11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

38. mál, fjárlög 1950

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Skrambi húrraði hann Ólafur Thors laglega hér áðan fyrir hruninu á fiskmarkaðinum. Það skyldi þó aldrei hafa verið, að þetta húrra hafi komið frá hjartanu. Hvað verður gert, þegar freðfiskurinn hættir að seljast fyrir Marshallvörur? Verður þá framleiddur saltfiskur í stærri stíl en áður? Hverjir halda utan um hann á Ítalíu, í Grikklandi og á Spáni? Er máske meira hugsað um það? Lifi einokun Bjarnasons og Marabotti, húrra! Lifi einokun Pipinelli, húrra! Lifi einokun Kveldúlfs á saltfisksútflutningnum! Hann verður vafalaust meiri nú; þess vegna er ekkert undarlegt, þó að hæstv. ráðh. bæti við þreföldu húrra fyrir hruni freðfisksmarkaðarins. Það er ekki frá okkur, sem þetta húrra kom. Við höfum sýnt fram á, að hægt væri að breyta þessu.

Hæstv. sjútvmrh. og hæstv. fjmrh. lofa Marshallhjálpina og skilja hvorugur í því, að Íslendingar geti lifað og hugsað án hennar. Þetta er ósatt. Vér Íslendingar höfum næga möguleika til þess að lifa af vinnu okkar, án þess að Bretland og Bandaríkin hjálpi okkur. Það er óþarfi fyrir þessa hæstv. ráðh. að reyna að hræða Íslendinga í sambandi við þetta. Bretland og Þýzkaland hafa lokað mörkuðum fyrir okkur nú, þó að við séum í Marshallsamtökunum. Þessi lönd hefðu ekki lokað mörkuðunum meir fyrir okkur, þó að við værum utan þeirra, heldur en þau nú gera, og jafnvel minna. Og ríkisstj. sjálf hefði þá ekki lokað öðrum mörkuðum fyrir okkur, sem nú eru eyðilagðir.

Ólafur Thors er að þakka Bandaríkjunum „gjafirnar“. Hann vill dylja fyrir þjóðinni, hvernig það útlenda auðvald arðrænir okkur, sem gefur nú „Marshall-gjafirnar“. Danir gáfu líka hallæriskorn hér fyrr á öldum. En arðrændu þeir oss nokkuð minna fyrir það? — Bandaríkin gefa oss líka hallæriskorn — en þjóðin sér ekki ástæðu til að þakka fyrir þetta, því að þar fylgir böggull skammrifi. Gengislækkunin, þessi vægðarlausa árás á alþýðuna, og allur yfirgangur Bandaríkjamanna á Íslandi er óaðskiljanlegur fylgifiskur Marshallhjálparinnar. — Ég vil minna hæstv. fjmrh., Eystein Jónsson, og aðra á það, að það er ekki búið að ákveða Sogsvirkjunina enn þá, og enn hefur ekki verið samþ. á þinginu það, sem til þess þarf, að hún geti komizt í kring. Og það er ekki búið að fá loforð í Bandaríkjunum til þess að mega nota fé úr jafnvirðissjóði til Sogsvirkjunarinnar.

Í sambandi við Marshallhjálpina vil ég minna á það, sem eitt af okkar beztu skáldum, Stephan G. Stephanson, orti:

„Það er öllum auðvalds-klöfum

efling stór að rausnargjöfum.

Haldist nauðin, eykst við auðinn.

Ekki er kyn, þótt forsjáll viti,

að hag-fjarstæða er hungurdauðinn.

Hitt er, að sérhver gjafabiti

hækkar sjálfgert sölubrauðin,

meðan bljúgar betlihendur

blessa sína tjóngefendur.“

Já, þið voruð að hækka rúgbrauðin hér í dag.

Meðferð Bjarna Benediktssonar á sannleikanum sést bezt á því, sem hann sagði, að kostnaður við sendiráðið í Moskva mundi nema 1.400.000 kr. En fyrir þrem dögum flutti form. hv. fjvn. nefndinni þau boð frá ríkisstj., að nægja mundu 650–700 ,þús. kr. til þess. Og í samræmi við það eru 650 þús. kr. áætlaðar í brtt. fjvn. við fjárlagafrv. til þessa sendiráðs. — Það er logið bara um fullan helming.

