20.02.1950
Neðri deild: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

11. mál, togarakaup ríkisins

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég innti eftir því síðast þegar þetta mál var hér til umr., hvort það lán, sem ríkissjóður hefur tekið vegna togarakaupanna, mundi ekki vera til lengri tíma en gert er ráð fyrir í brtt. 297 að lánið verði endurgreitt, en þar er gert ráð fyrir, að lánið verið endurgreitt á 15 árum. Ég lýsti líka yfir, að ég mundi fylgja þeirri till., þ.e.a.s. eftir að henni hefði verið breytt í samræmi við þær upplýsingar, sem fengjust um þennan lánstíma. Nú hafa mér borizt frá hæstv. fjmrh. upplýsingar um það, að lánstíminn sé 20 ár, eins og ég ætlaði, og vildi ég því leyfa mér að leggja fram skriflega brtt. við brtt. 297, sem fer í þá átt, að í stað 15 ár í 3. málslið till. komi 20 ár, og lánið verði veitt viðkomandi bæjarfélögum til sama tíma og ríkissjóður sjálfur fær lánið. Ég hygg, að þetta þurfi ekki að valda ágreiningi, því að um þetta hljóta allir að vera sammála, enda er þetta til leiðréttingar á till. 297, því að eftir því, sem ég skildi hv. flm., þá hefur hann ætlazt til, að þetta væri svo, þó hann hafi haldið, að lánstíminn væri 15 ár.