13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

15. mál, Sementsverksmiðja

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa ræðu um þetta mál, því að það liggur ljóst fyrir. Hér er unz að ræða breyt. á hinum eldri l., sem er ekki önnur en sú að samræma ábyrgðarheimildina í l. því kostnaðarverði, sem við seinni tíma rannsóknir hefur verið komizt að niðurstöðu um, að nauðsyn krefði, og sömuleiðis vegna þeirra breyt., sem orðið hafa sökum gengisbreyt. í vetur. Þegar frv. var lagt fyrir Alþ. í vetur, þá var það sýnt, að hækka þyrfti ábyrgðarheimildina í 30 millj. kr. En breyt., sem hefur orðið við gengisbreyt., er sú, að nú þarf að hækka ábyrgðarheimildina upp í 46 millj. kr. Það er ýtarlegur útreikningur á þessu í bréfi frá sementsverksmiðjustjórninni, sem form. hennar sendi og prentað er hér með sem fskj., og tel ég ekki ástæðu til að fara út í það, því að það liggur fyrir hverjum hv. þm. til yfirlestrar og athugunar. En niðurstaða þess sýnir, að eins og nú standa sakir, er hér eftir niðurstöðum rannsókna um mjög gott fyrirtæki að ræða, bæði gjaldeyríslega og fjárhagslega séð, og er fyllsta nauðsyn á að hefjast handa um það eins fljótt og verða má að stofna til þessa stórrekstrar, sem hér er stefnt að. Og eftir rannsóknum, sem fram hafa farið, sýnir sig, að þó að það yrði að taka allt andvirði verksmiðjunnar að láni, þá mundi hún borga sig gjaldeyríslega upp á fjórum til fimm árum.

Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að hv. þd. fallist á þessa breyt. á lögunum.