17.05.1950
Efri deild: 113. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

165. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og tekið var fram í því frv., sem lagt var fyrir hv. Nd., er talið, að skuldir þjóðleikhússins séu nú milli 9 og 10 millj. kr. Af þessu er búið að ráðstafa með lánum um 6 millj. kr., lánum, sem hafa fengizt með því að veðsetja þær tekjur, sem byggingarsjóður leikhússins fær af þeim 25% af skemmtanaskattinum, sem samkv. núgildandi l. renna til hans. Það, sem nú er mest aðkallandi, er aðallega byggingarkostnaðurinn, skuldir vegna byggingarvinnu og efnis, og það er talið, að þær skuldir, sem nú hvíla á leikhúsinu, muni nema 3,3 millj. kr., og mér er sagt, — ég skal taka það fram, að ég ber enga ábyrgð á því, — að þá muni öll kurl vera komin til grafar að því er snertir endanlegan byggingarkostnað þjóðleikhússins. Af þessum 3,3 millj. kr. munu 2 millj. kr. vera skuldir við þá, sem hafa unnið nú undanfarna mánuði við leikhúsið, og eru það bæði vinnu- og efnisskuldir. Skuldir hjá einstökum firmum nema hundruðum þúsunda og hjá einstökum verktökum tugum þúsunda. Fyrir utan þann vansa, sem af því leiðir að geta ekki greitt þessar skuldir, þá er ekki hægt að líta fram hjá því, að margir af þessum verktökum, sem eiga stórfé hjá þjóðleikhúsinu, eru komnir í mjög mikil vandræði vegna vanskila þess, og þau vanskil geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir þá menn, sem hér eiga hlut að máli. Þeir hafa sýnt talsvert mikið Langlundargeð í þessu máli og sérstaklega vegna þess, að þeir hafa staðið í þeirri trú, að gerðar yrðu einhverjar ráðstafanir til þess að greiða úr fjárhagsörðugleikunum áður en þingi yrði slitið. Stj. hefur gert athuganir á ýmsum liðum til þess að afla fjár til að greiða þetta, en hún hefur ekki getað fundið neinar leiðir, sem gætu greitt úr þessu, aðrar en þær, sem hún hefur lagt til að farnar verði. Hún væntir þess, ef hún fær þær heimildir, sem hér er lagt til að fá, þá muni hún geta fengið nóg fé til að greiða þessar aðkallandi vinnuskuldir, sem nú hvíla á húsinu — og hvíla kannske enn þyngra á þeim verktökum, sem kröfur eiga á þjóðleikhúsið.

Brynjólfur Bjarnason: Herra forseti. Mér þykir það undarlegt, að ekki skuli verða meiri umr. um þetta mál. Það hefur nú verið samþ. í hv. Nd. frv. um breyt. á l. um skemmtanaskatt og þjóðleikhúsið, sem felur það í sér að gefa ríkisstj. heimild til að innheimta skemmtanaskattinn með 10% álagi, til þess að greiða þessar áhvílandi skuldir þjóðleikhússins. Það hefur nú þótt ærið furðulegt, að þessir bakreikningar skuli nú koma, þar sem gert var ráð fyrir því, þegar l. var breytt, að þjóðleikhúsið hefði þegar fengið það, sem nauðsynlegt væri til byggingarinnar. Svo kom það í ljós á síðasta þingi, að enn vantaði 4 millj. kr., en þá var fullyrt, að það mundi nægja. Nú gefur hæstv. menntmrh. þær upplýsingar, að enn þá vanti mikið fé, 10 millj. kr., að mér skilst. (Viðskmrh.: Skuldin er það, en það er búíð að útvega 6 millj. kr.) Og vantar þá 3 til 4 millj. kr. Þetta er náttúrlega alveg furðulegt og eins það, hvernig ýmislegt hefur verið í sambandi við byggingu hússins. Ég er algerlega andvígur því, að sú leið sé farin til að greiða skuldirnar að hækka skemmtanaskattinn. Þetta er nú síðasta till. um nýjar álögur á almenning, sem fram hefur komið á þessu þingi, sem nú er að ljúka, en það hefur lagt meiri skatta á þjóðina, en nokkurt annað þing, svo að um met mun vera að ræða í sögu Alþ. En þingi lýkur nú með því, að enn á að leggja á 10% skemmtanaskatt, og langmestan hluta hans eiga Reykvíkingar að greiða. En mikill hluti skattsins á svo að renna til félagsheimila í sveitum. Ég er algerlega andvígur þessu og tel, að einhver önnur ráð þurfi að finna. Þar sem nú er komið að þingslitum, þykir mér líklegt, að það verði ekki gert nú á þessu þingi, en það verður að gerast á næsta þingi. Ég get bent á ótal margt, sem frekar ætti að gripa til en þetta. En þar sem það er algerlega ósamrýmanlegt þessu frv., þá mun ég einnig greiða atkv. á móti brtt. frá hæstv. menntmrh. Hann hefur, að mér er tjáð, sjálfur lýst því yfir, að skatturinn verði ekki innheimtur nema því aðeins, að brtt. hans verði samþ. Það eru vitaskuld ekki nema skrípalæti að samþ. frv., ef álagið verður ekki tekið hvort sem er, og þar sem ég er á móti frv. og vil, að það verði fellt, þá mun ég einnig greiða atkv. móti brtt. hæstv. ráðh.