Og þetta var ekki eina lygin í ræðu Bjarna Benediktssonar utanrrh. Hann kom nú aftur með falsaða tilvitnun úr einni bók Lenins, eftir að Brynjólfur Bjarnason hafði áður rekið þessa fölsun ofan í hann og lýst hann opinberan falsara, án þess hann þyrði að mótmæla. En hann hefur nú brjóstheilindi til þess að koma nú aftur með sömu fölsunina. Svona var öll hans ræða, þvættingur. Bjarni Benediktsson kom líka með falsaðar tilvitnanir úr ræðu Áka Jakobssonar um ofsóknardómana út af 30. marz. Ætli Bjarni Benediktsson endi ekki með því að láta dæma Áka Jakobsson fyrir að verja menn fyrir ofsóknum Bjarna Benediktssonar? Það væri eftir honum. Þetta gera þeir í Ameríku.

Upplýsingarnar um verðlagið í Sovétríkjunum eru sams konar ósannindi. Að vísu getur Bjarni Benediktsson gert alla hluti dýra, ef þeir eru reiknaðir í íslenzkum krónum, með því að fella hana í sífellu, svo að dollarinn hækki, eins og hann hefur nú gert. En sannanirnar skulu lagðar fyrir hann óhrekjanlegar um, að lífsafkoma í löndum sósíalismans fer stórbatnandi, á sama tíma og afkomu alþýðu hrakar í þeim löndum, sem utanríkisráðherrar af tagi Bjarna Benediktssonar hafa svikið undir einræði ameríska auðvaldsins. — En auðvitað mun Bjarni Benediktsson halda áfram að neita staðreyndunum. Það er einn liður í blekkingaráróðri íslenzka afturhaldsins, til þess að reyna að sætta íslenzka alþýðu við það, hvernig ríkisstj. rænir og ruplar tekjum og eignum alþýðunnar.

Hæstv. landbrh. talaði hér áðan um, að till. Sósfl. um 750 þús. kr. sem 10% framlag ríkissjóðs til útrýmingar heilsuspillandi íbúða væri smáræði. En þó að sú upphæð væri ekki stór, var hún of stór fyrir Framsókn til að samþ. hana. Framsókn drap hana, um leið og hún gerði ráðstafanir til að ráðast á kjör verkalýðsins.

