11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

38. mál, fjárlög 1950

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég á aðeins eina brtt., á þskj. 712, við fjárl. að þessu sinni. Hún er þess efnis, að á 15. gr. A. XIV komi nýr liður um 25 þús. kr. styrk til Leikfélags Rvíkur, gegn að minnsta kosti jafnmiklu framlagi frá bæjarsjóði Reykjavíkur. Ég hygg, að það stafi af misskilningi, að styrkurinn til Leikfélags Reykjavíkur hefur verið felldur niður. Það er öllum kunnugt, að starfsemi félagsins hefur verið með sama hætti s.l. leikár og áður, og það er ósanngjarnt að svipta það styrk, meðan starfsemi þess er óbreytt. Þó að Þjóðleikhúsið hafi tekið til starfa, er ekki óeðlilegt, að önnur leikstarfsemi verði styrkt, mér finnst full ástæða til þess, en þessi styrkur, sem lagt er til að félagið fái nú, er miðaður við þá starfsemi, sem félagið innti af hendi fram á síðasta vor. Ég vænti þess, að hv. þm. séu mér sammála um þetta og geti því fallizt á að greiða till. atkv.

Hæstv. ríkisstj. hefur á þskj. 713 borið fram till. um nýjan lið launahækkanir samkv. 6. gr. l. nr. 22 1950, aðrar launauppbætur og uppbætur á lífeyri og ellilaun. Í till. eru fyrirmæli um, hvernig uppbæturnar skuli greiða, og fela þau fyrst og fremst í sér lækkun launauppbóta frá því, sem verið hefur. Ég skal ekki fjölyrða um þetta. Ég er meðflm. að brtt. við þessa till. hæstv. stj., en ég geri ráð fyrir því, að hv. 1. flm. færi fram rök okkar. En í tilefni af því, að ég fékk þær upplýsingar í dag, að frv. um breyt. á almannatryggingal. mundi ekki ná fram að ganga á þessu þingi, vildi ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvað hún hyggst fyrir um uppbætur til öryrkja og gamalmenna. Í þessu efni eru fyrir hendi skýlaus fyrirmæli Alþ. í viljayfirlýsingu þess í febr. s.l., en hana er að finna sem rökst. dagskrá í nál. fjvn. á þskj. 259. Í þeirri dagskrá, er samþ. var af Alþ., er því slegið föstu, að Tryggingastofnunin haldi þeim sjóðum, sem henni hefur tekizt að safna, og að stofnuninni verði heimilað að greiða úr tryggingasjóði 10% uppbót á ellilífeyri, örorkulífeyri, örorkustyrk og makabætur fyrir bótatímabilið frá 1. júlí 1949 til 30. júní 1950. „Í trausti þess“, segir enn fremur í dagskránni, „að svo verði, telur Alþingi ekki ástæðu til að samþykkja tillöguna og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“ Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvort ætlunin er að bregðast því fyrirheiti, sem hér er ábeint veitt. Bg vil ekki trúa því, fyrr en ég tek á. Ég vænti upplýsinga frá hæstv. stj. um þetta, áður en umr. lýkur. Ef ekki verður farið eftir yfirlýstum vilja Alþ. í þessu máli, mætti nefna það svik við þá aðila, sem hafa reitt sig á, að taka mætti yfirlýsingu Alþ. gilda.