22.11.1949
Neðri deild: 3. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

15. mál, Sementsverksmiðja

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að fara mörgum orðum um þetta frv., því að það mun vera flestum alþm. kunnugt. Ég vil þó geta þess, að er lögin um sementsverksmiðju voru samþ. á Alþ. 1948, þá lá fyrir bráðabirgðaathugun og þó allýtarleg, byggð á rannsókn á hráefnum til sementsframleiðslu, og kostnaðar- og rekstraráætlun fyrir sementsverksmiðju á Vestfjörðum, þar sem aðgengilegast þótti að afla nauðsynlegra hráefna. Ég taldi þá rétt, eftir að málið hafði verið afgreitt frá þinginu, að láta fara fram frekari athugun, og fékk til enskan sérfræðing, og kynnti hann sér málið, bæði þau gögn, er fyrir lágu, og eins staðsetningu og hráefni. Kom í ljós við þær athuganir, að allmikið skorti á, að málið væri svo undirbúið, að ráðlegt þætti að leggja þegar út í framkvæmdir. Og hvað kostnaðarhliðina snerti taldi hann, að hinn áætlaði 15 millj. kr. kostnaður yrði nær 20 milljónum, og tók hann þó ekki með í reikninginn innflutningstolla og kostnað vegna lóðakaupa fyrir verksmiðjuna. Til þess að ljúka þessari rannsókn að fullu skipaði atvmrn. sérstaka nefnd á s.l. vetri. Vann n. af kappi að þessum rannsóknum og skilaði áliti á s.l. vori. Er það mjög ýtarlegt og virðast niðurstöður n. hafa staðizt enn frekari athuganir, en þær hafa gengið í gegnum hendur firmans F.L. Smidth & Co. í Kaupmannahöfn og engu skeikað, svo að segja. N. tókst með því að gera ýtarlegar tilraunir að finna allmiklar sandbirgðir við Faxaflóa, sem ekki gefa eftir hráefnunum fyrir vestan, og einkum er sandurinn í flóanum skammt frá Akranesi kalkríkari en þar er, eða yfir 90%. Málið er nú þannig gerbreytt orðið, og vonir virðast nú fyrst standa til, að um framleiðslu á þessari vöru verðum við samkeppnisfærir við erlenda framleiðslu. Áætlaður framleiðslukostnaður á tonn er þannig 116 kr. nú á aðalsölustöðum í stað 179–182 kr. á tonn. eins og áður var reiknað með. Þetta munar geysilega miklu og gerir þann gæfumun, að varan verður samkeppnisfær. — Þá tókst n. og að finna þau hráefni, sem vantað hafði áður, þ.e.a.s. kísilsýrunámu, skammt frá Akranesi landi Litla-Sands. Úr þessum hráefnum hefur nú verið gert sement, og segir F.L. Smidth & Co. svo um það, að það sé „første klasse Portlandcement udelukkende af de forhändenværende materialer í Island“. Samkvæmt áætlun þessa firma yrði sementið svo ódýrt, að erlent sement gæti ekki keppt við það.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á þá eina breyt. á l., að helmild sé veitt til lántöku fyrir 30 millj. kr. í stað 15 millj. N. áætlar verksmiðjuna á Akranesi 26 millj., en sams konar verksmiðja á Vestfjörðum mundi kosta um 30–40 millj. kr. En frá því n. skilaði áliti, hefur orðið nokkur hækkun á efni, einkum vélum, vegna gengisfalls sterlingspundsins, þar sem efni í þær sumar þarf að fá frá dollarasvæðinu, og mun sú hækkun nema um 0,9%. Þá kemur líparítnámið til með að kosta um 0,7 millj. kr., eða útbúnaður við það. Stofnkostnaður vegna flutninga, sem gert er ráð fyrir, að fram fari, er áætlaður 0,6 millj. kr., en með því er reiknað, að um helmingur sementsins verði geymdur hér við sjó í Rvík og fluttur á lausum prömmum frá Akranesi og dælt úr þeim í geymslurnar. Þá bætist enn við kostnaðaráætlun n. kostnaður við uppsetningu straumbreyta og leiðslukerfis, um 0.4 millj. kr. Að þessu viðbættu hækkar áætlunin úr 26 millj. í 28,6 millj. kr., og enn eru líkur til, að hún kynni að hækka nokkuð. Er hér því farið fram á heimild til lántöku að upphæð 30 millj. kr. En það er nú ekki sopið kálið, þátt í ausuna sé komið. Eftir er að afla þess fjár, er til þarf, en mér skilst, að hér sé um svo arðvænlegt og heilbrigt fyrirtæki að ræða, að það ætti að takast að afla fjár og koma verksmiðjunni upp. Og engum blandast hugur um, að hún ætti að geta gert ómetanlegt gagn.

Ég vil að lokum geta þess, að eftir að rannsóknum þeim var lokið, er ég hef nú frá sagt, skipaði atvmrn. nefnd til að gera till. um staðsetningu, þá Jón E. Vestdal verkfræðing, Helga Þorsteinsson framkvæmdastjóra, Sigurð Símonarson múrarameistara og Einar Erlendsson arkitekt, og varð n. sammála um að leggja til, að verksmiðjunni yrði valinn staður á Akranesi.

Mun ég ekki lengja þetta mál frekar, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til iðnn.