20.12.1949
Neðri deild: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 139 brtt. við 1. gr. frv., um að ákveðnir liðir í 30. gr. l. verði ekki framlengdir og falli niður. Þessir liðir eru viðbótargjöld fyrir innflutningsleyfi. D-liður er um það, að af innflutningsleyfum fyrir bifreiðavarahlutum og bifreiðavélum skuli greiða 50% af leyfisfjárhæð, e-liður, af innflutningsleyfum fyrir hjólbörðum og slöngum, 25% af leyfisfjárhæð, og f-liður, af innflutningsleyfum fyrir rafmagnstækjum til heimilisnota, öðrum en eldavélum og þvottavélum, 100% af leyfisfjárhæð, en af leyfum fyrir þvottavélum 50%.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa komið mjög ítrekuð tilmæli frá húsmæðrum um að fella niður þennan f-lið, og frá bílstjórum, sérstaklega vörubilstjórum, að fella niður þessi gjöld af bifreiðavarahlutum. Hins vegar er þetta ekki neinn stór tekjustofn fyrir ríkið í þessum kafla dýrtíðarl., en tilfinnanlegt fyrir einstaklinga, sem þetta lendir á. Ég vil því vona, að hv. þd. geti orðið með því að samþ. þessa brtt., það væri þar með sýnt nokkurt réttlæti gagnvart þeim mönnum, sem þarna verða óeðlilega fyrir barðinu á álögum ríkisins. Það er almennt viðurkennt, að því er heyrzt hefur á þingfl. undanfarið, að innflutningsgjöld á heimilistækjum séu ranglát, og hvað bifreiðastjórana snertir og álögur á þá, þá er það vitanlegt, að þeir standa verr að vígi nú heldur en þegar þessar álögur voru lagðar á að standa undir þeim, þar sem þeirra vinna fer minnkandi og atvinnuleysi er farið að gera vart við sig. Ég vona þess vegna, að hv. d. geti samþ. þessa till. á þskj. 139.