11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

164. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gat ekki verið við til að mæla fyrir þessu frv., en ég vil segja örfá orð, þannig að hægt sé að koma því til n. nú strax.

Eins og þetta frv. ber með sér, þá er hér um að ræða að veita lækkun á tekjuskatti álögðum á árinu 1950 af hreinum tekjum, sem eru 20.000 kr. eða lægri. með þeim takmörkunum, sem um getur í 1. gr. Forsaga þessa máls er sú, að þegar til meðferðar var í vetur frv. um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl., sem þá varð að l., þá fóru fram ýtarlegar umr. milli ríkisstj. og Alþýðusambandsins um ýmis mál í sambandi við það, og því var lýst yfir undir meðferð þess frv. hér í þinginu, að ríkisstj. mundi taka til athugunar samkvæmt ósk, sem fram hefði komið frá stjórn Alþýðusambandsins, að lækka að einhverju leyti skatta á lægstu tekjum. Þetta frv. er borið fram samkvæmt þeirri athugun, sem þá var lofað að framkvæma. Eins og frv. ber með sér, er gert ráð fyrir, að skattur, sem ákveðinn er af þeim tekjum, sem þar um ræðir, lækki um 1/3. Samkvæmt þeim athugunum, sem fram hafa farið, mun þetta nema 21/2 millj. kr. Það þótti af ýmsum ástæðum ekki fært á þessu stigi að fara aðra leið, en þessa og þá m.a. vegna þess, að ef ætti að fara að breyta persónufrádrættinum nú, þá er það erfitt, vegna þess að víða er búið að ganga frá útreikningi skattsins, og valdi því ríkisstj. þá leið, sem hér hefur verið farin.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.