16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er aðallega vegna þess, að ég veit ekki, hvort ég á þess kost að vera við atkvgr., sem ég vildi þó vera staðinn að því að hafa verið — ja, með eða móti þessu voldugasta máli þingsins — ef ekki veraldarinnar — sem hér eru umr. um, félagsheimilunum. Hér er komið upp hitamál, sem menn kappræða um.

Þetta frv., sem liggur hér fyrir, er viðleitni ríkisstj. til að losa þjóðleikhúsið úr hengingarskuldum. Og það hefur verið álítið, að ef þessi lagabreyt. næði fram að ganga, mundi lánast að finna bráðabirgðalausn til þess að hjálpa þjóðleikhúsinu til að greiða verstu óreiðuskuldirnar, sem á því hvíla. Hitt vita allir hv. alþm., að ef einhver skaðast við þessar ráðstafanir í ár, þá verður það baggi á ríkissjóði, og félagsheimilin fá sitt aftur. Félagsheimilin eiga svo miklu fylgi að fagna á Alþ. og eru það mikið nauðsynjamál og eiga svo miklum skilningi að fagna, að þau þurfa aldrei að hlíta því, að það verði níðzt á þeim, ef nokkur annar kostur er fyrir hendi. Hv. þm. vita þetta. Og þess vegna skil ég ekki, hvers vegna svona mál getur orðið að hitamáli. Mér vitanlega vakir ekkert fyrir ríkisstj. annað en að skapa sér úrræði til þess að ná í peninga til bráðabirgða í þessari aðkallandi nauðsyn. Það má deila um það, enda þótt ég ætli að láta það liggja á milli hluta, hvort bar fyrr að taka og framkvæma, félagsheimilabyggingar eða byggingu leikhússins. En hitt er það, að það er þjóðarskömm við opnun þjóðleikhússins, að yfir því skuli hvíla skuggi meira en þriggja millj. kr. óreiðuskulda. Og það er vitað mál — og það vita þeir spekingar, sem sitja í fjhn., eins og minn kæri sessunautur, hv. 2 þm. Rang., að ríkið á ekki margra góðra kosta völ um að fá fé í þessu skyni. Ég er kjördæmisþm., eins og hann, og menn hafa verið gerðir út á minn fund vegna þessara mála, eins og hans. Og ég þykist þjóna hagsmunum minna umbjóðenda, eins og hann sinna umbjóðenda, þó ég vilji skafa þann smánarblett af Alþ. að gera ekki einhverjar ráðstafanir til þess að þjóðleikhúsið verði ekki selt á uppboði. Og ég vil, að þessir spekingar, eins og hv. 2. þm. Rang. — sem komið hefur í þjóðleikhúsið og vafalaust skemmt sér þar vel, eins og ég — ég vil, að þeir sjái þá einhverja leið til þess að borga þetta, sem á leikhúsinu hvílir, þessar hengingarskuldir, sem yfir þjóðleikhúsinu vofa. Og við sjáum ekki annan kost til þess að skera snöruna af hálsi okkar metnaðar í þessu efni, en að fá þetta frv. samþ. En ef aðrir benda á leiðir skynsamlegri til þess, mun ég verða manna fúsastur — þegar þau, ráð eru fyrir hendi — til að hverfa frá þessu neyðarúrræði, sem hér í frv. er um að ræða. En ef það er staðreynd, að þjóðleikhúsið skuldi þetta — og það er staðreynd — og ef einstakir menn þessa þjóðfélags geta gengið að þessari eign, þjóðleikhúsinu, og heimtað það boðið upp vegna skulda, sem á því hvíla, þá er það þriðja einnig staðreynd, að okkur ber að hindra þetta. Og það hvílir á ykkur, þeim hv. vinum mínum og samfl.-mönnum og samherjum, bæði í Sjálfstfl. og líka mínum ágæta samstarfsflokki, Framsfl. — Það hvílir á ykkur að benda á leið í þessum efnum, ef þið viljið ekki fylgja þessari leið, sem hér er fram sett.

Ég hef ekki meira að segja um þetta í bili, en harma það, ef ég get ekki verið viðstaddur atkvgr. og því ekki með atkv. mínu, staðið við þessa sannfæringu mína.