórnarandstöðu.

Það er enginn efi á því, að frv. um verðlagseftirlit, þar sem neytendum er fengin verðlagseftirlitið í hendur, hefði verið fellt eins og í fyrra, ef ekki hefðu náðst samningar við Sjálfstfl. um það mál.

Í umræðum um stóreignaskattinn kom það fram hjá formanni Alþfl., að hann teldi, að ríkissjóður hefði verið rændur fleiri milljónum króna með því að leggja ekki skattinn á sjóði samvinnufélaganna, og sýnir það einnig, hvernig því máli hefði reitt af, ef ekki hefðu náðst samningar um það fyrir fram.

Reynslan er sú af samstarfi Framsfl. við Alþfl. og Sjálfstfl. sameiginlega, að Framsfl. hefur oftast átt þar við tvo andstæðinga að tefla, og staðreynd er það, að það er Alþfl., sem þarf að gera hreint í sínu húsi, ef hann á ekki að halda áfram að standa í vegi fyrir heilbrigðu samstarfi vinnandi fólks í þessu landi.