20.12.1949
Neðri deild: 20. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé rétt að freista þess að bæta nokkuð afgreiðslu þessa máls á þinginu. Það er þá viðvíkjandi því, að með þessu frv., eins og það nú liggur fyrir, er meiningin að framlengja aðeins III. kafla laganna um dýrtíðarráðstafanir. Ég held, eins og hv. þm. Ísaf. minntist líka hér á nokkuð áðan, að þetta sé ekki rétt, formlega séð, hvað það snertir að framlengja álagningarnar, en að láta falla niður þá ábyrgð, sem álagningarnar eru settar vegna. Það mun að vísu vera rétt, eins og hæstv. forsrh. lýsti yfir, að enn sem komið er er ekki hægt að ná samkomulagi um eða afgr. I. kafla laga þessara, um fiskábyrgðina, þannig að það tryggi nægilegt öryggi fyrir útgerðina. En ég sé hins vegar ekki, af hverju sá kafli mætti ekki haldast í gildi, þangað til þar yrðu gerðar breyt. um. Ég býst við, að allir hv. þm. séu sammála um það, að sú ábyrgð, sem þar er ákveðin, 65 aurar, sé allt of lág. En ég sé enga beina lógíska ástæðu til þess að fella niður þennan kafla þar fyrir. Ég skal viðurkenna, að það mun vera langt frá því, að ábyrgð þessa kafla muni koma útgerðinni nú af stað. En ég fæ ekki séð, að það sé lógískt eða praktískt að fella þennan kafla burt. Ég sé ekki, að ástæða sé til annars en að láta hann haldast eins og III. kaflann. Það er gert ráð fyrir því í frv., sem hér liggur fyrir, að III. kafli þessara laga verði framlengdur fyrir allt árið. En ef þingið sér sér fært að framlengja III. kaflann, fæ ég ekki séð annað, en að eins megi framlengja I. kafla l., og vil bera fram brtt. þess efnis við 1. gr. frv., að á eftir orðinu: „ákvæði“ komi: I. og, — þannig að frvgr. byrji svo: Ákvæði I. og III. kafla laga — o.s.frv. Vil ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt., af því að hún er skrifl. og of seint fram komin.

Þá vildi ég freista þess að reyna að fá samþ. brtt. við 30. gr., sem gengur ekki eins langt og sú, sem felld var hér við 2. umr. þessa máls. Brtt., eins og hún var frá mér, hvað snertir d- og e-liðinn, hefði gilt um hjólbarða, slöngur og bifreiðavarahluti fyrir allar bifreiðar. En ég vil nú freista þess að fá þetta innflutningsgjald undanþegið, þegar um vörubila er að ræða. Það þýðir, að tollabyrðum væri létt af innflutningi til viðhalds þeim bifreiðum, sem notaðar eru í þágu atvinnulífsins. Mín brtt. um þetta mundi hljóða svo: „Við 1. gr. Aftan við orðið „1950“ bætist: þó þannig, að á eftir e-lið 30. gr. komi: Innflutningsgjald á þeim vöru.m, sem um getur í d- og e-lið, skal þó ekki greiða af slíkum vörum, sem ætlaðar eru vörubifreiðum“. — Þetta er praktískt, og þetta er líka framkvæmanlegt, af því að það eru alveg sérstakar tegundir, bæði af varahlutum og hjólbörðum og öðru slíku, sem notað er fyrir vörubifreiðar. En hæstv. ríkisstj. mundi samt sem áður geta haft verulegan hluta af þeim tekjum, sem hún fær af þessum liðu.m. — Mun ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari skriflegu brtt. minni.

Þá er mér ekki grunlaust um, að margir hv. þm. hafi greitt atkv. á móti þeirri brtt., sem ég flutti við 2. umr., vegna þess að d-, e- og f-liðir voru þar saman. Og vil ég freista þess, hvort f-liðurinn einn mundi ekki fást samþ. og undanþágan látin gilda aðeins um heimilistækin. Það kunna ýmsir á meðal hv. þm. að vilja láta þessa undanþágu gilda um heimilistækin, þó þeir vilji ekki láta hana ná til hluta til viðhalds vörubifreiðum. Vil ég því, að greinilega komi fram vilji hv. þm. um þetta efni. Vil ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir skrifl. brtt. frá mér, sem hljóði svo: „Við 1. gr. Aftan við orðið „1950“ bætist:

að undanteknum liðnum f. í 30. gr., sem falli niður“.