06.02.1950
Neðri deild: 41. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

11. mál, togarakaup ríkisins

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls flutti ég brtt., sem ég tók aftur til 3. umr. Efni till. var í stórum dráttum það, að bæjar- og hreppsfélögum þeim, sem fyrir mestum áföllum hafa orðið að undanförnu vegna aflabrests á síldveiðunum, yrðu tryggð 95% af kostnaði togaranna að láni. Ástæðan til þess að ég flyt þessa brtt. er sú, að þessi bæjar- og hreppsfélög á Norðurlandi og ef til vill einnig á Vesturlandi, sem byggt hafa afkomu sína að mestu leyti á síldveiðum og síldarvinnslu, eru þannig stödd, að ef ekki verður gerbreyting á og tekinn annar atvinnuvegur, þá hlýtur að reka að því fyrr eða síðar, að fólkið gefst hreinlega upp í þessari erfiðu baráttu og flyzt þaðan burtu.

Sum bæjarfélög, þar á meðal Siglufjörður, hafa keypt togara, og þó að rekstur hans hafi ekki gengið vel framan af, þá má samt segja, að hann hafi gengið mjög sæmilega síðar. Þar hefur það verið svo, að af þessum sökum hefur verið hægt að hafa góða atvinnu fyrir 30 fjölskyldufeður úr bænum, þó að reksturinn hafi ekki alltaf gengið sem bezt. Siglfirðingar eru sér þess vel meðvitandi, hvað gera þarf, og bæjarstjórnin þar hefur lagt á það megináherzlu að beita sér fyrir því, að upp verði teknir aðrir atvinnuvegir, en síldveiðar og verkun, t.d. með því að leggja stund á verkun og veiði annarra fisktegunda, og hafa þeir í því sambandi aukið bátaflota sinn. Einn liður í þessari áætlun er að afla nýs togara og auka bátaútgerðina og fiskvinnslu.

Það kann nú að vera, að mönnum finnist þetta framlag nokkuð mikið, þar sem gengið er út frá 95%, en svo er þó í rauninni ekki, þegar tillit er tekið til þess, hvað viðkomandi bæjar- eða hreppsfélög þurfa að láta koma á móti. Flestir eru sammála um það, að með sama gengi mundu togararnir kosta um 5 millj. króna, en ef gengisfall yrði nú, — og hér má gera ráð fyrir 27% gengisfalli, — mundi það þýða, að togararnir kostuðu um 7 millj. króna. Við það eru þessi 5% orðin 350 þús. krónur, og það er hreint ekki svo lítið, þegar litið er á atvinnulíf og fjárhag þessara staða, þar sem hann er bundinn við síldveiðar, sem undanfarið hafa brugðizt svo mjög, sem raun ber vitni.

Ég verð að lýsa undrun minni yfir því, ef Alþingi ætlar að afgreiða þessi lög án þess að slá föstu um lán til kaupanna, því að ef framleiðslutækin eiga að koma að einhverju gagni og staðsetja á þau úti á landi, þá er það óhjákvæmilegt að tryggja þessi lán, og upphæðirnar þurfa að vera stærri, en upphaflega hafði verið gert, þegar 85% voru ákveðin, því að ef þessi bæjar- og sveitarfélög á Norðurlandi, sem mest hafa orðið fyrir barðinu á síldarbrestinum, hafa áhuga á þessum kaupum, þá er þeim gersamlega ókleift að drífa upp 15% af kostnaði skipanna, sem mundi þýða 750 þús. kr., og 350 þús. kr. betur, ef gengisfelling yrði, því að eins og kunnugt er, þá hefur ríkisstjórnin tekið lán til þessara kaupa, svo að gengisfellingin mundi hafa sín áhrif á kostnaðinn. Hitt er svo aftur annað mál, að það er mjög óeðlilegt að láta skipin hækka svo mikið í verði, og það mundi gera „rentabilitet“ þeirra miklu vafasamara, þ.e.a.s., það er viðbúið, að mjög erfitt verði að láta skipin bera sig, þó að ekki sé verið að gera það enn erfiðara með því að hafa útborgunina allt of mikla. En sem sagt, þannig stendur nú á fyrir bæjar- og sveitarfélögum norðanlands, að þau eru allsendis ófær um að kaupa þessi framleiðslutæki, sem þeim eru svo nauðsynleg, nema samþ. verði till. mín um, að þeim verði tryggð lán 95% af kostnaði skipanna.

Ég vil geta þess, að þetta mál og þessi till. mín hefur verið rætt alveg sérstaklega í bæjarstjórn Siglufjarðar, sem tók það til meðferðar á fundi sínum 11. janúar s.l. og gerði um það svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar þann 11. jan. s.l. var samþykkt einróma að mæla með breytingartillögu við frumvarp til laga um togarakaup ríkisins, flutningsmaður Áki Jakobsson, þingmaður Siglfirðinga.

Bæjarstjórn Siglufjarðar telur breytingartillöguna, ef samþykkt verður, til mikilla hagsbóta fyrir þau bæjarfélög norðanlands, sem hafa orðið fyrir mestum áföllum atvinnulega vegna undanfarinna 5 síldarleysisára, og skorar á hið háa Alþingi að samþykkja frumvarpið með áorðinni áminnztri breytingu.

Virðingarfyllst

Bæjarstjórinn á Siglufirði

J. Kjartansson.“

Þessi ályktun var einróma samþ. þar af fulltrúum allra hinna 4 stjórnmálaflokka. Till. sú, sem ég leyfi mér að bera fram, er svo hljóðnaði, með leyfi hæstv. forseta: (sjá þskj. 298.1