11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

38. mál, fjárlög 1950

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er nú orðið langt liðið á nóttu, og menn orðnir þreyttir að hlusta hér á ýmis vísdómsorð, sem sögð hafa verið í allan dag, en með því að mér hefur skilizt, að slíta eigi umr. um þetta mál nú í nótt, neyðist ég til að þreyta hæstv. forseta með því að segja hér fáein orð til viðbótar, til þess að það sé að minnsta kosti hægt að vísa til þeirra, ef hv. þm. eða aðrir þurfa í sambandi við afgreiðslu fjárl.

Ég hefði viljað óska þess, að hæstv. ríkisstj. væri hér viðstödd, í sambandi við ýmis stórmál, sem hér hafa verið rædd, og meðal annars vegna yfirlýsingar hæstv. forsrh., en hann er víst ekki viðstaddur hér í þinginu núna. En ég vildi nú samt bera þessa fyrirspurn fram, og gæti þá að sjálfsögðu hæstv. landbrh. svarað henni, — mér sýndist hann vera hérna fyrir skömmu, en hann er nú kannske farinn líka. Mér skildist það á hæstv. forsrh. í kvöld, bæði af ræðu hans og eins í einkasamtali, að það væri að minnsta kosti óvíst, að frv. það, sem nú liggur fyrir hv. Nd. um breyt. á lögunum um almannatryggingar, næði fram að ganga, og vildi ég fá það staðfest af hæstv. ráðh., ef svo er. Ég verð að segja það, að það veldur mér mjög miklum vonbrigðum, ef það er rétt, og ég vildi enn fremur leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort þeir hugsi sér ekki heldur að uppfylla það loforð, sem gefið var í haust í sambandi við Tryggingastofnun ríkisins. Þetta eru svo stórkostleg atriði, að ég vildi gjarnan fá það upplýst, hvort þetta er rétt. Mér er svo umhugað um þessi mál, að ég held, að ég hefði ekki tekið að mér baráttu fyrir afgreiðslu þessara fjárlaga, ef ég hefði vitað það, að þessi mál ættu ekki að ná fram að ganga, og ég kalla það, að með þessu sé verið að koma aftan að þeim mönnum, sem harðast börðust fyrir því, ef það er meiningin að fara svo með afgreiðslu málsins. Nei, ég verð að segja það, að ég hefði nú átt von á. sterkari yfirlýsingum um almennar umbætur á ríkisrekstrinum heldur en þeim, sem hæstv forsrh. gaf í kvöld.

Þá ætla ég að snúa mér að brtt. fjvn. á þskj. 711.

Fyrsta till. er við 2. gr. 17, að þar komi nýr liður: Leyfisgjöld 3500 þús. kr. Þetta er aðeins leiðrétting, og hafði fallið úr þarna, en var tekið upp í niðurstöðutölurnar.

Brtt. nr. 2, við 3. gr., er einnig leiðrétting. Brtt. 3., við 14. gr., er nýr liður, sem hefur verið tekinn upp af fjvn., þess efnis, að veitt verði til Sverris Markússonar til dýralæknisnáms 5.000 kr. Sverrir Markússon er nú eini maðurinn, sem slíkt nám stundar erlendis, sem er bæði langt og erfitt og þar að auki dýrt. Það hefur verið venja að styrkja menn til slíks náms, og vænti ég því, að þessi till. verði samþ.

Brtt. 4. hefur engin áhrif á afkomu fjárlaganna, þar er aðeins um sundurliðun að ræða. Brtt. 5. er ný till., en hefur heldur ekki nein áhrif á afkomu fjárl., þ.e.a.s., þetta er rekstraráætlun á rafmagnsveitum ríkisins. Það hefur verið venja að hafa þetta í fjárl., og þótti því rétt að hafa það enn, meðal annars til þess, að þingmenn fái yfirlit yfir það, hvernig þessi fyrirtæki eru rekin. Sést af þessu, að ríkissjóði er ætlað að greiða til þessara framkvæmda 420 þús., þótt töluvert sé tekið úr raforkusjóði. Annars er það gleðilegt í sambandi við þetta mál, að sjá, að margar af rafveitum landsins bera sig alveg fjárhagslega, og hefur því rætz sú áætlun, sem í upphafi var um þær gerð.

Brtt. 6. er aðeins leiðrétting, og þarf ég ekki að fara um hana orðum.

