19.12.1949
Neðri deild: 17. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta, sem hv. frsm. n. sagði um þetta frv. Það liggur alveg ljóst fyrir. En viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. S-M. sagði, skal ég taka fram hér nokkur atriði. Aðaltekjuliðurinn í þessum kafla frv. er, eins og menn vita, söluskatturinn, sem er áætlaður í fjárl. fyrir næsta ár 36 millj. kr. Fyrrv. ríkisstj. gerir ráð fyrir, að þessi skattur verði framlengdur, en mér skilst, að ástæðan til þess, að ekki var fyrr gengið í það að framlengja þennan kafla l., sé sú, að menn væru yfirleitt þeirrar skoðunar, að þess þyrfti ekki með, því að hæstv. ríkisstj. hefði að sjálfsögðu annars komið með till. um að framlengja þennan stóra tekjustofn, sem hún tekur upp í sitt fjárlfrv., þ.e.a.s. söluskattinn. Annar liður í þessum kafla er 32. gr., þar eru leyfisgjöld, sem skal innheimta á árinu 1949 með 100% álagi, sem að vísu er tímabundið. En þessa aukningu þarf beinlínis til þess að stand.a undir kostnaðinum við fjárhagsráð og stofnanir þess, þannig að það er hrein yfirsjón hjá fyrrv. stj. að hafa ekki þegar verið búin að framlengja þessa tekjuauka, sem var alveg sjálfsagt og hlýtur að koma inn í fjárlfrv. Þetta kemur núna vegna þess, að menn héldu yfirleitt, að skattarnir væru ekki tímabundnir, en það hefur komið fram nú síðar mjög ákveðið álit frá ýmsum lögfræðingum, að það muni ekki geta staðizt, þegar öll l. séu tekin til athugunar í heild, og þess vegna þótti ríkisstj. rétt, að tekið væri fyrir allan vafa um þetta. Þá er eftir 30. gr., gjöld fyrir innflutningsleyfi. Fyrir þessum gjöldum er ekki gert ráð í fjárlfrv., en þar sem ekki enn þá er vafalaust, hvort gengið verður frá nokkrum ráðstöfunum vegna dýrtíðarinnar og til styrktar atvinnuvegunum, þá þykir sjálfsagt að láta þessa tekjustofna ekki falla niður, meðan ekki er vitað, hvort á þeim þarf að halda í þessu skyni. Og það er, eins og hv. 1. þm: S-M. tók fram, mjög óheppilegt að láta tekjustofna eða tolla falla niður í stuttan tíma eftir árslok, ef þeir á annað borð eru teknir upp síðar á árinu. Mér finnst alveg ástæðulaust að binda þessa framlengingu við janúarlok. Í fyrsta lagi þýðir það ekki með söluskattinn eða þær tekjur, sem fjárhagsráð hefur til að standa undir sínum rekstri. Það er sýnilegt, að þeir tekjustofnar verða að gilda allt árið, svo að það er aðeins tvíverknaður að hugsa sér að framlengja þann kafla til janúarloka. Hins vegar hefur Alþ. í hendi sér að nema úr gildi, hvenær sem er, tekjuöflun samkvæmt 30. gr., ef það kærir sig um.