20.12.1949
Sameinað þing: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

Þinghlé

forseti (StgrSt):

Hv. alþingismenn. Utanbæjarþingmenn hafa mjög eindregið óskað eftir því við forseta, að hlé verði á fundum Alþingis um jólin, eins og venja hefur verið. Forsetar sneru sér til hæstv. forsrh. og tjáðu honum, að þeir hefðu löngun til þess að verða við þessum óskum, ef ríkisstj. teldi ekki þörf vera á, að þingið héldi áfram störfum yfir hátíðirnar. Ríkisstj. kvaðst fyrir sitt leyti ekki óska eftir því, að fundir yrðu haldnir í Alþingi milli jóla og nýárs, þar sem hún gerði ekki ráð fyrir, að tillögur í aðkallandi vandamálum yrðu tilbúnar til þess að leggjast fyrir Alþingi fyrr, en upp úr áramótum. Þess vegna er ákveðið. að þinghlé, sem væntanlega verður gefið, er lokið er störfum í deildum Alþingis í kvöld eða nótt, verði til 4. jan. 1950.

Næsti fundur verður haldinn miðvikudaginn 4. jan. 1950, en verður að öðru leyti boðaður með dagskrá.

Ég vil leyfa mér að óska hv. utanbæjarþingmönnum, sem nú halda heim til átthaga sinna og ástmenna, góðrar heimfarar og góðrar heimkomu. — Alþingismönnum öllum óska ég gleðilegra jóla og nýárs. Þá vil ég óska þess og vona, að við hittumst öll heil til starfa, þegar fundir hefjast hér á nýju ári.