Brtt. 7. er umorðun, án þess að vera nokkur efnisbreyting, og er hún flutt eftir ósk ráðuneytisins.

Þá er loks 8. brtt. í tveim liðum: Í fyrsta lagi að taka allt að 2 millj. kr. lán vegna smiði varðskipa, og í öðru lagi 500 þús. kr. lán til þess að ljúka byggingu þjóðminjasafnsins. Báðar þessar till. eru teknar upp af nefndinni samkv. ósk rn., og hafa þær að sjálfsögðu áhrif á niðurstöðutölur fjárlaganna, og nægir í því sambandi að vísa til þess, sem um það hefur verið sagt áður. Að öðru leyti er ekki ástæða til þess að lýsa brtt. n.

En vegna þess að hv. 2. landsk. þm. hefur gert fyrirspurn út af einu atriði í fjárlögum, þá vil ég gefa skýringu á því. Í sambandi við styrki til manna, sem nám stunda erlendis, vil ég geta þess, að á 14. gr. B. II.a er grunnstyrkurinn 150 þús. kr., eins og það var upphaflega í frv., og gengisauki 125 þús. kr., sem samsvarar þeirri gengisbreytingu, sem orðið hefur. Það er sem sagt allt gert til þess, að sá flokkur nemenda, sem notið hefur þessa styrks, fái jafnmikið og áður í erlendri mynt. Handa þeim mönnum, sem nám stunda í Bandaríkjunum og Sviss, hafa nú komið fram óskir frá menntamálaráði um, að styrkur til þeirra hækki um 25 þús. kr. til viðbótar, sem taka á af næsta lið fyrir neðan. Á þetta hefur fjvn. ekki getað fallizt, og það er rétt, að rn. fjallaði að vísu um þetta efni, en það er ekki rétt, að rn. fyrirskipaði það. Í bréfi rn., dags. 10. maí þ. á., til fjvn. segir svo:

„Hinn 3. dag maímánaðar þ.á. ritaði þetta ráðuneyti fjármálaráðuneytinu svofellt bréf: „Í framhaldi af bréfi héðan um fjárframlög í ár til íslenzkra námsmanna erlendis, tekur ráðuneytið fram, samkvæmt beiðni formanns menntamálaráðs, að æskilegt er að gera þá tilfærslu, að til íslenzkra stúdenta í erlendum háskólum séu veittar 300 þús. kr. í stað 275 þús. kr., en fjárveiting til annarra námsmanna lækki að sama skapi. Heildarfjárhæðin, kr. 1.325 þús., breytist ekki.“

Þetta tilkynnist háttvirtri fjárveitinganefnd hér með.

F.h. r.

Birgir Thorlacius.“

Þetta er allt annað en ráðuneytið fyrirskipi. Það kemur ekkert fram í þessu bréfi, hvort rn. er sammála þessari ráðstöfun eða ekki. Ég hef síðan átt tal við aðstandendur þessara námsmanna, sem falið var að tala við fjvn., og mér skilst, að þeirra tillögur séu þær sömu og komu frá ríkisstj. á sínum tíma, og beri því að skipta fénu þannig, að þeir, sem áður fengu 150 þús., Fái nú 125 þús. kr. í viðbót, eða samtals 275 þús. kr., og framlagið undir b-lið hækki úr 400 þús. í 500 þús. auk gengisauka, 300 þús., og þar af skuli varið 100 þús. til námsmanna í Ameríku og Sviss. Svo er nýr liður, þar sem ákveðið er að verja 250 þús. kr. til námsmanna, sem stunda nám erlendis, en njóta ekki menntamálaráðsstyrks; c-liðurinn er svo augljós, að það er ekki ástæða til þess að ræða hann nánar hér.

Ég sé heldur ekki ástæðu til þess að ræða till. hæstv. atvmrh. í sambandi við veitingu styrks til útvegsmanna þeirra, sem síldveiðar stunduðu sumurin 1948 og 1949. Þetta mál hefur verið rætt í fjvn., og þótt hún beri ekki þessa till. fram, þá er hún henni ekki ósamþykk.

