19.12.1949
Neðri deild: 17. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég mun aðeins segja nokkur orð á þessu stigi málsins. Ég skal fyrst og fremst geta þess, að ég var þeirrar skoðunar, þegar dýrtíðarl. voru afgr. í lok síðasta árs, að tekjukaflinn gilti aðeins fyrir árið, sem nú er að enda. Og það held ég, að hafi verið tilætlun ríkisstj., þegar hún samdi þetta frv. og hafði sína lögfræðilegu ráðunauta með í því starfi. En eins og hins vegar högum var háttað, þegar Alþ. kom saman, sá ég fyrir mitt leyti sem stjórnarformaður enga ástæðu til þess, þegar stj. hafði beiðzt lausnar, að gera till. um það við fjmrn., að framlengt yrði meira eða minna af dýrtíðarl. Hitt er mér alveg ljóst, að það má ekki ske um þessi áramót, að allar þær tekjur til ríkissjóðs falli niður, sem innheimtar eru eftir 3. kafla dýrtíðarl., hvað sem gert verður í dýrtíðar- og fjárhagsmálum yfirleitt, en um það má deila, hvort sumar af þessum fjáröflunarleiðum séu heppilegar eða hvort þær hafi gefið þann árangur, sem ætlað var í upphafi. Eins og hv. frsm. fjhn., hv. þm. V-Ísf., gat um í upphafi, liggur þegar fyrir þessari d. frv. um að afnema eða breyta f-lið 30. gr., sem er um gjald af innflutningi rafmagnstækja til heimilisnotkunar, og vörubílstjórar hafa leitað til þingfl. og kvartað undan vissum álögum í sambandi við vörubifreiðar. Álít ég koma til athugunar, annaðhvort nú, þegar þetta frv. er afgr., eða eftir lok þessa árs, að breyta l., ef þau verða óbreytt hvað snertir þessa liði, einkum ef það kemur í ljós, að þau gefi miklu minni tekjur, en áætlað var, og skildist mér á hæstv. atvmrh., sem var fjmrh., að svo hafi verið um suma þessa liði. En ég álit ábyrgðarlaust að vera á móti því á þessu stigi, þegar komið er að áramótum, að heimilt sé áfram að innheimta meginhluta þessara tekjustofna, hvað sem síðar verður gert, og ég tel óhjákvæmilegt að framlengja í heild höfuðatriði 3. kafla dýrtíðarl., sem afgr. voru í lok s.l. árs. Ég tel því sjálfsagt, að frv. verði í einhverri mynd samþ., annaðhvort að öllu leyti eða með vissum breyt., sem geti komið til athugunar nú eða upp úr nýári með sérstakri löggjöf þá.