08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

83. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Eins og hv. dm. sjá, er þetta mál komið aftur hér, og leggur n. til, að það verði samþ. með þeirri breyt., sem sjá má á þskj. 662. Í flestum atriðum er þetta frv. tilkomið til þess að leiðrétta og lagfæra tollskrána og þá með tilliti til framleiðslu og iðnaðar og gera hana bærilegri fyrir atvinnulíf landsins heldur en áður var. Ég ætla, að það muni flestir álíta, að með því, sem hér er tekið upp, séu töluverðar úrbætur gerðar fyrir þessar tvær atvinnugreinar, framleiðslu á vörum, sem seldar eru til útlanda, sjávarafurðum, og svo innlendan iðnað. Þá er tekin upp heimild, sem ekki hefur verið áður, en er nauðsynleg fyrir rn. til þess að þurfa ekki af illri nauðsyn að gefa heimildir, sem ekki eiga sér stoð í l. Ég ætla, að ekki þurfi að hafa um þetta lengra mál, því að málið er búið að vera það lengi fyrir þinginu, að allir hv. þm. hafa átt þess kost að bera það saman við núgildandi lagaákvæði. N. leggur sem sagt til, að frv. sé samþ. með breyt., eins og áður segir.