Út af till. hv. 5. landsk. á þskj. 710 vildi ég segja það, sem hv. þm. kannske vita ekki, að þessum brtt. hefur ekki verið hreyft í fjvn., og komu þær mér því mjög á óvart. Í sambandi við þetta get ég látið þess getið, þótt ég sé ekki að kvarta undan samstarfinu við stjórnarandstæðinga í fjvn., að þá var það þessi hv. þm., sem einna fastast sótti á um útgjöld, og þess vegna kom mér það dálítið spánskt fyrir sjónir að sjá þessar brtt. til sparnaðar. Þessar till. voru ekki ræddar af hv. þm. í fjvn., nema að vísu ein till., till. um fjárhagsráð og deildir þess. Þessar tillögur eru því hrein auglýsingastarfsemi, en mér þykir þó gott að vita af því, ef hugarfarsbreyting hefur orðið hjá hv. þm.

Þá eru hér till. frá hæstv. ríkisstj. á þskj. 713. Fyrsta tillagan er um launahækkanir, þ.e.a.s. uppbætur á laun opinberra starfsmanna, og neyðist ég til að fara um hana nokkrum orðum.

Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni og einnig oft síðar, þá hefur það aldrei staðið til, að fjvn. bæri fram slíkar tillögur. Þess var heldur ekki að vænta, þar sem þeir menn, sem sæti eiga í fjvn., stóðu eins og veggur gegn þessum uppbótum á síðastl. hausti. Það var því samkomulag um, að ríkisstj. bæri fram þessar tillögur sjálf. Nú skal ég viðurkenna, að ég get frekar greitt atkvæði með þessu nú en á síðastl. hausti, því að hér er vinnutíminn lengdur samfara uppbótunum. Hæstv. ráðh. sagði þó, að sú lenging vinnutímans næði ekki til loftskeytamanna og símakvenna. En nú er það einmitt vitað, að það eru loftskeytamenn, sem spenna upp kaupið í símaþjónustunni, og þess vegna finnst mér, og vænti þess, að hæstv. ríkisstj. láti athuga það að láta þetta fyrst og fremst ganga yfir þá. Hæstv. ráðh. sagðist ekki vera viss um, hvort þessar uppbætur hafi verið greiddar á einföld, tvöföld, þreföld eða jafnvel fjórföld laun, en mér finnst nú alveg sjálfsagt, að aldrei eigi að greiða þær nema á einföld laun, og vænti ég þess, að það verði athugað. Skal ég svo ekki ræða þetta atriði nánar.

Ég verð þá að ræða nokkuð um það, sem hv. 7. þm. Reykv. og hv. 3. landsk. þm. hafa sagt.

Ég ætla þá fyrst að minnast á till. frá hv. 7. þm. Reykv. Verð ég að segja það, að þegar hv. þm. flutti ræðu sína hér áðan, sem var víst jómfrúrræða þingmannsins, þá datt mér í hug: Ja, ill var þín fyrsta ganga. — Hann hóf mál sitt með því að lýsa því yfir, að hann mundi greiða atkvæði með till., en vonaðist til þess, að hann gæti sýnt svo mikla íhaldssemi í sambandi við annað, að hann yrði ekki sakaður um ábyrgðarleysi. Og þetta er nú prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Svo kom hann með ágætt dæmi til þess að sýna fram á, að gengisbreytingin væri ekki kjaraskerðing, eins og stjórnarandstæðingar hafa haldið fram, og nú vil ég spyrja: Er þá hv. þm. ekki með sömu meinlokuna og stjórnarandstæðingar, þar sem hann vill stytta vinnutímann? Er þá ekki alveg eins mikið ráð fyrir hv. þm. að flytja till. um að stytta vinnutímann niður í einn tíma á dag. Hins vegar ætla ég ekkert að fara að reyna að skýra þessa meinloku út fyrir hv. þingmanni. Annar setur pundið í eina krónu, en hinn vinnutímann í eina klukkustund, og þá er fyrst hagkerfið í landinu orðið eins og það á að vera. Það væri mjög gott að fá meira af slíkum spekingum í þingið, mönnum, sem fyrst og fremst eiga að bera ábyrgð á því að það takist, sem verið er að gera, — að sjá um, að hægt sé að leggja hornstein að þeirri byggingu, sem við erum að byggja hér, — en við, fyrsta tækifæri koma og brjóta allt niður, sem þeir hafa sjálfir gert í þessum málum. Á þjóðin að taka þá háalvarlega á eftir? (HV: Hún gerir það ekki.) Það er ekki hægt að taka þá alvarlega. Það er ekki hægt að taka alvarlega mann, sem ber hér fram brtt. á móti þeirri ríkisstj., sem hann styður, — til þess að minnka vinnutímann og hækka launin.

