19.12.1949
Neðri deild: 17. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram, vegna tilefnis, sem hæstv. fjmrh. gaf til þess, að ég hef ætíð verið þeirrar skoðunar, að það þyrfti að framlengja tekjustofna í löggjöf, og ég sé líka, að núverandi atvmrh., fyrrv. fjmrh., hefur veríð á sömu skoðun, því að í grg. fjárlfrv. stendur; með leyfi hæstv. forseta, í athugasemd við 2. gr.:

„Í athugasemd við 19. gr. er gerð grein fyrir mikilli lækkun á framlögum til dýrtíðarráðstafana. Í samræmi við það er ekki gert ráð fyrir, að framlengdir verði tekjustofnar samkv. dýrtíðarl., nema söluskatturinn, sem óhjákvæmilegt er að halda óbreyttum næsta ár, til þess að hægt verði að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög.“

Það er augljóst, að menn hafa álitið, að framlengingar væri þörf, enda er enginn ágreiningur um það. Ég vil svo aðeins segja það, að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh., að það hafi verið yfirsjón hjá fyrrv. fjmrh. að leggja ekki fram frv. um framlengingu söluskattsins með fjárlfrv., að mér finnst hæpið að gera mikið úr því, þegar þess er gætt, að stjórnarskipti voru fyrir dyrum, þegar núv. atvmrh. lagði sitt fjárlfrv. fram Ég tel því ekki ástæðu til að ámæla honum fyrir það, þó að ekki væri lagt fram slíkt framlengingarfrv., þar sem eðlilegt var, að það biði þá eftir mati þess, sem við tæki. Varðandi það, hve lengi framlengingin skuli standa, sagði hæstv. fjmrh., að h.ann sæi ekki ástæðu til annars en að framlengja kaflann fyrir allt árið. En ég sé ekki ástæðu til að framlengja þetta lengur en t.d. til mánaðamóta jan.-febrúar. Það verður að taka þetta mál fastari tökum fyrir þann tíma. Þetta er aðeins liður úr stærra máli, og mér virðist því ekki ástæða til, að framlenging þessi nái lengra fram í tímann, þar sem verður að taka þetta í sambandi við dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna. Ég tel, að með því að framlengja l. þennan tíma sé öruggt, að enginn skattur falli niður, sem menn eru, sammála um, að eigi að standa áfram.