15.12.1949
Neðri deild: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

41. mál, skipun læknishéraða

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál, en ég vildi aðeins benda á, að fyrir nokkrum árum var mikið rætt á Alþ. um þessi mál, og þá varð sú skoðun ofan á, að heppilegra væri að hafa aðra skipan en hér er gert ráð fyrir, sem sé að hafa héruðin stærri og tvo lækna í héraði, eins og nú er í Egilsstaðahéraði. Ég tel þá skipan að ýmsu. leyti heppilegri. Þá var gert ráð fyrir því, að um leið og læknarnir yrðu tveir, væri séð um að koma upp sjúkrahúsi, sem auðveldara yrði að starfrækja með tveimur læknum, en það er nær ókleift með einum. En ég sé, að það er einhliða vilji héraðsbúa, að horfið verði að þessu ráði, og landlæknir er því meðmæltur, eftir því sem fram kemur hjá n. — Ég vildi bara benda á þá skoðun, sem fyrir nokkrum árum var ríkjandi í þessum efnum, og ég held, að hún sé heppilegri. Ég er viss um, að áður en langt líður kemur sjúkrahús við Selfoss og þá verða þar sjálfsagt tveir læknar. Ég efast um, að þá þurfi bæði lækni á Eyrarbakka og í Hveragerði. Það er vitað, að erfiðara er að fá menn í fámenn héruð. Ég veit þó, að Hveragerði verður ekki læknislaust, því að það er svo nærri Reykjavík, en á þeim stöðum er hægast að fá lækna. Ég vildi aðeins benda á þetta, án þess að hafa áhrif á gang málsins að þessu sinni.