13.01.1950
Neðri deild: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

11. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég mun líklega við þær umræður, sem þegar hafa farið fram. hafa gert grein fyrir brtt. minni á þskj.111, um að tryggja bæjar- og sveitarfélögum forgangsrétt að kaupum á togurum þeim, sem hér er um að ræða. Býst ég eigi við að þurfa að ræða þá till. frekar, og mun eigi rétt að hefja umræður vegna hennar. En um hina brtt., sem ég ber fram, á þskj. 224, er rétt að ræða nokkuð.

Frá því er fest voru kaup á nýju togurunum tíu, hefur dregizt nokkuð að ákveða, hverjir skuli fá þá. Þetta er bagalegt fyrir væntanlega eigendur, því að þeir þurfa að fá að vita, hvernig togararnir eiga að vera útbúnir, hvort þeir munu hafa dieselvél eða gufuvél o.s.frv. Það þótti rétt hér áður, að eigendur gætu innréttað togara sína nógu snemma. Því er nauðsynlegt að útbýta þeim sem allra fyrst. Vegna þess er till. mín á þskj. 111 komin fram, um forgangsrétt bæjar- og sveitarfélaga o.fl., og álít ég þá heppilegt, að félögunum væri látin í té vitneskja um úthlutunina í tíma. Því er það, að ég, á þskj. 224, legg til, að 5 manna úthlutunarn. sé kosin af Alþ., sú er úthluti togurunum fyrir 29. jan. þ.á. Mér er engin launung á því, að bæjarstjórnakosningar falla á þennan dag. Álít ég meiri möguleika á því, að bæjar- og sveitarfélög fengju umræddan forgangsrétt, ef úthlutunin færi fram fyrir kosningarnar, því að það sýnir sig, að stjórnmálamenn taka meira tillit til hv. kjósenda fyrir kosningar. Því er rétt að ræða málið. — Þá er lagt til, að kaupendum skuli „reiknað kaupverð togaranna í ísl. krónum með þeirri gengisskráningu ísl. krónu gagnvart sterlingspundi, er gildir á úthlutunardegi, hvaða breyting sem verða kann á gengi því, áður en togararnir verða að fullu greiddir.“ Ég vil vekja eftirtekt manna á, að ákvörðunin um togarakaupin var tekin í tíð fyrrv. ríkisstj., af þeim flokkum, sem að henni stóðu, og það var gert undir þeim kringumstæðum, að þeir flokkar bera fulla ábyrgð á því. Þegar árið 1945 voru hinir 30 togarar keyptir, þá sögðu útgerðarmenn, að of snemmt væri að kaupa togara og betra væri að bíða, eins og Bretar gerðu. Verðið mundi lækka, þetta væri angurgapaháttur, og það var m.a. heill stjórnmálaflokkur, er gekkst í þetta og kvað það vera stórhættulegt fyrir landið. Svo voru það þeir menn, sem réðu fjármálum ríkisins, m.a. stjórn Landsbanka Íslands, sem sögðu, að þetta væri flónska. M.ö.o.: Það voru þrír aðilar, sem lögðust á móti togarakaupunum, máttarvöldin: Landsbanki íslands, útgerðarmenn og einn stjórnmálaflokkur. En hér er nú um tíu togara að ræða. Það er enginn angurgapaháttur eða skýjaglópska. Það var fyrrv. ríkisstj., og hefur hún ráðfært sig við hina vísu feður í fjárhagsráði, sem settir hafa verið sem stórráð yfir fjárfestingarframkvæmdir. Það vantar ekki, að ráðfært hafi verið sig við Landsbankann og fjárhagsráð, enda gerði hæstv. ríkisstj. litið án samþykkis framkvæmdastj. Landsbanka Íslands. En árið 1945 þurfti að kúska bankastj. En eigi hefur heyrzt, að nú hafi þurft neitt sérstakt knýjandi til að fá lán til hinna tíu togara. Þessir menn vissu, að hér var verið að gera rétt verk. Það var eigi verið að hlaupast í þetta eins og 1945, og nú voru allir þrír aðilarnir sammála, bankinn, útgerðarmenn og stjórnmálaflokkurinn eini. Nú er þetta auðvitað gott, því að landið þarf fleiri togara með. Síðan þarf að úthluta togurunum til kaupenda, og er gefið, að þeir aðilar eiga að fá einhvern undirbúningstíma til kaupanna og eiga ekki að sæta lakari kjörum, en er stj. Landsbankans var neydd til stuðnings. Því álít ég nauðsynlegt, að kaupendur að nýju togurunum tíu komi til með að njóta sömu kjara og helzt eigi lakari, en þegar nýsköpunartogurunum var úthlutað. Nú hafa togarar hækkað í verði, og er gengið út frá því, að togararnir kosti um 41/2 millj. kr. hver, en nýsköpunartogararnir kostuðu um 31/4 millj. kr. Nokkuð af þessari hækkun er að vísu fyrir sakir betri útbúnaðar, og hafa þeir verið lagaðir.

