11.12.1949
Efri deild: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

32. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil þá fyrst taka það fram, að afstaða mín til þessa frv. fer ekki eftir afstöðu minni til tryggingamálanna almennt. Mér þykir eftir atvikum rétt, að þetta félag fái að starfa áfram, en það, sem kom mér aðallega til að biðja um orðið, var það, að ég vildi beina því til hv. n., hvort hin góða afkoma Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja muni ekki stafa af því, að það hafi getað haft betra eftirlit með viðgerðum og því um líku, heldur en Samábyrgðin, sem starfar fyrir allt landið. Ef þetta kæmi á daginn, þá væri ástæða til að skipta verksviði Samábyrgðarinnar í hverfi eða deildir, ef þannig mætti ná betra eftirliti og þar af leiðandi hagstæðari afkomu Samábyrgðarinnar, sem aftur mundi leiða til þess, að hún gæti boðið viðskiptavinum sínum betri kjör. Þessu vildi ég beina til hv. n.