16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil benda á það að gefnu tilefni og til að forðast misskilning, að 10% hækkun á skemmtanaskattinum kemur til með að nema frá 5 og upp í 15 ára hækkun á aðgöngumiðum.

Að því er snertir brtt. 2. þm. Reykv., þá held ég, að sú till. bæti litið úr í þessu máli. Það hefur áður verið viðkvæðið hjá þessum hv. þm.. ef fé hefur vantað, að ekkert væri annað en sækja það í Landsbankann, en það mætti þá, ef til vill líka segja, að það væri ekkert annað, en sækja féð í S.Í.S. Ég vil benda á í sambandi við þessi ummæli um Landsbankann og þann mikla gróða, sem þar á að safnast, að bankinn hefur ekki afskrifað útistandandi; vexti og skuldir, sem þó eru jafnvel mjög vafasamar og jafnvel sumt fyrirsjáanlega tapað. Hins vegar mun það venja erlendis, að bankar afskrifa vafasamar skuldir. Þetta breytir bókfærðum rekstrarafgangi bankanna auðvitað mjög mikið. Hefði Landsbankinn fylgt þessari reglu, minnkaði stórum sá gróði bankans, sem nú kemur fram á pappírnum. Eins og allir vita, er sjávarútvegurinn áhættusamur og hefur gefið þá raun nú undanfarið, að þeir, sem við hann fást, hafa ekki alltaf getað staðið í skilum. Nú er mjög mikið af fé Landsbankans í slíkum óvissum lánum, og er því raunverulega ekki hægt að segja neitt með vissu um rekstrarafgang bankans fyrr en vitað er, hvernig næstu síldarvertíð reiðir af.