11.12.1949
Efri deild: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

32. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. n. fyrir góða og greiða afgr. á þessu máli og hv. frsm. fyrir það, að hann dró fram, að því er mér virtist, öll meginatriði, sem liggja til grundvallar fyrir því, að þessi sterka ósk er fram komin, þar sem eigendur 65 báta í Vestmannaeyjum hafa sent Alþ. undirskrifaða áskorun um, að málið gangi fram. Það var rétt fram tekið hjá hv. frsm., að þetta mál er búið að koma hér fyrir oft áður og hefur fengið lítils háttar fyrirgreiðslu, en þó ekki það, sem þessir menn sættu sig við.

Ég held það sé ekki ástæða til að fara út í tryggingamálin almennt, og mér þótti vænt um að heyra, að hv. 1. þm. N–M. sagðist ekki binda afstöðu sína til þessa máls við það, sem snerti tryggingamálin almennt, þó að þar væri að sjálfsögðu margt, sem þyrfti athugunar.

Ég held, að sú góða afkoma, sem Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja hefur haft hingað til, standi að nokkru leyti í sambandi við það, að það hefur einmitt ekki tekið á sig jafnmikinn hluta af ábyrgðinni og tíðkast hjá öðrum félögum. Hv. þm., sem síðast talaði, taldi, að það þyrfti að vera hærri styrkur og meiri hlutur tryggður, og það kann að vera rétt frá vissu sjónarmiði, en þess ber að gæta, að því meiri hlutur sem tryggður er og því minna sem hver eigandi hefur í sjálfsábyrgð, því þyngri verða iðgjöldin, og mér skildist það á forstjóra Samábyrgðarinnar, að það stæði á því að fá iðgjöldin greidd og af slæmum fjárhag útgerðarinnar kæmi það, hvað erfitt væri að leysa af hendi tryggingariðgjöld af bátunum, og það gefur auga leið, að því hærri sem tryggingin er, því hærri eru iðgjöldin. Ég hef orðið fyrir því t.d. í prívatrekstri að missa ég held 2 báta, sem tryggðir voru í Bátaábyrgðarfélaginu, og okkar hlutur var ekki stór. Það var langt frá, að við gætum skaffað okkur hálfan bát fyrir þá tryggingarfjárhæð, sem við fengum, en ef alltaf á að elta verðið og hafa trygginguna mjög háa prósentu, þá leiðir af því, að iðgjöldin verða þung. Það er að vísu rétt til getið hjá hv. 1. þm. N-M., að talsvert af því, sem kann að hafa sparazt hjá Bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja, hefur sparazt þann veg, að þeir geta haft betra eftirlit með viðgerðum báta, þegar eitthvað verður að, heldur en hægt er þar, sem um víðlendari tryggingarsvæði er að ræða, en á þessum stað er.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta meir. Ég held, að það sé hyggilega gert af sjútvn. að fallast á þann einlæga vilja, sem fram kemur í óskum Vestmanneyinganna til Alþ. í þessu máli, og það er rétt að horfa ekki fram hjá því, að það er þeim metnaðarmál, að þetta félag, sem komið er hátt á níræðisaldur, sé ekki dregið inn í kerfi, sem þeir álíta sér óhentugt að vera í, og þeir óska að fá að standa á eigin fótum framvegis eins og hingað til, og þeir gera ekki kröfur um, að aðrir landsmenn hlaupi undir bagga með þeim í áföllum. Þeir greiða sín endurtryggingariðgjöld til Samábyrgðarinnar, ég held 100 þús. kr. á ári, svo að það virðist ekki vera nein hætta á ferðinni, þó að þessir menn fái að starfa áfram á þeim grundvelli, sem þeir hafa starfað á. — Ég vil þakka hv. frsm. fyrir það, að hann benti á nauðsynina á að fá þetta lögfest fyrir áramót, því að sú heimild, sem gildir fyrir félagið, rennur út einmitt á því tímabili.