13.05.1950
Neðri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég viðhafði ekki þau orð, að til stæði að bjóða Upp þjóðleikhúsið, heldur að þeir, sem kröfur eiga um fjárgreiðslu á hendur því, hafi rétt til að heimta, að leikhúsið sé boðið upp. Ég mæli því eigi bót, að verið er að bjóða upp aðra hluti, framleiðslutæki þjóðarinnar — síður en svo — og harma það mjög. Ég held, að sómi okkar muni ekki vaxa við það, að þjóðleikhúsið, sem búið er að vera að byggja í 20 ár og nýlega hefur verið opnað, kæmi í Lögbirtingi næstu vikur. Ég vanmet á engan hátt fjárþörfina fyrir félagsheimilasjóð og það hlutverk, sem félagsheimilin gegna í sveitum landsins, en þetta frv. er fram komið af brýnni þörf. Sé ég ekki aðra leið til bjargar, en þessa. Á ríkisstj. hvílir engin kvöð að greiða fyrir leikhúsið, og þar eð hæstv. fjmrh. bresta allar heimildir til að veita greiðslur fyrir leikhúsið, er eigi í annað hús að venda en leita til þeirrar stjórnar, er haft hefur byggingu þess með höndum. Ég afsaka ekki á nokkurn hátt útreikningana af þessari byggingu. Þeir hafa verið gerðir til að standast, en að líkindum hefur enginn þeirra staðizt. Það er fyllilega réttmætt af hv. þm. A-Sk. að ávíta þessa meðhöndlun á málinu, ef svo má segja. Ég skil þó ekki, að hægt sé að segja, hverjum mönnum sé hér um að kenna. En maður verður hálfhvumsa, þegar litið er á einn lið áætlunarinnar og hinn næsta og það sést, að þeir liðir hafa farið yfir 100% fram úr áætlun. M.ö.o.: Það, sem áætlað var, að þyrfti til að gera hið sérstaka verk, sem ákveðið var, varð tvöfalt hærra. Ég er sem sagt ekkert að afsaka þetta. En þetta mál verður að leysa, og sé ég eigi aðra leið en þessa.

Hv. þm. Borgf. sagði, að það væri verkefni ríkisstj. að leysa þennan vanda þjóðleikhússins. Má þá segja, að það sé alveg eins kvöð á ríkisstj. að leysa fjárþörf félagsheimilanna. En ég tel, að leikhúsið eigi forgangsrétt að skemmtanaskattinum. En þegar leikhúsið er fullgreitt, má deila um, hver eigi að koma næst, og mun ég ekki mótmæla því, að félagsheimilasjóður komi næst. Ég vil í sambandi við það benda á eitt atriði. Hér er eigi verið að taka allan styrkinn frá félagsheimilunum, en allar líkur benda til þess, að erfitt muni verða á næstunni að fá fjárfestingarleyfi til byggingar nýrra félagsheimila, svo að fjárþörfin til nýrra félagsheimila verður ekki brýn. Ég vænti þess, að hv. þingmenn, þótt þeir séu á mismunandi skoðunum um þetta mál, muni leggjast á eitt að leysa það á þann veg, að það verði okkur hvorki til tjóns né vansa.