Þá var hv. 3. landsk. þm. að styðja þessa ágætu stefnu hér. Hann hefur sjálfsagt gert það í einlægni. Svo spurði hann, hvort það væri virkilega meiningin að ætla að segja fólkinu upp. Það væri þá skárri goðgáin. Veit hann ekki, að á undanförnum árum hafa hér verið stofnuð fjölda mörg embætti, ekki vegna þarfar, heldur til þess að veita fólki, sem komið hefur frá námsborðinu, atvinnu? Hvernig hefur þróunin verið í atvinnudeildinni og víðar í þessum málum? Ætli að það væri skaði skeður þó að hreinsað væri til í þessum hreiðrum? (GÞG: Hví hefur hv. form. fjvn. ekki gert þetta í tíu ár?) Ef ég hefði verið í ríkisstj., þá væri ég búinn að þurrka út eitthvað af því tagi. Mér fyndist það ekki nein goðgá, heldur hreint og beint skylda þeirrar ríkisstj., sem situr að völdum og sér erfiðleikana, að byrja á að skipuleggja þannig ríkisreksturinn og störf fyrir ríkið, að eitthvað af þeim mönnum færi frá þeim störfum, sem eiga að heita fyrir ríkið, en eru ekki til annars en óþurftar fyrir fjárhag ríkissjóðs, eins og m.a. skömmtunarskrifstofan. — Og hér var í einum skólanum stofnað embætti um það að veita mönnum sálarþjálfun, og var ráðinn til þess Björn nokkur Magnússon að starfa við það við guðfræðideildina að þjálfa sálir þeirra, sem þar eru. (HV: Misskilningur hjá hv. þm.) Þeir menn, sem harðast verða úti nú í erfiðleikunum, sem að atvinnuvegunum steðja, krefjast þess beinlínis, að það sé ekki haldið uppi öllu því kerfi embættismanna og þjónustufólks, sem lætur sér nægja að hafa sæmilega góð lífskjör, vinna 5–6 klukkutíma á dag við örugga vinnu og tryggja sér og sínu fólki ágæt lífskjör. Það er ekki þetta, Sem þjóðin óskar eftir fyrst og fremst, og ekki þetta, sem getur reist hana við. Og ég veit, að hv. 7. þm. Reykv. er ekki kominn hér á þing til þess að gera kröfur fyrir þessa menn, heldur fyrir þjóðina sem heild, en ekki neina sérstaka kröfugarpa, sem gera slíkar kröfur eins og hér hafa verið gerðar af þessari stétt. Þegar hann áttar sig á þessum málum, þá áttar hann sig á því, að hann er hér til þess að vinna fyrir þjóðina í heild, en ekki til annars. Og þeir menn, sem taka kaup hjá ríkinu, geta ekki lifað til æviloka með meira en full laun, ef enginn er til að vinna fyrir þeim, — þeir geta þá áreiðanlega ekki fengið full laun, eftir að þeir geta ekki annað gert en tuggið smjör og varla það. — Þetta er áreiðanlega ekki það, sem getur bjargað íslenzku þjóðinni, að dekra svona við launamenn, fram yfir aðrar stéttir.

Hv. þm. Ísaf. talaði hér um það, að hann á hér brtt. á þskj. 712, XVI. Mér þykir rétt að skýra frá því hér, að þessi brtt. var til umr. í fjvn. og fékk ekki fylgi meiri hl. n. Hv. 6. landsk. þm. bar þá brtt. fram í n. Og ég get, því miður, heldur ekki mælt með því, að þessi brtt. verði samþ. hér.

Ég nenni nú ekki að vera að fara yfir ýmsar þær till., sem menn hafa mælt fyrir hér, því að þeir eru farnir héðan af fundi svo margir. — Í sambandi við brtt. hv. þm. N-Ísf. um að heimila að greiða inn í hlutatryggingasjóð Bolvíkinga, er það að segja, að fjvn. hefur ekki haft tækifæri til að athuga þetta. Ég geri ekki ráð fyrir, að fjvn. vildi ganga inn á þetta, því að þetta er braut, sem er ekki verjandi, að láta ákvæði laga verka aftur fyrir sig um svo og svo mörg ár. Ég mundi ekki mæla með því fyrir hönd n., að sú brtt. yrði samþ.

