15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

163. mál, gengisskráning o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þegar sett eru jafnumfangsmikil l. og þau, sem hér er um að ræða, kemur oft fram við síðari athugun, að greinilegar þarf að kveða á um sum ákvæði. Það eru tvö atriði, sem ég ætla að bera fram brtt. við. Eru það að mestu framkvæmdaatriði og varða bæði 12. gr. Í 12. gr. er kveðið svo að orði, að til greiðslu á skattinum skuli heimilt að afhenda eignir með því matsverði, sem ákveðið er í l. Brtt. mín er um það, að heimilt skuli að afhenda fasteignir til greiðslu á skattinum. Upphaflega var gert ráð fyrir, að um fasteignir væri að ræða, en þegar þetta var athugað nánar, kom í ljós, að ekki var nógu skýrt kveðið á um þetta og erfitt gæti orðið fyrir ríkissjóð að taka við skuldabréfum og öðru slíku. — Hin brtt. er borin fram til þess að slá föstum þeim skilningi, að samvinnufélög og hlutafélög skuli greiða þann hluta af skatti, sem eigendum þeirra eða hluthöfum ber að greiða vegna eignar þeirra í félögunum, þar með talin hlutafjár- og stofnfjáreign. Eins og l. eru nú, þykir ekki alveg ljóst, hvort félögin eða eigendurnir sjálfir eiga að borga hlutafjár- og stofnfjáreign. Það var gengið út frá því, að svo væri, en svo að enginn vafi sé á þessu, er brtt. flutt. Ég leyfi mér að afhenda hæstv. forseta þessar skriflegu brtt.