15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

163. mál, gengisskráning o.fl.

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Mér er þetta mál að ýmsu leyti skylt. Ég átti þátt í undirbúningi þess, og ég er líka form. í fjölmennum launþegasamtökum. Út af till. hv. 2. þm. Reykv. get ég lýst yfir því, að ég mundi vera mjög fús á að greiða henni atkv., ef ég teldi, að hún væri almenningi í hag. En ástæðan til þess, að ég geri það ekki, er sú, að ég dreg það í efa, að hagur launþega verði betri, þó að óendanlega verði greiddar fullar uppbætur. Ég tel, að það mundi hafa í för með sér svo hraðar verðhækkanir, að raunverulegur kaupmáttur launanna yrði ekki meiri. Þegar við dr. Benjamín Eiríksson athuguðum þessi mál, gerðum við lítils háttar athugun á þessu. Það var að vísu lausleg athugun og hefði verið æskilegt, að hún hefði getað orðið rækilegri. Niðurstaða okkar var sú — miðað við kringumstæður þá — að ef til almennrar launahækkunar kæmi, mundu launþegar taka 60% hver af öðrum, hitt yrði tekið af útgerðinni. En útgerðin er á heljarþröm, og hlutur hennar er miðaður við það minnsta, sem ætla mátti, að gagn yrði að til þess að bæta hag hennar. Hærri uppbætur á kostnað útgerðarinnar mundu því aðeins skapa þörf á nýrri gengislækkun og ekki hafa í för með sér varanlegar kjarabætur fyrir launþega. Hafi þetta verið rétt þá, ætti það að vera rétt nú, því að horfur eru á því, að verðlag úflutningsafurða verði lægra, en við miðuðum við.

Ég tel æskilegt, að þetta verði athugað nánar. Þegar frv. kom fram, beitti ég mér fyrir því, að skipuð yrði n. til þess að athuga, hvernig þessi löggjöf mundi koma við hag launafólks, og óskaði sérstaklega, að hún athugaði þetta atriði. Í nefndinni vorum við Jónas Haralz frá B.S.R.B. og Kristinn Gunnarsson frá Alþýðusambandinu. Ég veit, að álitsgerðin er í undirbúningi, en er ekki endanlega frá henni gengið enn. Fróðlegt verður að sjá hana. Ég hef fengið að sjá drög að henni, og í þeim er ekkert komið fram, sem gefur mér ástæðu til að breyta um skoðun. Auðvitað gæti vel komið eitthvað nýtt fram í þessu, og þá skyldi ég verða fyrstur manna til að breyta um skoðun, ef sannanir koma fram í gagnstæða átt. Að öðru leyti lýsi ég ánægju minni yfir því, að þetta frv. er fram komið. Það bar á góma að reyna að samræma kauphækkanirnar. Meiningin var, að grunnkaupshækkanir féllu niður, ef gengislækkun yrði. En ekki voru settar fram ákveðnar tillögur um það, hvernig ætti að hafa þær, svo að þær yrðu ekki misnotaðar. Ég taldi eðlilegast, að þetta mál yrði samningsatriði á milli launþegasamtakanna og ríkisstj., hver sem hún yrði.