10.02.1950
Neðri deild: 44. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

11. mál, togarakaup ríkisins

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Það eru nú orðnar allmargar brtt., sem fram hafa komið við þetta frv., og stefna þær í ýmsar áttir. Ég verð að segja það um þær yfirleitt, að mér finnst á þessu stigi málsins ekki vera rétt að lögfesta neinar af þeim.

Síðan ákvörðun var tekin um það að láta byggja þessa togara, hafa töluverðar verðbreytingar átt sér stað, og má því búast við því, að skipin verði mun dýrari en í upphafi mátti ætla. Um eitt skeið bárust fjöldamargar umsóknir um þessa togara, þannig að umsóknir voru þrefalt fleiri en tala skipanna, en eftir er nú að sannprófa, hvort þeir menn og þeir aðilar, er þá sóttu um skipin, séu enn sama sinnis. Líka þarf að athuga útlit fyrir endanlegu verði skipanna og möguleikum ríkisstj. til þess að standa undir þessum framkvæmdum, að svo miklu leyti, sem það hefur ekki verið gert eða samþ. að gera. Allt gerir þetta það að verkum, að meðferð málsins verður að vera í höndum ríkisstj. og Alþingis á sínum tíma, og fyrir því tel ég ekki rétt að samþykkja þær brtt., sem fyrir liggja, að svo stöddu, því að farið gæti svo, að samþykkt þeirra kæmi í bága við nauðsynlegar ráðstafanir, sem Alþingi og ríkisstjórn þyrftu að gera á sínum tíma.

Að svo komnu máli ætla ég ekki að fara, að ræða hverja einstaka brtt., þær kunna að hafa og hafa sjálfsagt frá einhverju sjónarmiði eitthvað til síns ágætis og þá væntanlega einnig sína galla, en ég segi það um þær í heild, að það er ekki tímabært að fella þær inn í. frv. eins og það liggur fyrir.