08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

11. mál, togarakaup ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í sambandi við ýmis ummæli, sem hér hafa fallið í umr. Ég hjó eftir því hjá hv. þm. Barð., að hann sagði eitthvað á þá leið, að enska lánið, sem samið hefur verið um og nemur um 1.250 þúsund sterlingspundum, mundi langt til nægja fyrir 75% af andvirði skipanna. Nú hefur verið fullyrt, að hver togari kosti um 8 milljónir króna, og skilst mér þá, að þessi útreikningur hv. þm. Barð. fái ekki staðizt og prósenttala sú, sem hann nefndi, of lág, enda mun verð togaranna hafa hækkað frá því, er samningarnir voru gerðir.

Hér er komin fram brtt. frá hæstv. fjmrh. um það að fella niður forgangsrétt bæjar- og sveitarfélaga að togurunum, og verð ég að segja það, að mig furðar á því, að þessi till. skuli fram komin, eins og nú er ástatt í landinu, hafandi það í fersku minni, að t.d. á Patreksfirði voru til skamms tíma tveir togarar, en nú er annar sokkinn, en hinn seldur, svo að fótunum hefur alveg verið kippt undan atvinnulífi bæjarbúa. Þá má minna á það, að frá Ísafirði hafa 4 stór skip verið flutt í burtu og bæjarbúar sviptir mikilli atvinnu. Forgangsákvæðin, sem voru í frv., voru einmitt miðuð við það að koma í veg fyrir þetta, að með einhliða ákvörðunum sé hægt að svipta bæjarfélögin atvinnutækjum og gera bæjarbúa atvinnulausa. Mig furðar því á brtt. hæstv. fjmrh., og er ég henni algerlega andvígur. Ég get og ekki annað séð, en að erfiðleikar bæjarfélaganna séu nægilega miklir, þó að forkaupsréttur þeirra sé ekki felldur niður. Hvað vextina snertir, þá virðist það óeðlilegt, að ríkissjóður taki á sig vaxtagreiðslur í þessu sambandi, en málið er ekki svo einfalt. Í gengislækkunarlögunum er sem sagt gert ráð fyrir því, að togararnir eigi að greiða framleiðslugjald, og með tilliti til þess verður að telja eðlilegt að liðka nokkuð til með vaxtagreiðslur þessara skipa. Ég mun því greiða atkv. með till. um, að þessir vextir lækki, og á móti till. hæstv. fjmrh.