12.12.1949
Efri deild: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

27. mál, bæjarstjórn í Húsavík

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka heilbr.- og félmn. fyrir meðferð hennar á frv. og sömuleiðis hv. frsm. fyrir greinargóða framsögu og einnig sérstaklega fyrir vinsamleg orð, sem hann lét falla í garð Húsavíkur.

Þegar ég samdi frv., taldi ég rétt að miða við það, að það gæti náð samþykki og orðið að lögum fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar, sem ætlunin er að fari fram í næsta mánuði. —Þegar ég athugaði þá löggjöf, sem ég hlaut að sníða þetta frv. eftir, þá verð ég að segja, að mér fannst hún ekki eins góð og ég hefði talið æskilegt, en ég vildi þó ekki breyta þar miklu, ef það kynni að verða til tafar málinu. Mér virtust sum ákvæði laganna úrelt orðin, svo sem þau, að bæjarstjórn skuli skylduð til að sækja um það til ráðuneytis, ef hún ætlar t.d. að eyða innstæðu, ganga í ábyrgð eða selja eða kaupa fasteign, án tillits til, hvort um stórt eða smátt er að ræða. En ég tók þessi ákvæði óbreytt upp í frumvarpið, af því að ég vildi ekki stofna til tafa í afgreiðslu, og þar sem ég veit, að þeim hefur alls ekki verið beitt samkvæmt bókstafnum, heldur anda, þá treysti ég því, að hefðin gildi í framkvæmdinni gagnvart Húsavík sem öðrum stöðum og hinn óeðlilega strangi bókstafur komi ekki að sök. Hitt væri þó að sjálfsögðu rétt, að Alþingi tæki bæjarstjórnarlöggjöfina í landinu hið fyrsta til gagngerrar endurskoðunar, og heldi ég þá heppilegt, að ein lög væru látin gilda fyrir alla kaupstaði, er heimiluðu félmrn. að veita kauptúnahreppum, sem það þætti henta, leyfi til að taka sér bæjarréttindi án sérlagasetningar í hvert sinn.

Við brtt. þær, sem n. leggur fram við frv. og hv. frsm. lýsti, hef ég ekkert verulegt að athuga. Ég tel þær ekki nauðsynlegar, en þó alls ekki til hins verra, og get því vel fallizt á þær og greitt þeim atkv.