16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Hv. 2. þm. Rang. sagði, að það væru lítil rök fyrir þessu máli að benda á, að skemmtanaskatturinn gæti brostið. Það er nú svo. Hv. þm. gaf upplýsingar, sem mér eru kunnar, en ég hef ekki viljað draga inn í málið, það er um fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir félagsheimilasjóðanna eða þeirra byggingarfélaga, sem þeir eiga að standa undir. Ég sé ekki betur, en að með þessum 20 millj. kr., sem hér er fyrirhugað að byggja félagsheimili fyrir í landinu á næstu 2 árum, sé stefnt út í sömu ófærur. eins og skólabyggingar landsins hafa stefnt út í undanfarin ár. Og það er stundum þannig, að sveitirnar hafa verið narraðar til þess að byggja sem félagsheimili stórhýsi, með því fjárloforði, að ríkissjóður mundi greiða 3/4 hluta andvirðis húsanna. En svo er bara komið að því, að sveitirnar eru búnar að stofna til skulda svo hundruðum þús. og millj. kr. skiptir upp á þessi loforð. Og árangurinn er sá, að við lok þessa árs skuldar ríkissjóður sveitunum og héruðunum vegna þessa líklega um 20 millj. kr., sem er á fjárl. gert ráð fyrir að greiða aðeins örlítið brot af. Ég bendi á, hvaða þýðingu það getur haft að gera svona ráðstafanir, eins og gert hefur verið þarna. Og það er alveg það sama, sem gera á með framkvæmdum, sem félagsheimilasjóður á að styrkja. Jafnvel viðvíkjandi þessum 6 millj. kr., sem á að byggja fyrir á þessu ári, er engin von til, að fé frá félagsheimilasjóði geti staðið undir þeim framkvæmdum. Og er þá furða, þó bent sé hér á, að það geti einnig haft alvarlegar afleiðingar fyrir félagsheimilasjóð, ef skemmtanaskatturinn brestur, þegar búið er að háspenna þessar fyrirætlanir eins og hér er gert, hvað þá ef farið er út í það á næstu árum hér á eftir að byggja félagsheimili fyrir 14 millj. kr. úr félagsheimilasjóði? Hvernig hugsar hv. þm. sér, að skemmtanaskatturinn, jafnvel þó hann ekki bresti, eigi að standa undir þessum 14 millj. kr. framlögum? Og hvernig á þá að láta héruðin og sveitirnar standa undir sínum hluta, sem þeim vafalaust gengur fullerfitt að fá, þó þau fengju það tillag, sem þau gera ráð fyrir að fá frá félagsheimilasjóði, sem hlýtur að bresta? Það sýnist því ekki vera neitt óskynsamlegt, að með þessar fyrirætlanir félagsheimilasjóðs væri farið hægar, en gert er ráð fyrir af þeim góðu, bjartsýnu mönnum, sem ég er ekki að amast við út af fyrir sig, sem hafa mikinn áhuga á að reisa félagsheimili. En menn verða bara að kunna fótum sínum forráð, svo í þessu sem öðrum efnum. — Það má segja, að það gangi ekki betur að sjá þessum félagsheimilum borgið með því að taka af skemmtanaskattinum til annars. Það er rétt. En þessu verður ekki heldur borgið með því að láta það haldast, að hann renni til félagsheimilasjóðs. Og er þá ekki skynsamlegra að fara svolítið hægar í þessi mál og reyna að koma húsunum af, sem byrjað er á, en ekki láta þau standa hálfgerð úti um byggðirnar? Og ég fullyrði, að þær áætlanir, sem hér hefur verið lýst viðkomandi byggingu félagsheimila, þær fá ekki staðizt, og það ekki, þó að félagsheimilasjóður fengi þar sinn fulla skerf, eins og hefur verið ákveðið í lögum.