15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

15. mál, Sementsverksmiðja

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hefur nú alltaf verið stórmál, lagasetningin um byggingu innlendrar sementsverksmiðju. En það er samt alltaf að stækka. Síðast var í lagasetningu gert ráð fyrir því, að mannvirki þetta mundi kosta um 15 millj. kr. Nú er talið, að það muni ekki kosta undir 46 millj. kr., og er sú breyt. ein af hinum blessunarríku áhrifum gengislækkunar krónunnar. Það byrjuðu fleiri frv., sem við fjölluðum um í dag, á svipuðum tölubreytingum. Við vorum áðan að tala um frv. um framkvæmdir í sambandi við raforkuvirkjun Laxár, og það hefst eitthvað á þessa leið: „Í stað allt að 22 millj. kr. komi: 38 millj. kr.“ Og skýringin á því er hin sama og á hækkuninni í sambandi við kostnað við að reisa sementsverksmiðju. Þetta er vegna áhrifa gengislækkunarlaganna.

Ég tek undir það, sem hv. þm. Barð. sagði hér áðan um hringlið með staðarákvörðun fyrir verksmiðjuna. Þegar við fjölluðum um þetta frv. á sínum tíma og frv. lá hér fyrir, þar sem m.a. var ákveðinn tiltekinn staður fyrir verksmiðjuna, þ.e. við Önundarfjörð, þá lágu fyrir með frv. umsagnir allmargra sérfræðinga, sem um málið höfðu fjallað í undirbúningi þess, og töldu þeir, að niðurstöður athugananna bentu til þess, að Flateyri við Önundarfjörð væri bezti staðurinn fyrir verksmiðjuna. Þá hafði farið fram rannsókn á skeljasandi við Brjánslæk og í Patreksfirði, en sérfræðingarnir töldu Önundarfjörð öruggari stað fyrir verksmiðjuna af ýmsum ástæðum, m.a. af því, að hafnarskilyrði væru þar betri. Svo er sú staðarákvörðun tekin úr frv. einnig hér í hv. Ed. og rannsóknunum haldið áfram, og þá komast sérfræðingarnir að þeirri niðurstöðu, að það séu betri skilyrði fyrir þessa verksmiðju á Akranesi. Þá höfðu fundizt leirlög þar, og komið með það í viðbót, að skeljasandur sé hér í botni Faxaflóa, og síðan er vísindalega komizt að þeirri niðurstöðu, að þá sé bezt, að verksmiðjan sé staðsett á Akranesi. En löngu eftir að þessi staðarákvörðun er gerð, er upplýst, að ekki sé búið að rannsaka, hve mikið magn sé af leir þarna á Akranesi. Og fyrst löngu eftir, að ákveðinn hefur verið þar staðurinn fyrir verksmiðjuna, er farið að kynna sér, hve mikið sandmagn sé þarna við Faxaflóa, og kemur þá í ljós, að þrátt fyrir stillur og góðviðri eins og nú er ekki hægt að framkvæma rannsókn á skeljasandsmagninu í Faxaflóa, nema endrum og eins. — Mér virðist þess vegna ekki vera hægt að neita því, að trúnaðarmenn hæstv. ríkisstj., fyrr og síðar, virðast hafa verið nokkuð fljótir til með að taka ákvarðanir um að ráðleggja ríkisstjórnum, hverri á fætur annarri, hvar beri að setja sementsverksmiðjuna niður, að lítt rannsökuðu máli, því að það hlýtur að vera mikils virði fyrir málið, hvort hráefni, sem vinna á úr og framleiðsla verksmiðjunnar byggist á, sé fyrir hendi í það miklu magni, að það tryggi fyrirtækinu nokkra framtíð. En staðurinn fyrir verksmiðjuna er nú ákveðinn í annað sinn, án þess að neitt liggi fyrir um það, hve mikið af skeljasandi er fyrir hendi og hve mikið af leir, sem þarf til þess að tryggja kísil fyrir verksmiðjuna, en þær rannsóknir eiga að fara fram eftir á, og umr. um þetta mál, sem mun kosta ekki undir 46 millj. kr., á svo að hespa af á síðustu stundum þingsins, án þess að málið eigi að fá að vera athugað í n. — Nú má e.t.v. segja, að það megi treysta ábyrgðartilfinningu þess hæstv. ráðh., sem á að fara með þetta mál, og kannske er ástæðulaust að vantreysta honum í því efni, allra helzt þar sem þess mun freistað að flytja verksmiðjuna til Reykjavíkur. (Atvmrh.: Því ekki til Keflavíkur?) Mér er sagt, að hjá sumum sé Hafnarfjörður í sigtinu með að fá verksmiðjuna þangað og e.t.v. Keflavík. Og hver veit, nema það finnist leir hér suður með sjó, áður en næsta þing kemur saman, og þá væri líklega talinn upplagður staður fyrir verksmiðjuna þarna við landshöfnina?