Ég vil, að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Eyf., aðeins taka fram, að ég viðurkenni ekki þær ásakanir, sem hann viðhafði oft í umr. hér um störf fjvn. Fjvn. hefur þaulrætt skiptinguna á fé til vega, brúa og hafna og leitað upplýsinga hjá viðkomandi aðilum um þau mál. Og það er alls ekki rétt, sem haldið hefur verið fram, að það hafi ekki verið tekið tillit til og meira að segja fullt tillit til allra þeirra aðstæðna á hverjum stað fyrir sig, sem fyrir hendi eru, þegar n. hefur skipt fénu. Hitt er annað atriði, að fjvn. hefur sjálfsagt ekki þar frekar en í öðru fellt neina Salómonsdóma. Og togstreitan um þessi mál er alltaf sú, að héruðin, sem vanrækt hafa verið árum saman, kalla og krefjast þess, að þau fái eitthvert fé til þessara framkvæmda, og er það ekki nema eðlilegt. En héruðin, sem hafa alltaf fengið stærstu sneiðarnar af þessu fé, hafa viljað halda þessum forréttindum. (HV: Og hafa haldið þeim.) Þau héruð hafa fyrst fengið vegi fyrir 2–3 tonna bíla, sem gátu þá bráðlega orðið 6–8 tonna bílar, sem þau höfðu á sínum vegum, og nú hefur þetta breytzt þannig, að u.m vegina í þessum héruðum fara bílar, sem eru 10–14 tonna, og stór jarðyrkjuverkfæri fara auk þess þar mjög um vegina. Og þá kemur krafan frá þessum héruðum einnig um að byggja brýr, sem þoli þessa þungu bíla, til þess að bera slíka umferð, sem ég lýsti. Aftur á móti verða fyrir þetta ár í þeim héruðum, sem enga vegi eða hverfandi litla vegi hafa fengið, að vera óbrúaðar. Og þessi afskiptu héruð í þessum greinum vilja ekki viðurkenna, að rétturinn sé svo mikill hjá þessum héruðum, sem meira hafa fengið gert við samgönguleiðir hjá sér, að þau, þó að þau séu fjölmenn, eigi alltaf að sitja fyrir um það að fá umbætur á samgönguleiðum sínum. Og af þeim ástæðum, að Eyjafjarðarsýsla fékk margvíslegar umbætur á sínu vega- og brúakerfi, meðan aðrar sýslur fengu miklu minna fé til þessa, þá hefur Eyjafjarðarsýsla orðið nú að sætta sig við minni skerf í ár til þessara hluta en hún fékk, þegar hún fékk mest samanborið við aðrar sýslur. Það var enginn naglaskapur, sem kom fram af hálfu ríkisins, þegar þurfti að fullgera veginn til Ólafsfjarðar. Síður en svo. Þá voru önnur héruð, sem engu síður þurftu að fá fé til samgöngubóta, látin sitja á hakanum. Þegar því verki var lokið, var ætlazt til þess, að sá skilningur væri hjá hv. 1. þm. Eyf., að önnur héruð ættu þá að fá úrlausn í þessum efnum. En því miður virðist lítið bera á þeim skilningi hv. þm. Og þegar sá skilningur er ekki fyrir hendi, verður að taka réttinn fyrir önnur héruð, sem þau eiga, hvað sem hver segir. Og þetta sjónarmið hefur ráðið úrslitum í niðurstöðum fjvn. um skiptingu þessa fjár. Ég vísa því á bug öllum svigurmælum hv. 1. þm. Eyf. um það, að fjvn. hafi verið ranglát í skiptingunni á vegafénu.

Ég skal ekki mikið ræða frekar um till. hæstv. ríkisstj. í sambandi við flugvellina eða brtt. hv. þm. Vestm. En ég vil endurtaka það, að ég fylgi því aðeins þeirri till. hæstv. ríkisstj., sem fram er borin af fjvn., og greiði atkv. gegn till. hv. þm. Vestm., að hæstv. ríkisstj. bæti úr hverjum þeim erfiðleikum, sem á þessu yfirstandandi ári koma fram og steðja að flugsamgöngunum beinlínis vegna þess, að þessi fjárveiting er skorin niður.

