11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

38. mál, fjárlög 1950

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða brtt. þær, sem ég flyt ásamt fleirum mönnum og ég talaði um fyrr við umr. eða aðrir, heldur minna á brtt. mínar á þskj. 731, þ.e. till. um niðurfellingu nokkurra útgjalda í sambandi við alþjóðastarfsemi. Ég vil taka það fram hér, að þó að fjárlagaafgreiðslan nú eigi að kallast mjög góð — reikningslega séð — án greiðsluhalla og með rekstrarafgangi, þá segir mér þungur hugur um hana í framkvæmd fjárl. Ég er hræddur um, að áætlun teknanna, er byggist á tollum á innfluttum vörum, eigi eftir að sýna sig að bregðast, sökum þess að eins og nú horfir um gjaldeyrismálin, þá komi innflutningsáætlunin ekki til með að standast. Það verður því aðeins, að gífurleg síldveiði verði fyrir Norðurlandi, — með þeirri stjórnarstefnu, sem í frammi hefur verið höfð. Ég er því hræddur um, þegar kemur fram á árið, ef svipað ástand helzt um aflabrögð og verið hefur, að þá bresti meira eða minna sá grundvöllur, sem fjárl. eru byggð á, og verði þá, ef að vanda lætur, hið nauðsynlegasta skorið niður. Við höfum séð tilhneigingarnar, t.d. varðandi almannatryggingarnar og niðurskurð á verklegum framkvæmdum, á sama tíma sem skrifstofubáknið er látið haldast. Vil ég eigi, að þetta þ. liði svo, að ekki komi fram nokkrar ábendingar um, á hvaða liðum mætti spara, ef vilji væri til. Fulltrúi Sósfl. í hv. fjvn., hv. 5. landsk., hefur þegar flutt ýtarlegar brtt. um það og talað fyrir þeim. Þessar litlu till. mínar á þskj. 731 eru um að fella niður kostnað við nokkrar alþjóðastofnanir, er við tökum þátt i. Það er eigi gert af andúð við þessar stofnanir, þótt ég sé andvígur hinum tveim síðastnefndu, efnahagssamvinnunni og Marshallaðstoð. Við sósíalistar höfum verið með því, að við gengjum í hinar tvær fyrstnefndu, en ef við eigum að velja á milli, hvort við eigum að vera í Alþjóðavinnumálastofnuninni eða spara við okkur almannatryggingarnar, þá hugsa ég mig ekki um. Þá efast ég ekki um, að við eigum heldur að sleppa því að leggja í kostnað við að senda fulltrúa á þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Við getum fengið þær till., sem þar eru samþykktar, og nýtt þær hjá okkur, ef þurfa þykir. Það er rétt að spara þessa liði, en sjá þá heldur fyrir gamalmennum hér heima. Af sömu ástæðum greiði ég atkv. á móti hækkunartillögum hv. fjvn. viðvíkjandi utanríkismálunum. Það er ekki eftir neinu að bíða að skera eitthvað niður af kostnaðinum við sendiráðin erlendis. Mun ég greiða atkv. á móti þeim hækkunum, sem ráð er fyrir gert við sendiráðin. Gátum við fyrir nokkru komizt af með einn sendimann á Norðurlöndum. Það getur verið einn „attacheraður“ hjá ríkisstjórnum annarra Norðurlanda. Þá komumst við af með að hafa sendiherra í aðalhöfuðborgum heimsins, þ.e. Washington, London og Moskva, þeim er við þurfum að eiga skipti við. Er hægt að komast af með fjóra sendiherra erlendis á þennan hátt og skipa þá fulltrúa hjá öðrum þjóðum um leið. Sama máli gegnir viðvíkjandi kostnaði við þátttöku okkar í alþjóðaráðstefnum. Það er hægt að sýna meiri sparnað í þessu, og mun ég greiða atkv. á móti þeim hækkunum. Það er ekki til neins og eigi verjandi af Alþ. að heimta sparnað af allri þjóðinni, en sýna enga viðleitni sjálf í þá átt, og það að halda þess konar stefnu áfram er hið sama sem að segja við hana: Það er ekkert að marka, sem við segjum. — Síðan hefur komið yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj., að enginn tími hafi verið til að hugsa um þetta, því að stj. hafi verið svo nýlega mynduð. En það var þó tími til gengislækkunarinnar, hækkana á vöruverði og skerðingar lífskjara almennings í þeim mæli, að enginn sér fyrir endann á. Við vitum þetta. Höfum við og reynslu fyrir því, að þegar meiri hl. fjvn. hefur verið sammála um tillögur til sparnaðar, sem við sósíalistar höfum staðið með, þá hafa þær verið felldar, því að þegar þær koma við eyðsluna í ríkisbákninu, kemur það við kaunin á stj. Það má skammta almenningi smátt. En við annan tón kveður, ef fara á að skammta valdhöfunum sjálfum smátt.

Ég ætla ekki að öðru leyti að ræða almenna afgreiðslu fjárl. Það hefur verið gert af fulltrúa okkar sósíalista í hv. fjvn. Læt ég með þessu útrætt um það, en vildi persónulega segja þetta.