19.12.1949
Neðri deild: 17. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Mér finnst skylt, að ég skýri hér fyrir hæstv. Alþ. þær ástæður, sem gerðu það að verkum, að ég lagði það til, að söluskatturinn héldist áfram í fjárlfrv., án þess að lagt væri fram sérstakt frv. til framlengingar honum. Ef það var eingöngu vegna þess, að sú skoðun var ríkjandi í fjmrn., hjá þeim lögfræðingum, sem ég hafði samráð við um þetta efni, að dýrtíðarl. framlengdust „automatiskt“, ef svo má segja, þ.e. frá þessu ári til næsta árs, að undanskildu því ákvæði, að breyta yrði til orðalagi eða dagsetningu, svo greinilegt sé, að þau eigi við það ár, sem um ræðir. Vegna þessa taldi ég ekki nauðsynlegt að svo komnu máli að leggja fram sérstakt frv. til framlengingar söluskattinum né öðrum sköttum, þar sem ég var þeirrar skoðunar, að ábyrgðarmálið sjálft yrði að taka til gagngerrar breytingar og sennilega skipulagsbreytingar, þegar Alþingi kæmi saman. En aftur á móti taldi ég alls ekki fært að gera ekki ráð fyrir, að fé yrði fyrir hendi til niðurgreiðslu á dýrtíðinni, sem svo er kallað. Eins og hv. þm. mega sjá, er í frv. gerð áætlun um söluskattinn út af fyrir sig, 36 millj. kr. Í 19. gr. er talinn útgjaldaliður til dýrtíðarráðstafana, sem er áætlaður 33,5 millj. kr., og var þar átt við niðurgreiðslur afurða og varnings til neytenda. Nú tók ég eftir því í ræðu hv. 1. þm. S-M., að hann talaði um, að ekki væri nema ein ástæða til fyrir því, að rétt væri að framlengja þennan III. kafla í heild, en hún væri sú, að hann væri til reiðu, ef horfið yrði að því ráði að taka upp ábyrgðargreiðslu á fiski. Það er nú allt þeirra góðu lögfræðinga, sem hér um hafa fjallað síðustu vikur, að framlengja þurfi með lögum þessa skattstofna, ef þeir eigi að vera í gildi áfram, — sem ekki var ríkjandi álit, þegar ég samdi frv., en ég fellst á, að sé um einhvern vafa að ræða í þessum efnum, þá sé rétt að Alþ. segi ákveðið til um það, en fyrst svo er, þá er á það bendandi, að hér er hvað söluskattinn áhrærir svo að segja hliðstæð upphæð, það, sem er í fjárl., er áætlað, að renni til niðurgreiðslu innanlands. Ég tel þess vegna, að fyrsta og veigamesta ástæðan til að framlengja þennan tekjustofn sé sú, að hafa alltaf fé til reiðu til þess að halda áfram niðurgreiðslum innanlands. Ef það er ekki skoðun hv. 1. þm. S-M., þá hlýtur hann að hafa fyrir augum annað tveggja, að niðurgreiðslurnar falli með öllu niður og viðnámi gegn dýrtíðinni, sem hefur verið framkvæmt með því móti, verði þá hætt, eða þá að hann hefur einhvern annan tekjustofn í huga framvegis fyrir ríkissjóð til þess að mæta ýmsum útgjöldum. Þar getur ekki verið nema um tvennt að ræða. Um tekjustofna samkvæmt dýrtíðarl. annars er það að segja, að þegar á síðasta ári fulltrúar úr fjárhagsráði og fulltrúar frá tollyfirvöldunum og fleiri sátu á rökstólum og lögðu fram fyrir ríkisstj. þessa tekjuliði og till. um tekjur og áætlanir samkv. því, þá hafa þeir sjálfsagt haft í huga miklu meiri innflutning á ýmsum þeim vörum, sem áttu að verða undirstaða fyrir þessari tekjuöflun, heldur en raun varð á. Og minnist ég þess sérstaklega, að hv. þm. V-Húnv. var þar einn af helztu ráðgjöfum ríkisstj. í þessu máli, og er hann víst ekki í hópi þeirra manna, sem vilja láta telja sig óvarkára eða skeytingarlausa um fjármál ríkisins, eins og nú er látið af hans flokki hljóma í okkar garð. Sannleikurinn er sá, að reynslan hefur sýnt, að þessir tekjustofnar, sem stj. hefur byggt vonir sínar á, hafa stórlega brugðizt, og fullyrðingar, sem hafa verið hafðar á frammi um aukinn innflutning á neyzluvörum, sem mundu gefa ríkissjóði tekjur til að standa undir fiskábyrgðinni og öðrum niðurgreiðslum, hafa reynzt mjög út í loftið. Þess vegna er hér um að ræða meginpartinn, söluskattinn, og honum er sérstaklega ætlað að standa undir niðurgreiðslu innlendu afurðanna eða varnings og afurða á innlendum markaði. Það mun síðar koma í ljós, hversu mikið, og verður skýrar frá því sagt, hversu mjög sá grundvöllur er ótraustur, sem lagður er fyrir dýrtíðartekjuöflun í einstökum atriðum. Ég ræði það ekki frekar að sinni.

Ég hefði að sjálfsögðu, ef það hefði verið talið vafalaust, þegar fjárlfrv. var samið, lagt fram frv. til framlengingar á söluskattinum og eins um tekjur samkv. 32. gr. sér, en ég vísa til þess, sem ég sagði áðan, að á þeim tíma var það ekki talið vafaatriði, að þessir tekjustofnar héldust í gildi, og hreyfði ég þess vegna ekki neinum aðgerðum í því efni að flytja þau frv., sem hér um ræðir. Það er augljóst mál, að söluskatturinn er meginuppistaðan, a.m.k. 3/4 eða þeirra tekna, sem um ræðir, og í fjárlfrv. er svo að segja tilsvarandi upphæð áætluð til að halda niðri verðbólgunni innanlands með þessum tekjum, og er þá augljóst, að eigi þær ekki að haldast áfram, þá verður annaðhvort að fella niður þennan útgjaldalið eða þá að koma með nýjar tekjur í staðinn. Á þetta vildi ég benda, því að það virðist hafa farið fram hjá hv. 1. þm. S-M., þegar hann hélt því fram, að ekki væri nema ein ástæða til að framlengja þessa tekjuöflun, en hún var sú, að ef horfið yrði að greiðslum uppbóta á sjávarafurðir í janúarmánuði, þá þyrftu þessar tekjur að haldast. En ég segi það, að meginhlutann af þessum tekjum þarf ríkissjóður að fá hvort sem er, ef hann á að halda þeirri stefnu, sem haldið er við í fjárlfrv., sem fyrir liggur, sem sé þeirri, að halda áfram að berjast á móti hækkun á verðlagi á innlendum markaði, til þess að halda niðri dýrtíðinni, berjast á móti því með þeim aðferðum, sem beitt hefur verið hingað til og við beittum, hv. 1. þm. S-M. og ég, meðan við vorum í fyrrv. ríkisstjórn.