20.12.1949
Neðri deild: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Forsrh. (Ólafur Thors):

Það var út af fyrirspurn hv. þm. Ísaf. til mín. Ég geri ráð fyrir að þetta mál liggi nokkuð ljóst fyrir eftir þær umr., sem farið hafa fram um það, bæði undir umr. um málið sjálft og einnig í sambandi við fyrirspurn frá hv. 1. þm. S-M. varðandi það, hvað ríkisstj. hyggist fyrir um till. til að hindra stöðvun útvegsins um áramótin. Efnislega liggur málið þannig fyrir, að till. um framlengingu á þessum tekjukafla, III. kafla dýrtíðarl., er fram komin vegna þess, að hvorki ríkisstj.Alþ. hafa ráðið við sig enn þá, hvaða leið skuli fara til að leysa vandann, sem við er að etja. En ég hygg, að öllum komi saman um, að það sé óeðlilegt, að skattar, sem gilt hafa 1949 og ætlazt er til að gildi 1950, ef niðurgreiðsluleiðin væri farin, séu felldir niður einhvern stuttan tíma í ársbyrjun 1950. Til þess að girða fyrir, að svo verði, er tekjukaflinn borinn fram. Það er rétt, að þessar tekjur eru ætlaðar ýmist til verðuppbóta eða niðurgreiðslna, en þó er þess að gæta, að megintekjuliður III. kafla, söluskatturinn, er áætlaður í fjárl. til niðurgreiðslna á innlendri framleiðslu. Þetta er sú hlið málsins. Hin hliðin, hvort ríkisstj. treysti sér á þessu stigi til þess að gefa einhverjar yfirlýsingar um, að þeir, sem á sjó róa frá 1. jan. og þar til Alþ. tekur nánari ákvörðun um þetta mál, skuli a.m.k. njóta þeirra fríðinda, sem nú eru í l. varðandi ábyrgð á framleiðsluvöru sinni — þeirri fyrirspurn verð ég að svara neitandi; ríkisstj. hefur ekkert vald til þess. Ég vil hins vegar í þessu sambandi geta þess, að ríkisstj. gerði tilraun til að ná samkomulagi við útgerðarmenn og ræddi við nefnd frá LÍÚ um bráðabirgðalausn til að tryggja þá, sem sjó stunda á meðan Alþ. hefur ekki tekið sínar ákvarðanir og endanlegt verð hefur verið ákveðið. En þessar samningaumleitanir leiddu ekki til neinnar niðurstöðu. Frekari upplýsingar treysti ég mér ekki til að gefa á þessu stigi málsins, og veit ég, að hv. þm. skilur þetta.