16.12.1949
Efri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

41. mál, skipun læknishéraða

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú legið fyrir í Nd. og náð samþykki þar, en það er um skiptingu Selfosslæknishéraðs í tvö héruð — Selfosslæknishérað og Hveragerðislæknishérað. Áður náði Eyrarbakkalæknishérað yfir þau tvö læknishéruð, sem nú er gert ráð fyrir, að skipt verði í þrennt. Þegar Selfoss varð fjölmennara þorp en Eyrarbakki, komu upp raddir um, að lækni þyrfti að fá að Selfossi, og var þá Eyrarbakkahéraði skipt í tvennt, í öðru læknishéraðinu voru. Eyrarbakki og Stokkseyri, en í hinu átta hreppar og læknissetur á Selfossi. Nú hefur orðið sú þróun, að fólksfjöldi hefur aukizt mjög á Selfossi og í Hveragerði, svo að í héraðinu eru nú 2.574 menn samkvæmt upplýsingum frá landlækni. Ef frv. þetta næði fram að ganga, yrðu þannig 874 menn í Hveragerðislæknishéraði, sem næði yfir Hveragerði og Selvogs- og Ölfushreppa, en í Selfosshéraði 1.700 manns.

Frv. þetta er flutt samkvæmt eindregnum óskum íbúanna í hinu væntanlega læknishéraði, sem hafa reynt að fá lækni út af fyrir sig og á s.l. hausti ráðið til sín lækni og gengizt undir að greiða honum laun. Reynsla þeirra hefur orðið sú, að oft væri erfitt að ná til læknis. Læknirinn á Selfossi er yfirhlaðinn störfum og í rauninni óvinnandi verk fyrir einn mann að gegna þeim, ef hann hefur enga hjálp. Hveragerðisbúar hafa af þeim sökum orðið að sækja lækni niður á Eyrarbakka. Hveragerðisbúar hafa borið það mál upp á sýslufundum í Árnessýslu í undanfarin 2 ár, og þar hefur málið verið tekið fyrir af sýslunefndinni. Hefur hún fallizt á það, að rétt sé að skipta læknishéraðinu í tvö héruð, eins og fram kemur hér í frv.

Það má deila um það, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. N–M., hvaða reglur séu heppilegastar í þessum málum og hvort breyta þurfi um stefnu við afgreiðslu þessa frv. En mér er kunnugt, að hv. nefnd, sem um frv. fjallaði í Nd. og mælir með því, að það verði samþ., hefur leitað álits landlæknis um málið, og mælir hann einnig með því, að það verði samþ. eins og það liggur hér fyrir.

En það er eitt, sem ég kann ekki við í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og það er það, að héraðslækninum á Selfossi skuli ekki veitt tækifæri til þess að fylgjast með afgreiðslu þess, því að þótt hann komi ekki til með að hafa nein áhrif á afgreiðslu, málsins hér á þingi, þá er það þó ekki nema kurteisisskylda gagnvart honum, sem hefur mikla hagsmuni við afgreiðslu þess, en ég geri ekki ráð fyrir, að hann mundi gera neina tilraun til þess að stöðva framgang málsins með áhrifum sínum.

En ég vil vekja athygli á einu atriði, sem laga þyrfti. Í a-lið 2. gr. hefur Selfosshreppur fallið niður í upptalningu hreppa læknishéraðsins. Þetta á rót sína að rekja til þess, að Sandvíkurhreppi hefur nú verið skipt í tvennt, Selfosshrepp og Sandvíkurhrepp, svo að þarna á Selfosshreppur að koma inn í. Ég býst við því, að það megi laga þetta án þess, að frv. fari aftur í gegnum hv. Nd.

Að endingu vil ég svo leyfa mér að vona, að Ed. taki þessu máli vel og samþ. frv.