13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hv. þm. A-Sk. minntist eitthvað á íþróttan., en hún getur, því miður, ekki orðið að miklu liði í þessum efnum. Ég vildi hins vegar taka undir það, sem hv. tveir síðustu ræðumenn hafa sagt, og það er ekki af neinni manngæzku við æskuna utan Reykjavíkur, heldur líka fyrir hönd æskunnar í Reykjavík. Ég held, að enginn geti lokað augunum fyrir nauðsyn þess að afla fjár til félagsheimila, svo að æskan úti á landi fái betri aðstöðu til félagslífs, en verið hefur. Hitt er annað mál, að þessa er nauðsyn fyrir þjóðleikhúsið, og er þá komið að efni þessa máls, sem ræða verður sérstaklega. Hæstv. viðskmrh. sagði, að þjóðleikhúsið væri svo illa á vegi statt fjárhagslega, að það yrði að bjóða það upp. (Viðskmrh.: Ég sagði, að hægt væri að bjóða það upp.) En það eru fleiri þannig á vegi staddir nú, að við liggur, að selt sé á uppboði. Mönnum þykja engin býsn, þó að framleiðslutæki, eins og Hæringur, séu auglýst á uppboði. Og þó er þar ekki annað en greiðslu frestað og eftirgjöf af hálfu þess opinbera, sem hefur forðað meiri hluta veiðiflotans frá uppboði. Þetta mættu menn vel hugleiða í þessu sambandi, og gat ég ekki stillt mig um að benda á slíkar staðreyndir. Hitt er annað mál, að úr því að leikhúsið hefur svo nýlega verið opnað, kemur ekki til mála að fara að auglýsa það, og mun ég koma í veg fyrir það eftir því, sem í valdi mínu stendur. En ég vildi vekja athygli hv. alþm. á því, hversu ástatt er í þjóðfélaginu. Það er margt annað, en þjóðleikhúsið, sem þörf er á að rétta hjálparhönd, og þá helzt í framleiðslustarfseminni, og þótt þarfir leikhússins séu miklar, þá er eigi minni þörfin fyrir félagsheimili úti um allt land. Þetta er þá í sambandi við það, sem ráðherra minntist á um uppboð á þjóðleikhúsinu, og getur verið, að það hafi verið eitthvað of sagt hjá mér.

Þá vil ég líka leiða athygli að fjárhagshliðinni. Við vorum nú að afgreiða fjárl. í gær, og það gekk furðu erfiðlega með sumar brtt., t.d. tvær, sem voru fluttar af mér. En nú vantar Guðlaug Rósinkranz nokkrar krónur. Hæstv. fjmrh. segir, að þær vanti, og þá á að vera „eðlilegt að hækka“. Þetta er nú svo og svo, að þegar búið er að afgreiða fjárl., þá séu hækkanir bara eðlilegar, ef peninga vantar einhvers staðar. Ég er ekki andstæður þessu máli. Mun ég greiða atkv. með því til n. og jafnvel lengra, en ég vildi eigi láta umr. líða svo, að eigi sé bent á þetta, annars vegar varðandi uppboðin og hins vegar varðandi hinar eðlilegu hækkanir.