20.12.1949
Efri deild: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

76. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég geri nú varla ráð fyrir, að þetta frv. fari í nefnd, þar sem ekki verða fleiri fundir í Nd., og deildin mun því ekki gera breytingar á frv.; en ég vil þó ekki láta þetta frv. koma til atkvæða án þess að gera grein fyrir afstöðu minni til þess.

Með þessu frv. er farið fram á að framlengja stóra nefskatta og tollaálögur, einar þær stærstu, sem Alþingi hefur nokkru sinni samþykkt. Ég var andvígur þessum lögum, er þau voru sett, og tel þau eitt mesta óheillaspor, er Alþingi hefur stigið. Ég er því andvígur framlengingu á þeim, hvort sem er til lengri tíma eða skemmri. Enda þótt frv. kveði aðeins á um framlengingu laganna til janúarloka, mun ég samt sem áður greiða atkv. á móti því. Og ég held, að ef nokkuð gæti orðið til þess að ýta undir það, að þau mál, sem nú kalla að, yrðu tekin til tafarlausrar og ýtarlegrar athugunar, þá væri það að fella þetta frv.