09.02.1950
Neðri deild: 42. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

11. mál, togarakaup ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í 1. gr. þessa frv. er ríkisstj. heimilað að láta smíða 10 togara í Englandi með það fyrir augum, að þeir verði síðar seldir einstaklingum, félögum, bæjar- eða sveitarfélögum. Togaraútgerð hér er nú einkum í höndum hlutafélaga og bæjar- eða sveitarfélaga, en að litlu leyti í höndum einstakra manna. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. á þskj. 312, um það, að á eftir 2. gr. komi ný gr., og er efni hennar það að heimila ríkisstj. að leigja einn eða fleiri togara til útgerðarfélaga sjómanna, en það sé þó háð þeim skilyrðum, að allir skipverjar á togaranum skulu vera félagar í útgerðarfélaginu, og framkvæmdastjóri þess geti einnig verið félagsmaður. Verðmæti aflans, að frádregnum útgerðarkostnaði, skiptist milli félagsmanna eftir hlutaskiptareglum, er þeir sjálfir setja.

Í öðru lagi: Fullnægjandi tryggingar séu settar fyrir því að umsamið leigugjald fyrir togara greiðist skilvíslega og að ekki falli sjóveð á togara á leigutímanum. Ég skal ekki fullyrða, hvort slík útgerðarfélög yrðu stofnuð, þó að till. yrði samþ., en verði hún samþ., tel ég það bendingu til sjómanna um, að þeir geti gert þetta, ef þeir vilja taka útgerðina í sínar hendur. En mér þykir líklegt, að eins og nú er muni togarasjómenn skorta fé til skipakaupa, en gætu ef til vill tekið útgerðina í sínar hendur með þessu móti. Ég tel, að athugandi væri eftir þá reynslu, sem fengizt hefur af bæjarútgerð, hvort ekki kæmi til mála, að við hliðina á þeim rekstri, sem nú er, komi útgerð með þessu fyrirkomulagi. Ef till. þessi yrði samþ. og slík félög stofnuð, þá yrði síðar að taka til athugunar, með hvaða kjörum eigi að leigja skipin, og má einnig búast við, að sjá yrði ríkissjóði fyrir fé til að kaupa þessa togara og eiga áfram til viðbótar þeim lánum, sem frv. heimilar að taka. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, nema tilefni gefist, en vona, að mönnum sé þetta ljóst.