15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

15. mál, Sementsverksmiðja

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við fram komna till. leyfa mér að láta í ljós, að ég tel það sama og að drepa málið að vísa því til n. Ef það gengi til iðnn., þar sem ég er form., þá mundi verða leitað allra gagna og rannsókn þeirra tæki langan tíma. Ég hef kynnt mér öll gögn málsins, lesið hverja skýrslu og hvert plagg og meira að segja langa greinargerð á ensku, sem út kom s.l. sumar. Ég þykist því vera málinu allvel kunnugur, og ef vísa á málinu til n. með það fyrir augum, að hún afgreiði það í nótt, þá er sú afgreiðsla einskis virði, því að málið þarf mjög rækilega athugun. Þetta mál er nú í harðri deilu í Verkfræðingafélagi Íslands, og hefur þar verið ráðizt hart á dr. Vestdal og margar niðurstöður hans hraktar. Ég endurtek það, að ég ber ótakmarkað traust til hæstv. atvmrh., svo að mér dettur ekki í hug, að þegar hann hefur athugað málið og á að bera ábyrgð á því, geri hann annað, en hann telur að sé fyrir beztu, og get ég því fallizt á, að málið sé ekki stöðvað nú. En ef fyrir fram er búið að binda hendur hæstv. ráðh., t.d. með því að gera samning við Akranes um, að ríkið taki að sér stórfelldar hafnarframkvæmdir þar í sambandi við þetta mál, þá er ég á móti framgangi málsins, en ég trúi því ekki, að svo sé um hnútana búið. Ég vil í þessu sambandi benda hæstv. ríkisstj. og hv. d. á, að hér liggur fyrir skýrsla um kostnaðinn við dýpkunarskipið Gretti, og er hann nú um 3 millj. kr. á ári. Víst er, að Grettir er ekki nægilegur til að afla hráefnis í verksmiðjuna, en ef á nú að bæta þessum milljónum ofan á þann kostnað, sem yrði við það, að hráefnis væri aflað á föstu landi, þá er hér ekki um neinar smáfúlgur að ræða. Þar við bætist svo trygging á skipinu og prömmum þess, sem er um 60 þús. kr., og trygging á fólki 14 þús. kr. Drátturinn á skipinu er 135 þús. kr., svo að af þessu sést, hve gífurlegur kostnaðurinn verður, ef flytja á hráefnið frá sjó. Hann getur ekki orðið minni en 2–4 millj. kr. yfir árið. Þessi kostnaður er hjá dr. Vestdal áætlaður eftir dönskum tilboðum, sem eru byggð á því, að hægt sé að reka þetta sem áhald, en ekki sem far undir íslenzkum farmannalögum. Þess er t.d. krafizt, að á skipinu séu 14 menn, sem kosta á sjöunda hundrað þús. kr. á ári, og það verður engu skipi leyft að sækja sandinn út á fertugt dýpi, nema það sé undir sömu reglum. — Það má ekki bregðast, að bezti staðurinn sé valinn undir þessa verksmiðju, og ég treysti hæstv. atvmrh. til þess að láta frekari rannsókn fara fram um það atriði og binda ekki neitt strax. Því fell ég frá till. minni um n. og styð framgang málsins í trausti þess, að hæstv. atvmrh. geri það eitt í málinu, sem því, er fyrir beztu.