16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Hv. þm. A-Sk. segir, að ef þetta frv. verði samþ., þá yrði það ekki síðasta orðið í málinu. Það mætti kannske segja honum um leið, að ef þetta frv. verður ekki samþ., þá verður það heldur ekki síðasta orðið málinu. Út af því, sem hann sagði um undirbúning málsins, þá sé ég ekki, að það skipti máli eins og sakir standa. Það er upplýst, hvernig fjárreiður leikhússins eru, og það er öllum ljóst, að þessar skuldir verður að inna af hendi, og ég hef áður lýst því yfir, að ég sé enga leið til þess að inna þessar skuldir af hendi nema á þennan hátt. Það getur vel verið, að hv. þm. sjái einhver ráð til þess að greiða þessar skuldir, en ég sé ekki, hvernig það á að verða. Hvað snertir byggingarnefndina, þá er hún enn þá við störf, enda eðlilegt, að hún haldi sínu, starfi, þangað til búið er að ganga frá byggingunni, eins og í upphafi var til ætlazt, og skila henni skuldlausri eða sjá fyrir því, hvernig skuldirnar ætti að greiða, enda skiptir það ekki miklu máli, hvort byggingarnefndin starfar, eins og nú er komið, að öðru leyti en því, að mér skilst, að hv. þm. sé hræddur um, að ef hún starfi áfram, þá verði haldið áfram að byggja þjóðleikhúsið. Ég hygg, að þetta sé ástæðulaus ótti, því að húsinu er að öllu leyti að verða lokið. Það kann að vera eitthvað smávegis eftir, ég hef heyrt, að það væri eftir að ljúka við raflögn, en það mun ekki heldur vera annað, sem um er að ræða. Skemmtanaskattur sá , sem hér er verið að deila um, kemur 90% frá Reykjavík. Frá Reykjavík kemur 2,4 millj. króna skemmtanaskattskattsins, en allur mun skemmtanaskatturinn vera 2,6–2,8 millj. króna. Af þessum 2,4 millj. króna borga kvikmyndahúsin í Reykjavík nærri 11/2 millj. króna. Það lítur svo út, að Reykjavík sé að deila hér um þessi fjármál, en ef slík deila stendur milli Reykjavíkur og sveitanna, þá sýnist ekki ósanngjarnt, að Reykjavík fengi ríflegan skerf af þessum skatti til þjóðleikhússins, sem upphaflega er ætlaður til þess að ljúka byggingu þjóðleikhússins. Hins vegar er þjóðleikhúsið ekki byggt fyrir Reykjavík, það er byggt fyrir allt landið. Ég hef hugsað mér vegna þeirra undirtekta, sem málið hefur fengið, að koma með miðlunartill. í málinu. Ég álít það í rauninni þrautalendingu að koma með till. um að hækka skemmtanaskattinn. En ég sé ekki, að það sé um neitt annað að velja en að koma með till. í þá átt og að lækka þá till., sem gerð var um að taka af félagsheimilasjóði, um 10%, þannig að í stað 45% til þjóðleikhússins komi 35% og að hlutur félagsheimilasjóðs hækki sem því svarar og að heimild sé gefin til þess að hækka megi skemmtanaskattinn um 10%. Ég tel til lítils gagns, þó að þessi 10% fengjust frá félagsheimilasjóði, ef ekkert kemur í viðbót, og þess vegna er farið inn á þessa leið, að gera till. um að hækka skemmtanaskattinn. Hins vegar vil ég benda á það, að skemmtanaskatturinn í heild er í talsverðri hættu. Þeir aðilar, sem gefið hafa mestan skatt hér í bænum, kvikmyndahúsin, þau eru. þannig sett nú, að stærstu kvikmyndahúsin hafa 2–3 myndir í fórum sínum, sem þau geta sýnt enn þá. Það er gert ráð fyrir því, að kvikmyndahúsin hér í Reykjavík verði að loka einhvern tíma yfir sumarið. Ef að því kæmi, að kvikmyndahúsin yrðu að loka, þá er sýnilegt, að það mundi höggva stórt skarð í þær tekjur, sem eiga að renna í þennan sjóð. Mér finnst æði hart aðgöngu að þurfa að hækka skemmtanaskattinn á Reykvíkingum til þess að þjóðleikhúsið geti fengið þann skerf af skemmtanaskattinum, sem það í rauninni á siðferðislega heimtingu á. En ég segi, hækkun skemmtanaskattsins er hækkun á skemmtanaskattinum í Reykjavík, þar sem Reykjavík stendur undir 90% af skattinum. Ég leyfi mér svo að leggja fram þessa till. til hæstv. forseta með beiðni um, að fyrir henni verði leitað afbrigða.