15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

163. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að leggja fram eina skriflega brtt. við 1. gr. Hún er á þá lund, að 6. gr. l. orðist svo:

„Vísitala framfærslukostnaðar, sbr. 3. gr., skal reiknuð mánaðarlega, og skal mánaðarlega hækka laun og lækka í samræmi við breytingu vísitölunnar.“

Þegar gengislækkunarl. voru afgr. í vetur, flutti ég svipaða till. Nú er það vitað að allmargir þeirra, sem þá voru með l., höfðu ekki gert sér ljóst. hvaða afleiðingar þau mundu hafa, eða þær hafa orðið meiri, en þeir bjuggust við. Eitt er augljóst, verðhækkunin er þegar nú orðin svo mikil, að þegar við bætist minnkandi atvinna, hlýtur að skapast neyðarástand, ef launin hækka ekki nema með löngu millibili.

Meira að segja stj. sjálf gengur út frá þessu, eins og frv. um skattaívilnanir fyrir þá lægst launuðu ber með sér. Ég held því, að óhjákvæmilegt sé að leiðrétta þetta. Það er vitanlegt, að gamla vísitalan, sem sett er 100 samkvæmt l., er komin hátt á fimmta hundrað stig. Það verður nógu tilfinnanlegt, þó að ekki bætist við, að síðari hækkanir orki fyrst á launin eftir langan tíma. Verði ekkert gert í þessum efnum, er óhjákvæmilegt, að almenningur krefjist grunnkaupshækkana. Ef menn vilja taka tillit til staðreynda, er því nauðsynlegt að gera þessa breyt. Ég vona, að hv. þm. vilji alvarlega athuga þetta.