Eysteinn Jónsson reyndi að rægja Sósfl. að vanda. Hann vildi reyna að snúa út úr orðum Áka Jakobssonar og segja, að Rússar mundu ekki kaupa af Íslendingum, nema Bjarni Benediktsson færi úr ríkisstj. og sósíalisti tæki við. Hvílík bláber della! Er Eysteinn Jónsson búinn að gleyma, að Rússar gerðu stærsta viðskiptasamning, sem gerður hefur verið við Ísland, einmitt við Bjarna Benediktsson, í júní 1947, en að Bjarni sleit því viðskiptasambandi síðar, að undirlagi Ameríkana, fyrir Marshallgjafir. — Út af þessu, vil ég segja við valdhafana: Blessaðir lofið þið Bjarna Benediktssyni að özla eins og hann vill, — lofið þið honum að drattast um allan heim á ráðstefnur í sparnaðarskyni, ef ykkur finnst svona mikill sómi að honum. Lofið þið honum að klaga okkur Íslendinga fyrir valdhöfum og nýlendukúgurum heimsins, fyrir að við séum svo óþekkir, að við viljum ekki beygja okkur góðfúslega undir okið. Það hefur verið kvartað yfir þessu áður erlendis, út af okkur Íslendingum, Englandskonungur vildi ekki kaupa landið á 16. öld, af því að þjóðin þótti svo balstýrug. Það getur verið, að Bandaríkin fái sig fullkeypt af því, áður en lýkur, að ætla að brjóta það undir sig. — Lofið þið Bjarna Benediktssyni að özla eins og hann vill, ef ykkur finnst sómi að honum, á ráðstefnur. En lofið þið bara oss Íslendingum að verzla við hvaða þjóðir sem við viljum, Rússa eða þjóðirnar í Suður-Ameríku, Ísrael eða Ítalíu, án þess að þurfa að spyrja Bjarna eða Bjarnason um leyfi. Þið eruð að gefast upp við að útvega markaði fyrir okkar vörur. Þið segið, að hrun sé alls staðar í heiminum. Þið getið ekki tryggt þjóðinni sölu á framleiðsluvörum hennar, svo að hún fái notið þeirra tækja, sem hún fékk með nýsköpuninni. Fyrst þið getið ekki bjargað henni, lofið þið henni þá að bjarga sér sjálfri. Ofurseljið þið hana ekki, bundna á höndum og fótum, engilsaxneska auðvaldinu. — Þessir menn, sem völdin hafa hér, tala um frjálsa verzlun. En samt sem áður fella þeir hverja till., sem við sósíalistar komum fram með um að gefa íslenzkri alþýðu meira verzlunarfrelsi, til þess að reka erindi þeirra manna, sem vilja fá íslenzku þjóðina ofurselda sér til að arðræna hana og eyðileggja hana efnahagslega, þegar búið er að brjóta hana á bak aftur og hnekkja því, að alþýðan geti bjargað sér sjálf og myndað sér samtök, til þess að selja sínar vörur. En afskipti ríkisvaldsins í þessum efnum eru hins vegar skipulögð til skaða fyrir þjóðina í heild, til þess að leyfa flokki manna að viðhalda einokun í verzluninni, til gróða fyrir nokkra auðmenn hér innanlands. — Þessir menn, valdhafarnir, tala um frjálsa verzlun. En þeir hata hana og óttast í hjarta sínu. Þeir eru hræddir um sína eigin einokun, hræddir um, að yfirboðurum þeirra í Washington gangi ekki eins vel að kyrkja oss Íslendinga efnahagslega, ef einokun milljónamæringanna í Reykjavík væri aflétt af útflutningi og innflutningi Íslendinga. Og nú vil ég segja við valdhafa Íslendinga: Ef þið ekki þykist vera eða jafnvel ekki viljið vera þau peð á taflborði engilsaxneska auðvaldsins gegn íslenzku þjóðinni, sem ég nú hef lýst, — hví viljið þið þá ekki gefa íslenzku þjóðinni frelsi til þess að bjarga sér sjálf? Frelsi til að selja sínar vörur, kaupa sínar nauðsynjavörur og byggja sín hús — óháð einokunar-skriffinnsku-fjötrum ykkar? Látið þið staðreyndirnar bara hala um það, hvað við getum selt Rússum. Ég hef í tvígang lagt fram tillögur um, að þjóðin fái að einhverju leyti slíkt frelsi, — það olnbogarúm til þess að ráðstafa viðskiptum sínum, sem fyrir 70 árum var skilyrði þess, að íslenzk þjóð gat skapað sér verzlunarsamtök, til þess að brjótast undan oki danskra selstöðuverzlana. Þið hafið neitað þessu — fellt þetta — með orð um frjálsa verzlun á vörunum.

Í 10 síðustu ár hefur íslenzkur verkalýður barizt fyrir sigri. Nú berst íslenzkur verkalýður fyrir lífi sínu. Árásirnar á hann undanfarin ár hafa rýrt kjör hans. Þessar árásir, sem nú hafa verið gerðar á hann, sviptu hann öllu, sem hann hefur unnið síðustu tíu árin. Þær leiða yfir hann aftur atvinnuleysi og sult forstríðsáranna, ef verkalýðurinn ekki sameinast allur, hvar sem er, án tillits til pólitískra skoðana, gegn þessum árásum, gegn þessari afturhaldsstjórn, gegn flokkum hennar, Framsfl. og Sjálfstfl. Við Íslendingar erum nú auðugri, en nokkru sinni fyrr. Við höfum mikið vinnuafl og fullkomin tæki. En við erum fordæmdir til þess að láta okkar tækifæri til sjálfsbjargar liggja lítt notuð, ef við eigum að vera ánauðugir undir einokun þess auðhringakerfis, sem núverandi stjórnarfl. beygja okkur undir. Þess vegna verður íslenzk alþýða að berjast á móti einokunarkerfi auðmannastéttarinnar, innlendrar og útlendrar auðmannastéttar, því að milli einræðis auðhringanna og hagsmuna íslenzkrar alþýðu er óbrúandi djúp. Gegn þeirri hættu, sem stafar af innlendu og erlendu auðvaldi, verður íslenzk alþýða að sameinast. Gegn því auðvaldi, sem reiðubúið er að tortíma lýðréttindum hér á landi, eins og það gerði í Þýzkalandi á sínum tíma og eins og það er að gera nú í Ameríku. — Íslenzkur verkalýður þarf að standa saman í órjúfandi bandalagi, til þess að vinna bug á því auðvaldi, sem er að leiða okkur aftur út í atvinnuleysi og skort — því innlenda og erlenda auðvaldi, sem er að undirbúa það að granda okkar innlenda sjálfstæði.