Í sambandi við brtt., sem hv. þm. Vestm. ber fram á öðru sviði, — um að draga úr slysahættu vegna loftskeytastanganna á Melunum, þá hefur þetta mál legið fyrir fjvn. Það hefur legið þar í erindi og verið rætt. Og það hefur ekki þótt ástæða til að leggja þessa byrði á ríkissjóð, sem var talið, að kostaði eitthvað um tvær millj. kr. Í fyrsta lagi var gert ráð fyrir því í því erindi að byggja nýtt hús og nýjar stöðvar í sambandi við þetta mál, en það töldum við ekki koma þessu máli við. Í öðru lagi var upplýst, að á sínum tíma hafði herstjórnin, sem hér var, viljað flytja þetta á sinn kostnað, en það hafði ekki verið þegið. Og það er bezt að láta þá menn, sem komu því svo fyrir, að þetta var ekki þegið þá, glíma við þetta nú. Annars er það upplýst, að það sé hægt með sáralitlum kostnaði að lækka þessar stengur svo, að ekki stafi hætta af þeim fyrir flugvélar. En um það hefur ekki enn verið hægt að ná samkomulagi við símamálastjóra, því að hann vill fá meira fé en þarf til þess að færa þetta til.

Um hina till., í sambandi við byggingu vita á Faxaskeri, þá vil ég mótmæla því, að það hafi dregizt óþarflega lengi hjá fjvn. að afgreiða það mál. Og ég veit, að hv. þm. hefur ekki meint það, þó að hann segði það. Það mál var sent til vitamálastjóra og óskað eftir umsögn um málið, sem er ekki komin enn. Nú sagði vitamálastjóri, hv. þm. Hafnf., í dag, að gefnu tilefni, að hann væri búinn að ganga frá bréfinu um þetta mál og það væri alveg neikvætt. Hins vegar hefur ekkert svar komið frá þeirri n., sem á að skipta þessu fé til vitanna og gera till. um, hvar vita skuli byggja, og það hefur aldrei verið nefnt að gefa svar við því. Við vildum í n. fá svar við þessu, en það hefur aldrei verið gert af hálfu hv. þm. Vestm. að leita svars við þessu. Og það er þá bezt, að þeir hv. þm. Vestm. og hv. þm. Hafnf. geti þá bitizt um þetta og kennt hvor öðrum um aðgerðaleysi í þessu efni. En á fjvn. læt ég ekki kasta ásökunum fyrir aðgerðaleysi í þessu. Það hefði sjálfsagt verið hægt að heimta, að hún skilaði nál. um þetta, án þess að vita, hvað hún var að segja. En slík vinnubrögð hefur fjvn. ekki haft í frammi, þegar hún hefur gengið frá málum.

Ég ætla ekki að skipta mér af umr. hv. þm. i sambandi við fjárl. yfirleitt. Hann beindi þeim orðum meir til hæstv. ríkisstj. heldur en fjvn.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist á það hér, að það stafaði af misskilningi, að styrkurinn til Leikfélagsins hefði verið felldur niður. Ég vil leiðrétta þennan misskilning, sem kom fram hjá þessum hv. þm., því að málið lá fyrir hjá fjvn., og það lá fyrir bein ósk um það frá ríkisstj. með bréfi um að láta þetta falla niður, taka þetta út, vegna þess, að Þjóðleikhúsið væri tekið til starfa, svo að það er ekki af misskilningi hjá fjvn., að liðurinn er látinn falla niður. Ég hef rætt þetta mál við stjórn Leikfélagsins, og þeir hafa skilið, að fjvn. gat ekki gert annað en hún gerði, eins og komið var. Það hafði engin ósk komið fram um að halda þessu inni, en bein fyrirmæli frá hæstv. ríkisstj. um að taka þetta út. Hitt er rangt hjá hv. 4. þm. Reykv., að þetta eigi að standa undir kostnaði við reksturinn á þessu leikári. Það er vitanlegt, að það á að standa undir kostnaðinum til 1. janúar. Hitt kann að vera, að það vanti eitthvað til að standa undir kostnaði við reksturinn frá 1. jan. til sumardagsins fyrsta. En þeir, sem í Leikfélaginu eru, vita ekki um afkomuna á þessum tíma, svo að það er engin goðgá, þó að styrkurinn sé ekki tekinn upp.

