13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það var mitt hlutskipti á fyrra að leggja til, að l. yrði breytt í svipaða stefnu. Þegar l. voru sett um að skipta skattinum, þá var það gert í þeirri trú, að skatturinn, sem skilinn var eftir fyrir þjóðleikhúsið, nægði fyrir byggingarkostnaðinum. Þær upplýsingar, sem þetta var byggt á, hafa reynzt lítils virði, og valda því ýmsar ástæður, sumar minna afsakanlegar. Mér er nær að halda, að þm. hafi gengið út frá því, þegar l. voru sett, að fyrst yrði það tryggt, að nægilegt fé væri fyrir hendi til þess að ljúka við þjóðleikhússbygginguna. Þegar kostnaðurinn reyndist meiri, en áætlað hafði verið, var gripið til þess ráðs að fá þjóðleikhússjóði aftur nokkurn hluta af skattinum. Nú hefur enn komið í ljós, að kostnaðurinn verður meiri, en reiknað var með, og þarf því að hækka hundraðshluta þjóðleikhússjóðs. Þó að það sé ekki skemmtilegt að draga frá félagsheimilasjóði, verður ekki hjá því komizt, þar sem telja verður, að þjóðleikhúsið hafi hér fyrsta rétt.