15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

15. mál, Sementsverksmiðja

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það hefur náttúrlega enga þýðingu að vera að þrátta um þetta fram og til baka. Ég hef borið fram mínar aths. í upphafi míns máls, og þær hafa ekki verið hraktar af hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr. Það, sem kom mér sérstaklega til að standa upp, var það, sem hv. þm. sagði um þær hvatir, sem lægju til grundvallar fyrir brtt. minni, en þær hvatir eru allt aðrar en hann vill vera láta. Ég hef átt sæti í iðnn. og fylgzt með þessu máli í fleiri ár. Það er rétt, að málið hefur tekið mjög miklum breyt. síðan. Það hefur alltaf verið að breytast og meðal annars vegna þess, að það hafa komið fram nýjar upplýsingar svo að segja árlega, sem breytt hafa afstöðu manna til málsins. Og hvað því viðvikur, að nú sé svo vel í pottinn búið, að engra umbóta sé frekar þörf, þá vil ég leyfa mér að draga það í efa. Án þess að ég sé að draga úr gildi þess starfs, sem þeir menn, sem nú hafa haft með málið að gera, hafa innt af hendi, þá tel ég, að þeir menn séu vandfundnir, sem ekki megi bæta um störf hjá, og eins gæti verið í þessu tilfelli. Hv. þm. Borgf. lauk máli sínu með því að segja, að hann vildi eindregið mæla á móti því, að menn léku sér með svona stórt mál. Ég er honum alveg sammála um það. Fyrir mér er þetta ekki leikur, heldur vil ég fá úr því skorið, hvort til sé nokkur önnur lausn málsins en sú, sem nú hefur verið slegið fastri í bili, en hefur þó sætt harðri gagnrýni, og hvort ekki væri til einhver lagfæring á henni og hvort ekki yrði fundinn betri staður, en ákveðinn hefur verið í þessu skyni. Hv. þm. Borgf. minntist á Hafnarfjörð í þessu sambandi og taldi ástæðuna fyrir því, að ég hefði tekið málið upp, vera þá, að ég hefði orðið fyrir gagnrýni fyrir að sinna þessu máli ekki meira. Ég hef vissulega mikinn áhuga fyrir því, að Hafnarfjörður komi til álita í þessu máli, eins og við önnur mál, en ég hef ekki meiri áhuga fyrir því en það, að ég vil láta setja verksmiðjuna þar, sem haganlegast reynist að hafa hana, framleiðslukostnaðurinn getur orðið lægstur og flutningskostnaður minnstur, hráefnaöflun er bezt og framleiðslukostnaðurinn í heild getur verið hvað beztur. Það breytir engu í því máli, að ég hef þá skoðun, að ýmislegt af þeim ágætum, sem hv. þm. taldi upp vegna Akraness, eins og skeljasandsöflun og basaltsöflun, geti orðið eins hagkvæmt eða hagkvæmara annars staðar, en á Akranesi. Það er mín persónulega skoðun, en ég ætla ekki að fara út í það að ræða það hér, en vil eingöngu leggja á það áherzlu, að málið verði betur rannsakað.

Vegna umr. um fundarsókn verkfræðingafélagsins skal ég aðeins segja það, að við vitum allir, að það er ekki á hverjum degi, að allir félagsmenn mæti á fundum í félögum sínum, en það má teljast mjög sæmileg fundarsókn, að 25 mæti af 130 félagsmönnum, og þannig var það í þessu tilfelli. Bæði ég og aðrir, sem höfðu ekki tækifæri til að mæta þar, hefðu gjarnan viljað vera þar, og engin agitation fór fram í mín eyru. Við umr. í félaginu voru skoðanir manna æði skiptar, eins og fram kom við afgreiðslu málsins. Rúmur helmingur fundarmanna taldi, að þetta bæri að athuga betur, en tæplega helmingur taldi, að allt væri í því lagi, sem það þyrfti að vera, og vildi engu breyta. Ég veit, að í þessu félagi eru málin mjög sæmilega rædd málefnalega, og ég veit, að það hefur vakað fyrir mönnum þar að reyna að fá þá skynsamlegustu niðurstöðu, sem hægt var að fá frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Og ég verð að segja það, að það ætti nú, með hliðsjón af öllu því, sem hv. þm. Borgf. sérstaklega hefur talið hér upp um yfirburði Akraness í sambandi við sementsverksmiðjuna, ekki að valda honum óróa, þó að málið yrði tekið upp til nánari athugunar og einhver frekari samanburður yrði gerður, svo mikla kosti virðist Akranes hafa umfram aðra staði, að hans dómi. Ég hef sem sagt engu við þetta að bæta, og ég hef túlkað það, sem í brtt. felst. Það vakir einungis fyrir mér, að fram fari eins fullkomin athugun og hægt er, og ég tel næstum að segja óforsvaranlegt, að málið verði ekki athugað á ný, áður en endanlega verður frá því gengið, eftir þá gagnrýni, sem fram hefur komið frá aðilum, sem hafa kynnt sér málið.