Hv. 2. landsk. þm. er hér með till. um að hækka tillag til barnaheimila. Þetta hefur ekki legið fyrir fjvn., svo að ég velt ekki, hvernig n. hefði tekið því. Skal ég því ekkert um það segja. Ég get hins vegar ekki lofað neinu fylgi við það. — Að síðustu vil ég segja, að ég gladdist ákaflega yfir þeirri hugarfarsbreyt., sem orðin er hjá hv. 2. þm. Reykv. Hann er allt í einu farinn að bera hér þungar — ákaflega þungar — áhyggjur af því, hvernig afkoma ríkissjóðs verði. Ja — öðruvísi mér áður brá. Og hann er farinn að gera till. um alls konar niðurskurð á kostnaði á erlendum vettvangi. Af hverju er þessi hugarfarsbreyt. hjá stjórnarandstöðunni? (HV: Af hollustu víð stjórnina.) Já, af hollustu við stjórnina eða hollustu við Rússa. Já, það er stundum gaman að því, hvað menn geta leikið tveim skjöldum.

Ég sé ekki ástæðu til að þreyta hæstv. forseta frekar, þó að gaman væri að gera nokkrar fleiri aths. — Að það sé léttara að standa níu tíma við slátt heldur en að vinna níu tíma hæga vinnu á skrifstofu, það er ný speki í viðskiptalífinu.

Ég legg svo til, að brtt. fjvn. verði allar samþ. og einnig þær brtt. hæstv. ríkisstj., sem hún hefur lagt fram í samráði við fjvn. Það er að vísu hér efn brtt., sem hún hefur lagt hér fram, án þess að hafa rætt um það við fjvn., og hæstv. ríkisstjórn er að sjálfsögðu frjálst að gera það. En samkvæmt samkomulagi á milli hæstv. ríkisstj. og fjvn. getur hæstv ríkisstj. heldur ekki ætlast til þess, að fjvn. fylgi frekar þeim brtt. en öðrum, sem ekki er samkomulag um milli n. og stj., úr því að ekki hefur verið um hana rætt við fjvn. En það er brtt. um að veita heimild til að greiða sr. Bjarna Jónssyni dómkirkjupresti og vígslubiskupi full laun á þessu ári, ef hann fer frá embætti á árinu. Mér kom þessi brtt. ákaflega einkennilega fyrir sjónir. Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur er einhver sá merkasti embættismaður, sem verið hefur hér á landi. Hann hefur þjónað embætti í 40 ár. Og ég hygg, að fáir menn á landinu séu jafnkærir embættismenn og jafnkærir því fólki, sem hann hefur starfað með öll ~þessi ár. Þess vegna skil ég ekki, hvernig hæstv. ríkisstj. sér ástæðu til að hrekja þennan ágæta embættismann frá starfi, því að mér skilst það vera sveigt að því með því að samþ. að veita honum full embættismannslaun, ef hann skyldi láta af störfum á þessu ári, — rétt eftir að fjvn. er búin að óska þess mjög eindregið, í fjórða skipti, að 18. gr. fjárl. sé tekin til róttækrar athugunar, vegna þess ósamræmis, sem er á greininni annars vegar, og vegna þess, að það er alveg óverjandi, að það sé verið að ræða um sérstakar persónur hér á hverju einasta ári, — og m.a. persónur, sem eru jafnmikið elskaðar af þjóðinni eins og Bjarni Jónsson dómkirkjuprestur er, — og bera það undir atkv., hvort slíkur maður skuli hafa einhvern annan rétt, en honum ber samkv. l. Þá er miklu betra að setja það sem lagafyrirmæli í launal., að hver maður, sem lætur af störfum eftir 20, 30 eða 40 ára embættisþjónustu, skuli eiga kröfu á fullum launum, er hann lætur af starfi, svo að það þurfi ekki að deila um þessa hluti. Það væri nær, en að halda þeim ósið, að það kemur varla nokkurn tíma fyrir sú fjárlagaafgreiðsla, að það sé ekki verið að della um vissa menn, hvort þeir eigi að fá full laun, er þeir láta af störfum. Þetta er óþolandi, og það er því verra sem mennirnir eru betri, sem þannig er verið að deila um. Og ég tel það móðgun við hv. fjvn. og Alþ. og þó mesta móðgun við mennina sjálfa, sem um er verið að ræða í hvert skipti, að svana skuli vera farið að. Það ann enginn maður betur, en ég sr. Bjarna Jónssyni dómkirkjupresti þess að fá full laun. — En það er reyndar óþarfi, hvernig sem á þetta er litið, að vera með þessa till. nú, því að ef Bjarni Jónsson óskar eftir að láta af starfi á þessu ári, mun hann fá full laun til næsta nýárs, og lengur getur heldur ekki þessi heimild dugað. Þess vegna skil ég ekki, hvað þessi leikaraskapur á að þýða í þessu máli.