16.05.1950
Neðri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Það hefur mikið verið rætt og ritað um það átak, sem þjóðin hafi gert með því að reisa þjóðleikhúsið og varla verið nokkur orð nógu stór til að lýsa því þjóðþrifafyrirtæki. En nú, nokkrum dögum síðar, er Alþingi að gera þetta merka menningarsetur nær óstarfhæft vegna skulda. sem á því hvíla og ekki þola bið. — Ég ætla fyrst að víkja nokkrum orðum að 2. þm. Rang. í sambandi við þetta mál. Þessi hv. þm. var að tala um þann órétt, sem fælist í því að taka nú skemmtanaskattinn af félagsheimilunum til að ljúka skuldum þjóðleikhússins. Það getur vel verið, að þeir, sem að félagsheimilunum standa, telji sig með þessu beitta órétti, því að það er alltaf svo, að sá, sem hefur fengið einhvern rétt, telur það ranglæti að vera sviptur honum. Hins vegar er þessi afstaða hv. 2. þm. Rang. ekki í fullu samræmi við afstöðu hans til búnaðarmálasjóðs forðum. Þá var það réttlætissjónarmiðið, að þeir, sem mest hefðu lagt í þann sjóð, ættu að fá mest úr honum, alveg burt séð frá þörfinni. Nú er það upplýst, að um 90% af skemmtanaskattinum er innheimt af Reykvíkingum, og ætti því eftir búnaðarmálasjóðskenningunni sú upphæð að falla til Reykjavíkur aftur, og sannarlega veitti mörgum félagasamtökum hér í Reykjavík ekki af aðstoð til að reisa yfir sig þak. Skemmtanaskatturinn hefur haft þær afleiðingar fyrir hin ýmsu félög í bænum, að þau hafa ekki getað byggt yfir sig, enda var ágóði af skemmtunum næstum einu tekjurnar, sem þessi félög höfðu til umráða. Oft hefur þessi skattur komið mjög hart niður, eins og t.d. í sambandi við jólatrésskemmtanir verkalýðsfélaganna, sem ekki hafa einu sinni verið skattfrjálsar. En þetta hefur verið látið óátalið af Reykvíkingum, af því að þeir vildu leggja mikið fram til þess að eignast þjóðleikhús. Nú er þetta mikla menningartæki fullbúið, en á við erfiðleika að glíma vegna skulda, sem á því hvíla. Það verður að leysa úr þessum vanda, svo að leikhúsið geti starfað óhindrað að sínu mikla menningarhlutverki, að færa orðsins list í lifandi búning, og við getum haldið áfram að sjá persónur Fjalla-Eyvindar og Íslandsklukkunnar ljóslifandi á leiksviðinu. Og til þess að leysa þennan vanda tel ég sjálfsagt að nota skemmtanaskattinn, enda var hann upphaflega lagður á með það fyrir augum, þó að lögunum um hann væri síðar breytt, og það vegna þess, að rangar upplýsingar lágu fyrir um kostnaðinn við þjóðleikhúsið.