17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

69. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég vil þakka n. fyrir að flytja þetta frv., þó að hún hafi óbundnar hendur um afstöðu til þess. — Ég tel, að hv. þm. Borgf. (PO) hafi í ræðu sinni blandað saman tveimur óskyldum málum. Annars vegar er viðleitni Íslendinga til þess að fá viðurkennda stærri landhelgi umhverfis landið, og hins vegar er lokasamningur okkar við Dani í sambandi við sambandsslitin, sem urðu 1944. Ég tek fyllilega undir það, sem hv. þm. Borgf. sagði um nauðsyn þess, að við legðum allt kapp á það að fá viðurkennda stærri landhelgi, enda hefur verið ötullega að því unnið hin síðari ár. Fyrir nokkru voru sett lög, sem heimiluðu ríkisstj. Íslands að yfirlýsa friðað svæði umhverfis landið. í beinu sambandi við þá löggjöf var viðleitni Íslendinga til þess að fá friðaðan Faxaflóa, og það er rétt, að búið var á s.l. sumri að bjóða til fundar hér á landi til þess að fá alþjóðlegt samþykki á slíkri friðun. Það er rétt, að Bretar neituðu þátttöku í þeim fundi, en það er ekki rétt — og það tel ég mér skylt að leiðrétta hjá hv. þm. Borgf. að Bretar hafi gert það vegna þess, að þeir hafi vitnað í eða byggt á samningnum frá 1901. Það töldu Bretar þessu máli óskylt, heldur töldu þeir ekki ástæðu til þess að taka þátt í þessum fundi af því, að þeir töldu eðlilegt, að þessu máli yrði fram haldið innan þess ramma, sem samið var um í London 1946, frekar en 1945, um friðun fiskimiða á þessum slóðum. Við skulum að vísu ekki dylja okkur þess, að Bretar hafa ekki sama áhuga fyrir Faxaflóa og við, en þeir viðurkenndu þó í svari sínu, að þeir væru að meginstefnu til ekki andvígir þessari friðun og byggðu í engu á samningnum frá 1901, heldur eingöngu á þessum samningi í London frá 1946 og töldu, að eðlilegast væri, að Íslendingar, sem þá höfðu ekki staðfest þennan samning, hreyfðu málinu innan ramma þess samnings. Við töldum, að þetta sjónarmið Breta væri rangt. Það er að vísu mál út af fyrir sig um staðfestingu á samningnum frá 1946, sem ekki skal farið út í í þessum efnum, en það kemur ekki við neinum skiptum okkar við Dani eða þeirri samningsgerð, sem Danastjórn gerði fyrir hönd okkar Íslendinga 1901. Getur það því legið í þagnargildi í þessu sambandi. En afleiðingar af afstöðu Breta urðu þær, að íslenzka ríkisstj. sagði upp samningnum frá 1901 til þess að hafa frjálsari hendur um þessi mál. Í framhaldi af setningu l. frá 1948 og uppsögn samningsins frá 1901 hafa svo fulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum tekið upp baráttu fyrir því, að landhelgismál Íslendinga yrðu tekin sem 4. efsti liður á dagskrá lögfræðinganefndar Sþ. Bretar voru því mjög andvígir, að lögfræðinganefndin tæki málið á dagskrá svo ofarlega, og er það ánægjulegur sigur fyrir Íslendinga að fá þessu framgengt, og sýnir þetta gildi samstarfs okkar í alþjóðasamvinnu, að fá þetta fram þvert ofan í vilja brezka stórveldisins, og hefði annað eins og þetta einhvern tíma þótt tíðindum sæta. En þótt þarna hafi unnizt ánægjulegur sigur þá er þetta aðeins eitt af fyrstu skrefunum í sókn Íslendinga að því marki að fá viðurkennda stærri landhelgi, en þetta gefur góð fyrirheit um, að því marki verði náð, ef á málum er haldið með festu og allir möguleikar eru nýttir. Þurfum við því alls ekki að vera vonlausir um að fá á næstunni viðurkennda stækkun landhelgi okkar. Ég hef nú sýnt fram á að, að því hefur undanfarið verið unnið með þó nokkrum árangri, og drep ég á þetta af því, að hv. þm. Borgf. kom nokkuð inn á þetta mál, enda þótt það sé alveg óskylt því máli, sem hér er til umr. Samþykkt þessa frv. spillir í engu möguleikum okkar til að víkka út landhelgina. Hér er eingöngu um það að ræða að veita Færeyingum mjög takmörkuð réttindi til fiskveiða í íslenzkri landhelgi, og tel ég, að ekki beri að skoða það mál í sambandi við hið meira málið, sem er stækkun landhelginnar, og tel það engan veginn líklegt til þess að spilla fyrir framgangi í þeim efnum. En ef við felldum þetta frv., þá mundi það verða til þess að baka okkur allmikla örðugleika í sambandi við önnur atriði. Við eigum enn eftir að semja við Dani um nokkur atriði varðandi alger sambandsslit Danmerkur og Íslands, og eru það Danir, sem nú sækja á um að hraða þeim samningum. Ég hef álitið, að ekkert lægi á í þeim efnum, og tel, að af Íslands hálfu sé það beinlínis rangt að hraða þessum samningum, fyrr en málin liggja ljósara fyrir, en þau gera í dag. Þessi atriði, sem ég hef minnzt á, eru annars vegar handritamálið og hins vegar kröfur okkar um réttindi á Grænlandi. Ég held, að handritamálið nálgist brátt heppilega lausn, og tel, að það mundi spilla fyrir málinu, ef við hefðum í svipinn uppi frekari kröfugerðir. Ef um endanleg sambandsslit væri að ræða, yrðum við að bera fram formlegar réttindakröfur um handritin, en slíkt mundi, eins og sakir standa, aðeins spilla fyrir framgangi málsins. Sama er að segja um kröfur okkar til Grænlands. Ég hef nú raunar ekki eins mikla trú á réttindum okkar í því efni sem hv. þm. Borgf., en ég hef þó þegar stofnað til rannsóknar færustu lögfræðinga á rétti okkar til Grænlands, og ef Íslendingar þyrftu að semja endanlega um þessi mál, áður en við höfum gert upp hug okkar um kröfurnar til Grænlands, þá geta Íslendingar glatað rétti, sem þeir e.t.v. kynnu að eiga. Ég held því, að það sé í alla staði skynsamlegra að hraða ekki þessum samningum. Að vísu tel ég, að við mundum í sjálfu sér ekki glata miklum rétti, en við værum settir í afstöðu, sem kæmi okkur mjög illa. Ef við nú viljum ekki samþ. þetta litla frv., þá er erfitt að skjóta endanlegri samningsgerð um full sambandsslit á frest, ef Danir vilja knýja um í því efni. Því held ég, að það sé beint hagsmunamál íslendinga að samþykkja þetta frv. að þessu sinni, og ég tel engan veginn hugsanlegt, að það spilli fyrir stækkun landhelginnar, og sé ég því aðeins einhliða hag í að samþ. frv. Réttindin, sem Færeyingar fá með samþykkt þessa frv., eru svo lítil, að þau skaða okkur ekki. Ég hef að vísu heyrt hér á göngum þingsins, að þeir hafi tekið sér meiri rétt, en þeim var heimill, en það er hreint löggæzluatriði og þarf ekki að koma í veg fyrir, að þetta frv. verði samþ.

Skora ég því á hv. þm. að veita frv. góðan og greiðan framgang.