Þegar þm. er bent á að byggja á ábyrgðartilfinningu hæstv. ráðh., þá kemur mér í hug sú ábyrgðartilfinning, sem þessi hæstv. atvmrh. sýndi, þegar hann upp á eigið eindæmi gaf útflutningsleyfi fyrir fjórum skipum, sem voru verulegur hluti af þeim atvinnutækjum, sem Ísfirðingar byggðu lífsafkomu sína á. Þar fannst mér honum fatast með ábyrgðartilfinninguna, og ég hygg, að varlega beri að treysta ábyrgðartilfinningu þessa hæstv. ráðh., þannig að málið eigi ekki aftur að koma til kasta Alþ. Ég mundi því heldur vilja styðja þá till. hv. þm. Barð., að málið fari til n., (GJ: Ég geri það ekki að till. minni.) svo að hæstv. atvmrh. gæti borið sig saman við sína meðráðh. Og ef hv. þm. Barð. heldur ekki við ósk sína um nefnd, þá held ég, að það sé rétt, að ég beri fram ósk um, að málið fari til n. til athugunar. Ef störfum þessarar hv. d. verður ekki lokið í kvöld, sýnist mér, að hægt muni vera að afgr. málið í n., til þess að n. fái upplýst, hvort hæstv. atvmrh. treystir sér til að gefa þá yfirlýsingu, sem rætt var um hér áðan. Og ákvörðun hans mundi ég fulltreysta, ef hann, eftir að hafa athugað málið, gæti gefið nefnd eða hv. þd. yfirlýsingu um, að endanlega yrði ekki ákveðinn staður fyrir verksmiðjuna, fyrr en fullnaðarrannsókn væri lokið og Alþ. gefinn kostur á að taka endanlega ákvörðun um staðsetninguna. Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að setja verksmiðjuna niður eftir sjónarmiðum hreppapólitíkur, heldur eigi það að gerast eftir vandlegri rannsókn á því, hvar séu að öllu samanlögðu bezt framtíðarskilyrði fyrir fyrirtækið. Og ekkert annað sjónarmið á þar að ráða, því að annars væri verið að valda fyrirtækinu tjóni, sem alltaf mundi verða á kostnað alþjóðar. Og ég sé ekki heldur, hvað liggur á með það að ákveða endanlega stað fyrir verksmiðjuna, fyrr en öllum rannsóknum í sambandi við málið er lokið. Ef það t.d. kæmi í ljós við rannsókn á sandinum hér í Faxaflóa, að þetta væri ekki nema þunn skán, sem ekki væri byggjandi framtíð á fyrir verksmiðjuna. og e.t.v. væri það sama að segja um leirlögin á Akranesi, að þau væru kannske aðeins nokkurra ára forði, þá sé ég ekki annað en að burtu væri fallinn möguleikinn til að staðsetja verksmiðjuna þar og kannske líka við Faxaflóa, og þá sé e.t.v. betra að halda sig að sandlögunum á Vestfjörðum, sem eru þó á þurru landi, og yrði þá að sigla verksmiðjunni frá Faxaflóa aftur, ef búið væri að setja hana niður þar, en of seint væri séð, að hún væri þar óheppilega sett.

Ég skal ekki segja, hvort þær athugasemdir byggjast á rökum, sem margir sjómenn hafa hreyft, að það gæti orðið skaðlegt fyrir fiskaseiði og ungfiskinn á uppeldissvæðunum í Faxaflóa. ef farið væri með sandtöku að stofna til mikils umróts í sjávarbotninum þar. Slíkur sandur gæti setzt í tálkn fiskanna og drepið stofninn í stórum stíl og enn fremur gæti það rask, sem þarna yrði, eyðilagt hrygningarstöðvar; og ætti að leita um þetta atriði álits sérfræðinga ekki síður, en um önnur atriði þessa máls, því að illa borgar sig að eyðileggja hrygningarstöðvarnar í Faxaflóa. Staðsetningin verður svo að fara eftir því, hvort fyrir hendi er nægilegt magn af sandi og kísilríkum leir, en hvorugt þetta er fullrannsakað, og verður þeirri rannsókn sennilega ekki lokið fyrr en næsta Alþingi kemur saman, og ætti hæstv. ráðh. að geta fallizt á að gefa þá yfirlýsingu, sem hv. þm. Barð. fór fram á. Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að málinu verði vísað til hv. iðnn.