15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

15. mál, Sementsverksmiðja

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. atvmrh. sagði, að ég óskaði eftir því, að þessi yfirlýsing yrði gefin. Skal ég í stuttu máli gera grein fyrir, hvers vegna. Eins og ég minntist á hér áðan, háði ég harða baráttu fyrir því, þegar lögin um sementsverksmiðju voru til meðferðar á Alþ. sem frv. og það samþ., að út úr frv. yrði tekin staðsetning verksmiðjunnar, og færði ég þá fyrir því þau rök, að ekki hefði farið fram nægileg rannsókn á því máli. Það varð til þess, að þessu atriði var haldið alveg opnu. Þáverandi atvmrh. lét síðan fara fram rannsókn málsins mjög gaumgæfilega. Og við þá rannsókn kom í ljós, að sá staður, sem talað hafði verið um og stóð eitt sinn til að setja verksmiðjuna á, var með tilliti til hráefnis þannig, að ekki þótti rétt að setja verksmiðjuna þar, og þessi staður var Önundarfjörður. Það hefði verið ákaflega mikið glapræði, ef verksmiðja þessi, sem nú er talið, að muni kosta um 46 millj. kr., hefði verið sett niður á stað, sem ekki væri hentugasti staðurinn til þess. Ef sementsverksmiðjan hefði verið eða væri sett niður í Önundarfirði, þá hefði þurft að flytja hráefni til hennar frá Faxaflóa eða Patreksfirði til Önundarfjarðar. — Nú er mér einnig kunnugt um, um þá rannsókn, sem fram hefur farið í þessu efni í sambandi við Faxaflóa, að menn eru ekki sammála um hana eða þann stað, sem helzt hefur verið talað um að hafa sementsverksmiðjuna á. Mér er ákaflega vel kunnugt um örðugleika, sem hljóta að vera því samfara að sækja hráefni til verksmiðjunnar niður á þrítugt dýpi í hvaða veðri sem er og jafnvel í beztu veðrum, og þá borun, sem á að gera hér í Faxaflóa, er ekki hægt að framkvæma einu sinni í því góðviðri, sem nú er, sem sýnir örðugleikana á hráefnisnámi í botni Flóans. Sannleikurinn er sá, að ýmsir staðir á landinu, svo sem Rangársandur og Landeyjasandur, hafa alls ekki verið rannsakaðir með tilliti til hráefnisöflunar til sementsverksmiðju. Það er fjöldi staða á landinu, þar sem engin rannsókn hefur farið fram um það, hvort þeir séu hæfilegri eða hentugri í þessu efni en þessi, þar sem helzt er fyrirhugað að sækja hráefnið út á djúpið. Rannsókn hefur farið fram á Patreksfirði, sem sýnir, að betri aðstaða er þar að ýmsu leyti um hráefnisvinnslu í þessu sambandi en annars staðar, og hjá Brjánslæk er lýst yfir af viðkomandi aðilum að sé langbezta hráefnið til þessa, sem rannsakað hefur verið hér á landi. Það er sagt um hráefnið í Patreksfirði, að ekki sé hægt að nota það vegna þess, að innsiglingin þar sé ekki nógu góð, en það er mælt af vanþekkingu. En ég mæli með hvorugum þessara staða. Hitt er óráðlegt, ef á að staðsetja verksmiðju slíka sem þessa, sem gert er ráð fyrir, að muni kosta 46 millj. kr., og ef reynslan sýnir svo, að það verður að flytja til hennar efni, sem er tekið langt burtu frá þeim stað, þar sem verksmiðjan er byggð. Og viðkomandi Akranesi hefur ekkert verið sett fram pósitívt annað, sem mæli með þeim stað fyrir sementsverksmiðju, heldur en það, að þar sé til nóg rafmagn.

Ég treysti hins vegar hæstv. atvmrh. til þess að sjá um, að staðsetning verksmiðjunnar verði ekki ákveðin á óheppilegum stað og ekki fyrr en rannsókn hefur farið fram, og í trausti þess skal ég falla frá því í kvöld, að málið fari til n. Ég veit, að það fylgir því svo mikil ábyrgð að staðsetja verksmiðjuna, að mér er óhætt að treysta hæstv. atvmrh. til þess, að hann láti ekkert annað sjónarmið ráða í því sambandi en það, sem verksmiðjurekstrinum verði fyrir beztu og árangrinum af byggingu verksmiðjunnar fyrir þjóðina.