20.12.1949
Neðri deild: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Finnur Jónsson:

Ég beindi þeim tilmælum til hæstv. forsrh. undir umr. um fjárl., að hann léti í ljós sína skoðun á því, hvernig hægt verði að brúa bilið milli tímans frá því um áramót og þangað til gerðar verða einhverjar ráðstafanir fyrir þá útvegsmenn, sem nú stunda sjó. Að vísu má segja sem svo, að menn hafi oft áður ekki vitað um fiskverðið, og kann að vera nokkuð rétt í því. En hins vegar velt ég ekki, hvort heppilegt er fyrir Alþ. að framlengja einungis annan þátt þessara l., sem eru álögur til ríkissjóðs, sem þá samkv. 1. gr. III. kafla l. eru ætlaðar til ákveðinna nota. Sú gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist dýrtíðarsjóður ríkisins. Skal honum varið til að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru, svo og greiðslum til lækkunar á vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands.“

Um áramót fellur úr gildi I. kafli l., og þess vegna virðist óviðkunnanlegt að taka fé í ríkissjóðinn til ákveðinna nota, sem með niðurfellingu þess kafla eru felld úr gildi. Það má segja, að karlarnir séu ekki of góðir til þess að róa nokkra daga án þess að vita, hvaða verð þeir fá, en þeir selja fiskinn upp úr sjó og þurfa að vita, hvað þeir eiga að fá fyrir hann, og eins sá, sem kaupir fiskinn. Ég vil leyfa mér að benda á þennan ágalla á því að framlengja þennan III. kafla án þess að geta nokkuð um I. kaflann, sem er fiskábyrgðin. Að vísu er ekki almennt farið að róa sunnanlands, en á Vestfjörðum er aðalfiskitíminn gjarnan á þessum tíma, ef gefur á sjó, og þess vegna vildi ég heyra, hvort hæstv. forsrh. gæti gefið mér einhver svör viðvíkjandi þessu, hvort hægt er að fá einhverjar upplýsingar um það frá ríkisstj., hvaða lágmarksverð skuli gilda.