Nú er till. komin fram um gengisbreyt. af vissum stjórnmálaflokki, og barizt hefur verið mjög ákveðið fyrir því, að genginu verði breytt á ísl. krónu. Sagði og hæstv. forsrh., að fiskábyrgðirnar mundu verða afnumdar í febrúarmánuði. Nú er ekki unnt að segja nákvæmlega til um hlutfallið, en hækkun verðsins mundi nema um 50%, og verði nú farið að bíða með kaupin, hefði það 7 millj. kr. verð á togurunum í för með sér. Ég býst ekki við, að tilgangur þeirra manna, sem fyrir kaupunum stóðu, sé sá að láta togarana hækka í 7 millj. kr. Geng ég út frá því, að það ætti að vera hægt að ná samkomulagi um, að kaupendur togaranna Yrðu aðeins látnir fá togarana á því verði, sem nú þegar er orðið, og sleppt við að fá verðhækkun á sig vegna hugsanlegrar gengisbreyt. — Ég býst við, að þeir menn, er tóku ákvörðunina um kaupin, hafi líka gert sér ljóst, að þeir þyrftu eigi síður markaði nú, en árið 1945. þegar Ísland var að basla eitt sér. En árið 1948, er ákvörðunin var tekin um kaup nýju togaranna, voru Íslendingar með völdum vinum, svo að hinir vísu landsfeður munu hafa vitað um hina góðu markaði og eigi vanrækt að tryggja landinu markaði á árinu 1951. Því er eðlilegt, að ríkið beri fulla ábyrgð á því. — Ég tel þess vegna brtt. mína nauðsynlega.

Nú er mikil eftirsókn að togurum. Íslendingar eru reiðubúnir til að veiða á nýjum togurum. Vitum við vel, hverju máli togararnir hafa skipt fyrir þjóðarbúskapinn. Vegna þess þarf að tryggja, að þessir tíu togarar verði eigi síður landinu til blessunar en nýsköpunartogararnir þrjátíu. En það verður eigi gert, ef slengja á breyt. á genginu á hina nýju eigendur, það verður ekki gert, ef á að demba skaðanum af gengisbreyt. á kaupendur þessara 10 nýju togara, sem eftir minni till. ættu að verða bæjarfélögin á Íslandi. Ég vænti þess, að hv. þm. samþ. þessa brtt. Og ef þessi brtt. verður samþ., mundi það e.t.v. verða aðhald gagnvart þeim, sem kynnu að hugsa um að stórbreyta gengi~ ísl. krónunnar, því að það mundi þá baka ríkissjóði eða bankanum sem í hlut ætti, nokkurn bagga. Og ef brtt. þessi væri samþ., mundi það verða nokkurt aðhald um að lækka ekki stórkostlega gengi ísl. krónunnar.